Að hugsa og ganga - Páll Skúlason

 

Páll Skúlason

Páll Skúlason

Að ganga og að hugsa

Hugleiðing á 80 ára afmæli Ferðafélags Íslands

Ég vil byrja á því að óska Ferðafélagi Íslands hjartanlega til hamingju með afmælið og þakka fyrir þann heiður að fá að ávarpa það á þessum hátíðisdegi. Starfsemi Ferðafélagsins er ekki síst fólgin í gönguferðum og í mínum huga er heimspeki fyrst og fremst ákveðin tegund af andlegri gönguferð. Þess vegna vil ég bjóða ykkur með mér í stutta andlega og persónulega gönguferð um lendur tiltekinna hugmynda sem tengjast eðli og tilgangi Ferðafélags Íslands.

Ferðin hefst með ofurlítilli frásögn af rökræðu tveggja heimspekinga þar sem sagnirnar eða réttara sagt athafnirnar að ganga og að hugsa koma við sögu.

Ein frægasta kenning franska heimspekingsins René Descartes er sú að staðreyndin að ég hugsa sé óvefengjanleg og að í henni felist uppgötvun á veruleika sjálfs mín sem hugsunar: ég hugsa, þess vegna er ég. Enski heimspekingurinn Thomas Hobbes setti fram gagnrýni á þessa kenningu með því að búa til hliðstæða rökfærslu: Í stað þess að segja „ég hugsa“, skulum við segja „ég geng“. Má þá ekki – spyr Hobbes – með sama hætti og Descartes dregur þá ályktun af þeirri staðreynd að ég hugsa, að ég sé hugsun, draga þá ályktun af þeirri staðreynd að ég geng, að ég sé „ganga“?! Það virðist fáránlegt og með sama hætti virðist óleyfilegt að álykta að af þeirri staðreynd að ég hugsa þá sé ég hugsun!

Hvað kemur þetta nú við Ferðafélagi Íslands? Ég gef mér hér að helsta iðja félaga í Ferðafélaginu sé sú að ganga og helst saman í hóp um náttúru Íslands. Einbeitum okkur fyrst að fyrra atriðinu, því að ganga, ég kem svo að náttúrunni undir lokin. Spurningin er þessi: hvernig tengist athöfnin að ganga sjálfum mér, við þá veru sem ég er, sem hvert okkar er? Hobbes gaf sér að athafnirnar að ganga og að hugsa tengdust mér með sambærilegum hætti. Ég geng og hugsa, þess vegna er ég ganga og hugsun! Descartes hefði sennilega orðað þetta öðruvísi: ég geng, þess vegna er ég gangandi vera á meðan ég geng, rétt eins og ég er hugsandi vera á meðan ég hugsa.  Hver er þá munurinn á því að vera gangandi vera og að vera hugsandi vera?

Þið eruð sennilega löngu búin að átta ykkur á því. Ég geng sem líkamleg vera, ég hugsa sem andleg vera. Um þennan greinarmun segir Descartes að hann sé skýr fyrir skilninginum, en að fyrir skynjun okkar sé hann afar óskýr: Við skiljum öll fyrirhafnarlaust greinarmun líkama og sálar, en við skynjum hann ekki í reynslu okkar. Reynsla okkar af sjálfum okkur er reynsla af líkamlegri veru sem finnur til og veit af sjálfri á tilteknum stað í rúmi og tíma. Tilfinningin og vitundin af sjálfum sér verður ekki greind frá vitundinni af líkama sínum. Allt sem við nemum og gerum með líkama okkar hefur því áhrif á vitund okkar af sjálfum okkur.

En hver er þá þessi vera sem segist vera ég? Hver er ég sjálfur, hver ert þú sjálf? Þetta er gáta sem heimspekingar og fjöldi annarra fræðimanna hefur brotið heilann óspart um að minnsta kosti síðustu 2500 árin. Og gera enn. En þessi gáta er ekki fyrst og fremst fræðilegur vandi, heldur nauðahversdagslegt lífsvandamál. Engin manneskja kemst hjá því að standa frammi fyrir sjálfri sér, lifa með sjálfri sér og takast á við sjálfa sig hvern einasta dag – að minnsta kosti á meðan hún er með sjálfri sér. Veitið orðalaginu „að-vera-með-sjálfum sér“ eftirtekt. Með því er átt við að vera sér meðvituð eða meðvitaður um sjálfan sig og það sem maður er að gera. Sá sem er ekki með sjálfum sér gerir hluti sem honum er ekki sjálfrátt um.

