Áætlun 2016

Áætlun Ferðafélags Íslands fyrir næsta ár, árið 2016, er komin á heimasíðuna. Sjá allar ferðir hér.

Athugið að byrjað verður að bóka í ferðir næsta árs, mánudaginn 11. janúar.

Áætlunin hefur sjaldan verið eins fjölbreytt. Fleiri ferðir eru í boði en undangengin ár, úrval áfangastaða er meira, getustigið víðfemt og ferðamátinn margháttaður.

Í boði eru ferðir fyrir alla getuhópa, byrjendur og lengra komna, allt frá rútuferðum og upp í 4 skóa þrekvirki og ferðamátarnir eru afar fjölbreyttir; gangandi, hjólandi, á fjallaskíðum eða gönguskíðum.

Áfangastaðirnir eru vítt og breitt um landið. Nefna má gönguskíðaferð á Drangajökul, bækistöðvarferð á Langanesi, sögugöngu á Jökuldal, fjallahjólaferð um Kjöl, jógaferðir á Hornstrandir, háfjallaveislu á Tröllaskaga, fáfarna tinda í Lóni, baðferðir í Holuhraun og svo mætti lengi telja.

Enginn þarf að sitja eftir heima, því allir aldurshópar geta tekið þátt í ferðum FÍ. Fjölmargar ferðir eru í boði á vegum Ferðafélags barnanna og hið nýstofnaða Ferðafélag unga fólksins kemur sterkt inn með margvíslegar skemmtiferðir um fjöll og firnindi, bæði styttri göngu- og hjólatúra sem og lengri gönguferðir.

Áætlunarbæklingur FÍ er í prentun og verður dreift til félagsmanna strax eftir áramót eins og hefðbundið er, eða dagana 7.-8. janúar. Byrjað verður að bóka í ferðir næsta árs, mánudaginn 11. janúar á skrifstofu FÍ, í síma: 568 2533. Hægt er að bóka í fjallaverkefni FÍ fyrir jól og eins er tilvalið að stinga gjafabréfum fyrir ferðir eða fjallaverkefni í jólapakkana.

Ferðanefnd Ferðafélags Íslands, undir styrkri stjórn Sigrúnar Valbergsdóttur, er þakkað fyrir kraftmikið og fórnfúst starf.

Ferðaáætlun Ferðafélags Íslands 2016. Gjörið þið svo vel!