Félagar í Ferðafélaginu geta sótt um aðgang að skálum félagsins að vetrarlagi, jafnvel þótt í þeim sé enginn skálavörður nema á sumrin. Stefán Jökull Jakobsson er umsjónarmaður skálanna.
FÍ rekur 16 skála víðsvegar um landið. Ekki er mikið um það að sögn Stefáns Jökuls að fólk nýti sér skálana að vetrarlagi enda getur verið ákaflega erfitt að komast í þá vegna færðar og veðurs. En möguleikinn er til staðar sem æ fleiri nýta sér.
Undantekningin er skáli FÍ í Landmannalaugum. Þar er skálavörður allt árið og stöðugur straumur fólks, í dagsferðum eða til lengri dvalar. Hvað varðar skálann í Landmannalaugum er því mikilvægt að athuga fyrst hvort pláss sé laust áður en lagt er í hann.
Hvað aðra skála varðar, geta félagsmenn einfaldlega slegið á þráðinn til skrifstofu FÍ og spurst fyrir, eða bókað skála hér. Ef ekkert er að vanbúnaði er næsta skref að sækja lykla á skrifstofuna, borga gjaldið og skrifa undir nauðsynlega pappíra.
„Í öllum skálunum er gashiti, eðlilegur vetrarbúnaður og vetrarkamrar. En það er engin þjónusta,“ segir Stefán. „Grunnreglan er sú að fólk skilji við skálann í betra ásigkomulagi en það kom að honum.“
Ef allir hugsa þannig, þá verður allt í sóma, segir Stefán. Heilt yfir segir hann að umgengnin sé til fyrirmyndar. Þó kemur auðvitað fyrir að fólk gleymi einhverju.
„Fyrir utan að þrífa vel og ganga frá, að þá er mjög mikilvægt að taka allt rusl og ekki skilja eftir vökva í ílátum. Svo þarf að muna að loka öllum gluggum og hurðum.“
Ef dvalið er í skála FÍ að vetrarlagi ber fólki að tilkynna skrifstofu FÍ um ástand skálanna og hvort eitthvað bjáti á, til dæmis hvort skortur sé á gasi eða einhverju öðru. Það er mjög mikilvægt að þessar upplýsingar berist.
Stefán Jökull hefur haft umsjón með viðhaldi skálanna í um 5 ár. Hann gjörþekkir þá alla. Eins og gefur að skilja getur ýmislegt gengið á uppi á hálendi og viðhaldið er því nokkuð umfangsmikið.
„Þetta eru hús sem eru lítið notuð stærstan hluta af árinu og þau eru öll á verulega erfiðum stöðum veðurfarslega. Það safnast líka raki í þeim yfir veturinn. Þannig að þegar vorar blasir við töluverð málningarvinna, viðgerðir á klæðningum og fleira. Og það þarf að þurrka húsin almennilega.“
Hvaða skálana varðar stendur veturinn alveg fram í miðjan júní. Þá hefst sumargæsla. Undantekningin frá þessu er vitaskuld Landmannalaugar, en einnig skálinn í Langadal í Þórsmörk. Sumargæsla hefst þar í byrjun maí.
„Annars stýrist opnun skálanna mest af því hvenær Vegagerðin gefur grænt ljós,“ segir Stefán.
Fram að þeim tíma kemst enginn að skálunum nema fuglinn fljúgandi. Já, og auðvitað fólk á sérútbúnum jeppum, snjósleðum og/eða gönguskíðum.