94 ára leiðsögumaður í Landmannalaugum

Stór hópur eldri borgara frá Selfossi kom við í Landmannalaugum fyrir skemmstu á hálendisferð um Fjallabak nyrðra. Leiðsögumenn hópsins vöktu athygli og þóttu standa sig afburðavel. Annar þeirra er 94 ára og hinn 85 ára.

Landmannalaugar eru vinsæll viðkomustaður ferðamanna yfir sumartímann og þó að erlendir ferðamenn séu orðnir afar fjölmennir eru líka margir Íslendingar sem heimsækja þessa náttúruperlu í lengri eða skemmri tíma.

Eldriborgarar_inni.jpg
Þröngt mega sáttir sitja. Sumir borðuðu nestið sitt á pallinum við skálann.

Á dögunum kom stór hópur eldri borgara frá Selfossi við í Landmannalaugum, alls 104 ferðalangar á tveimur rútum. Örlygur Karlsson sem er formaður ferðanefndar eldri borgara á Selfossi skipulagði ferðina ásamt samnefndarmönnum sínum, þeim Sigurði Sigurðarsyni og Helgu Guðrúnu Guðmundsdóttur.

Medskalaverdi.jpg
Örlygur Karlsson, formaður ferðanefndarinnar ásamt Bergþóri Bjarka Guðmundssyni, skálaverði FÍ

Hópurinn fór á einum degi Dómadalsleið um Fjallabak nyrðra, í Eldgjá og Skaftártungu. Að sjálfsögðu var komið við í Landmannalaugum þar sem hópurinn tók hádegisverðarhlé. ,,Skálaverðir FÍ voru mjög hjálplegir en við vorum með nesti og fengum að setjast inn í skála Ferðafélags Íslands til að borða," segir Örlygur sem segir hópinn hafa verið heppinn með veður.

,,Við fengum góða fjallasýn á Bláhnúk og fjöllin í kring og reyndar líka á Heklu og öll fallegu grænu fjöllin á leiðinni," segir Örlygur.

LeidsogumenniLaugum.jpg
Fróðir leiðsögumenn. Jón R. Hjálmarsson og Óskar Ólafsson.

Leiðsögumenn hópsins vöktu athygli og uppskáru lof fyrir leiðsögn sína og fróðleik. Jón R. Hjálmarsson, 94 ára fullgildur leiðsögumaður í félagi leiðsögumanna, leiðsagði hópnum fyrri hluta leiðarinnar um Fjallabaksleiðina og Óskar Ólafsson, 85 ára svæðisleiðsögumaður, fæddur í Mýrdalnum tók svo við í Skaftártungu og leiðsagði um sitt heimasvæði.

Örlygur segir að hópurinn fari í um það bil fjórar ferðir á hverju sumri en þetta hafi verið lengsta ferðin í ár. ,,Það var gaman að fara um hálendið því við höfum ekki mikið farið þangað í þessum ferðum okkar."