Í hversdagslífinu göngum við að því vísu að við séum með sjálfum okkur og eitthvað alvarlegt sé að ef svo sé ekki. Og vegna þess hve þetta er ofurvenjulegt hættir okkur til að vanmeta vandann og verkefnið sem er órofa tengt því „að-vera-með-sjálfum-sér“. Sannleikurinn er sá að í hversdagslífi okkar veitum við sjálfum okkur yfirleitt sáralitla eftirtekt, erum sjaldnast fyllilega „með-sjálfum-okkur“, heldur látum stjórnast, eins og skáldið kvað, af „hefð og löggrónum vana/að ljúga sjálfan sig dauðan“. Það þarf eitthvað að koma fyrir, eitthvað sem lætur okkur hrökkva í kút, til þess að við veitum sjálfum okkur eftirtekt, það er að segja sjálfum okkur sem sjálfsvitandi verum, verum sem þurfa að hafa fyrir því að vera þær sjálfar.  

Hvers vegna þarf maður að hafa fyrir því að vera maður sjálfur? Af því að hin sjálfsvitandi vera, sem hvert okkar er, er sem slík í lausu lofti og verður sjálf að staðsetja sig í heiminum. Með öðrum orðum: Hugur, andi, sál og sjálf – allt eru þetta orð sem vísa á veruleika sem er bókstaflega óhöndlanlegur, ósýnilegur, og samt það sem gerir okkur að því sem við erum, vitandi verur, sem verða sjálfar að tengja sig við veruleikann, við eigin líkama, við annað fólk, við rúmið og tímann, staðinn og stundina, sem við lifum á hverju andartaki.

Hin meðvitaða tenging felst í að segja sjálfum sér og öðrum hvað skipti máli og hvað ekki, hin meðvitaða tenging er ákvörðun, afstaða, val: Þið hafið valið Ferðafélag Íslands. Hvers vegna?

Ferðafélag Íslands er í mínum huga félag hinna fótgangandi. Gangan í þessu félagi hefur ákveðinn tilgang annan en þann sem ganga hefur til dæmis þegar við göngum á milli búða, á milli herbergja eða þegar maður gengur út sér til hressingar að afloknum ströngum degi; þá gegnir gangan ákveðnum tilgangi sem er óháður göngunni sjálfri; í stað þess að ganga út sér til hressingar mætti eins fara í steypibað eða sund. Gönguför á vegum Ferðafélagsins hefur sem slík þann tilgang að gefa þátttakendunum tækifæri á því að fara í gönguferð um Ísland. Gangan hefur í þeim skilningi tilgang í sjálfri sér.

Nú hvarflar ekki að mér að ætla að segja ykkur hvaða tilgangi það þjóni að ferðast fótgangandi á vegum Ferðafélags Íslands. Það vitið þið betur en ég. En mig langar til að nefna fræðilegar hugmyndir tveggja heimspekinga um það hvað það er að vera maður sjálfur sem ég bið ykkur að íhuga á næstu gönguför um landið. Hugmyndir þessar tengjast ákveðnum einkennum samtímans: rótleysi, öryggisleysi og merkingarþrá. Heimspekingarnir eru Skotinn David Hume og Þjóðverjinn Immanúel Kant.

