Á sögulegum slóðum yfir í Hvanndali

Ferðafélagið stóð fyrir ferð í Héðinsfjörð og Hvanndali fyrir verslunarmannahelgi. Ferðin var sérstök fyrir þær sakir að ekki hafði verið gengið áður með hópa um hluta leiðarinnar.  Gengið var á Siglufjarðarfjöll fyrsta dag, þ.e. upp í Siglufjarðarskarð, á Illviðrahnúk, á Snók og yfir á Stráka.  Á öðrum degi var siglt á Siglunes, gengið inn Nesdal og farið um Pútuskörð yfir í Héðinsfjörð. Á þriðja degi var gengið frá Vík í Héðinsfirði, út með firði, klöngrast niður í fjöru og gengið eftir flughálu fjörugrjóti, vaðið í sjó fyrir forvaða, út í Hvanndali, leið sem ung kona gekk síðast 1859 til að sækja eld í Héðinsfjörð. Lokadaginn var gengið úr Hvanndölum á Hvanndalabjarg, hæsta standberg landsins sem rís beint úr sjó.

Ferðin gekk vel í alla staði, veðurbliðan lék við göngufólk og stórbrotin náttúran á þessum afskekktu slóðum skartaði sínu fegursta.

Fararstjórar í ferðinni voru Páll Guðmundsson og Auður Kjartansdóttir