Á ermalausum bol

Ríflega hundrað manna hópur í 52 fjalla verkefni Ferðafélags Íslands gerði góða reisu inn í Þórsmörk um liðna helgi. Hópurinn hreppti rjómablíðu og gekk á gönguskóm og ermalausum bol um allar koppagrundir.

alofti

Alls höfðu fimm fjöll bæst við fjallasafn ferðalanganna eftir helgina eða Rjúpnafell og Tindfjöll í Þórsmörk, norðan Krossár og Útigönguhöfði og Réttarfell á Goðalandi, sunnan Krossár. Ferðinni var svo slúttað uppi á Stóru Dímon við Markarfljót þar sem fararstjórinn Páll Ásgeir Ásgeirsson gerði sér lítið fyrir og flutti Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar, allar 82 ljóðlínurnar, blaðlaust fyrir hópinn.

Rjúpnafellið_optUtigonguhofdi_opt

52 fjalla verkefni FÍ hefur, eins og nafnið gefur til kynna, það að markmiði að ganga á 52 fjöll á einu ári. Þátttakendur skrá sig til leiks í upphafi árs og ganga saman í gegnum súrt og sætt, jafnt sól sem hríðarhraglanda út árið. Hér læra menn að búa sig til fjalla í öllum veðrum, bindast vinaböndum í skemmtilegri hreyfingu og fræðast um sögu, jarðfræði og gróðurfar landsins í leiðinni.

Um næstu helgi mun 52 fjalla hópurinn ganga á Skessuhornið sem verður 28. fjall hópsins á þessu ári.
Tinna Stefánsdóttir, einn þátttakenda í 52 fjalla verkefninu í ár, tók allar meðfylgjandi myndir.

Ermalausum bol_opt

Frekari upplýsingar um verkefnið má sjá hér: http://www.fi.is/ferdir/eitt-fjall/eitt-fjall-a-viku/.

Hér má skoða myndir úr nokkrum gönguferðum hópsins það sem af er ári: http://www.fi.is/myndir/set/72157629037954083/