95 þátttakendur skráðir á Hvannadalshnúk.

Nú hafa 95 þátttakendur skráð sig í ferð FÍ á Hvannadalshnúk um Hvítasunnuna. Hámarksfjöldi í ferðina er 100 og því fimm sæti laus. Haraldur Örn Ólafsson er fararstjóri í ferðinni ásamt 14 fararstjórum FÍ.  Þátttakendur hafa þegar hafið undirbúning fyrir ferðina með gönguferðum og líkamsrækt af ýmsu tagi.  Árið 2005 fór FÍ með 140 þáttakendur á Hvannadalshnúk í einni ferð og er það mesti fjöldi sem gengið hefur á Hnúkinn í einni ferð  en FÍ  hefur síðan sett hámarksfjölda 100 í ferðina.

Undirbúningsfundur fyrir gönguna á Hnúkinn verður í maí en margir hafa þegar hafið æfingar; gönguferðir og almenna líkamsrækt fyrir ferðina.

Gönguferðir á Hvannadalshnúk komust í tísku á meðal landsmanna fyrir nokkrum árum og ætluðu þá margir sér að skreppa á hæsta tind landsins án þess að gera sér nákvæmlega grein fyrir hversu erfið ganga það er.

FÍ hefur hvatt þátttakendur til að hefja undirbúning fyrir ferðina nokkrum mánuðum fyrir gönguna og meðal annars staðið fyrir æfingaprógrammi fyrir ferðina.

Gott er að æfa 3 - 4 x í viku.  Gönguferðir og fjallgöngur er besta æfingin og ágætt að fara í 1 - 2 gönguferðir í viku og auk þess einu sinni eða tvisvar í ræktina, sund, út að hlaupa, á skíði eða stunda aðra hreyfingu.

Gönguferðir eða æfingar þurfa ekki að taka langan tíma,  45 - 90 mínútur,  en þegar dregur fram í apríl er gott að fara í eina og eina lengri gönguferð,  4 - 6 tíma.  Alhliða líkamsrækt er best en ágætt að huga sérstaklega að fótaæfingum.

Fjallgöngur í nágrenni Reykjavíkur er tilvalin æfing fyrir Hvannadalshnúk og má þar benda á Helgafell, Úlfarsfell og Esjuna, auk Keilis og Víflilsfells.

Bent er á gönguferðir FÍ, dagsferðir og fjallgöngur, sem og morgungöngurnar í maí sem tilvalin undirbúning fyrir göngu á Hvannadalshnúk.  

Ganga á Hvannadalshnúk tekur um 12 - 15 tíma í rólegri samfelldri göngu með nokkrum stuttum nestisstoppum.

 

 

Hvanndals 07