Ríflega hundrað manna hópur í 52 fjalla verkefni Ferðafélags Íslands gerði góða reisu inn í Þórsmörk um liðna helgi. Hópurinn hreppti rjómablíðu og gekk á gönguskóm og ermalausum bol um allar koppagrundir.
Alls höfðu fimm fjöll bæst við fjallasafn ferðalanganna eftir helgina eða Rjúpnafell og Tindfjöll í Þórsmörk, norðan Krossár og Útigönguhöfði og Réttarfell á Goðalandi, sunnan Krossár. Ferðinni var svo slúttað uppi á Stóru Dímon við Markarfljót þar sem fararstjórinn Páll Ásgeir Ásgeirsson gerði sér lítið fyrir og flutti Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar, allar 82 ljóðlínurnar, blaðlaust fyrir hópinn.
52 fjalla verkefni FÍ hefur, eins og nafnið gefur til kynna, það að markmiði að ganga á 52 fjöll á einu ári. Þátttakendur skrá sig til leiks í upphafi árs og ganga saman í gegnum súrt og sætt, jafnt sól sem hríðarhraglanda út árið. Hér læra menn að búa sig til fjalla í öllum veðrum, bindast vinaböndum í skemmtilegri hreyfingu og fræðast um sögu, jarðfræði og gróðurfar landsins í leiðinni.
Um næstu helgi mun 52 fjalla hópurinn ganga á Skessuhornið sem verður 28. fjall hópsins á þessu ári.
Tinna Stefánsdóttir, einn þátttakenda í 52 fjalla verkefninu í ár, tók allar meðfylgjandi myndir.
Frekari upplýsingar um verkefnið má sjá hér: http://www.fi.is/ferdir/eitt-fjall/eitt-fjall-a-viku/.
Hér má skoða myndir úr nokkrum gönguferðum hópsins það sem af er ári: http://www.fi.is/myndir/set/72157629037954083/