Hume var að bregðast við hugmynd Frakkans Descartes sem áður er nefndur um sjálf okkur sem hugsandi verur. Hume efaðist um að nokkuð væri til sem kalla mætti með réttu sál eða sjálf vegna þess að við skynjuðum aldrei sjálf okkar, heldur einungis síbreytilegt hugarástand okkar og ímyndanir allt eftir hinum ólíku skynhrifum sem við yrðum fyrir. Við værum í rauninni ekki til sem sjálfstæðar hugsandi verur, heldur sem hver önnur dýr sem létu stjórnast af þeim hvötum og ástríðum sem eru að verki í þeim. Við værum ekki, eins og Platon og Descartes hefðu ef til vill sagt, andleg vera fjötruð við líkama dýrs, heldur ástríðurfullur líkami sem þyrfti að samhæfa óendanlegan fjölda skynhrifa, ímyndana og hugmynda til að takast á við lífið og tilveruna.

Þýski heimspekingurinn Immanúel Kant tók að sér það verkefni að andmæla efahyggju Humes og renna stoðum undir þá kenningu að sjálf okkar hlyti að vera til þótt við gætum ekki skynjað það beint og milliliðalaust. Sjálfið samhæfði allar skynjanir, athafnir og ímyndanir og gæfi okkur tilfinningu fyrir varanleika okkar sjálfra og heimsins. Rök Kants voru í fæstum orðum þau að ef við gerðum ekki ráð fyrir því að við værum skynsemi gæddar verur með hugtök um sannleika, réttlæti og fegurð á valdi okkar og hugsjónir um guðdóminn, sjálf okkur og veruleikann í heild sinni að leiðarljósi, þá væri reynsluheimur okkar, hversdagsleikinn sjálfur, hrein ringulreið. Veröldin væri eitt villuráf, sannleikurinn sýndin ein.

En kann ekki einmitt svo að vera? Sýnir ekki nútíminn með öllu sínu rótleysi, öryggisleysi og innantómu málæði um peninga og fjármál, einkavæðingu og andlausa gullkálfa að ógleymdum auglýsingunum og áróðrinum sem fyllir fjölmiðlana að fólk hefur ekkert ráðrúm til að vera með sjálfu sér og að því sé heppilegast að skeyta hvorki um hugmyndir né rök nema þá til þess að skara eld að eigin köku?

Hvorki Hume né Kant hefðu unað þessari niðurstöðu. Hvort sem við gerum ráð fyrir því að sjálfið sé ekki annað en knippi skynhrifa eða að það sé sjálfstæð vera, þá er grundvallarlífsvandi okkar sá að takast á við sjálf okkur og læra að lifa með sjálfum okkur. Vissulega einkennist mannfélagið með öllum sínum asa og óþreyju af því að fólk hópast saman í bæjum og borgum þar sem kynnt er undir fýsnum þess og veraldargæðin með verðbréfin í broddi fylkingar eru helstu áhugamálið og áhyggjuefnið. En þessar staðreyndir réttlæta engan veginn að við förum að líta á sjálf okkur sem andlausar verur ofurseldar framandi öflum, „baulandi eftir töðumeis“ eins og Grímur Thomsen kvað. Þvert á móti eiga þessar staðreyndir um það hvernig mannfélagið vinnur iðulega gegn mennsku okkar að brýna okkur til að finna leiðir til að berjast fyrir mennskunni, fyrir manneskjunni sem hugsandi veru.

Tilgáta mín er sú að Ferðafélag Íslands hafi verið stofnað til að gefa fólki kost á að takast á við það verkefni að vera eitt með sjálfu sér á ferð úti í náttúrunni, laust undan sefjun múgsins, laust úr fjötrum mannfélags sem fer með fólk eins og það væri skyni skroppið og skeytti ekki um neitt annað en efnisleg gæði.

En hvers vegna skyldi Ferðafélagið leggja áherslu á að fara með fólk upp í óbyggðir hálendisins? Svarið er fólgið í spurningunni sjálfri. Til að komast í kynni við sjálfa sig þarf manneskjan, þarft þú að fara burtu úr mannabyggðum, því í mannmergðinni týnir þú sjálfri þér, verður stak í mengi fjöldans. Í óbyggðunum skynjar þú frelsi sem er ekki að finna í borgum. Þetta eru alkunn sannindi.

En það er ein hlið á þessu máli sem vert er að gefa gaum að lokum. Og það er landið sjálft sem við kynnumst og það sem það kennir okkur. Ég læt hér liggja milli hluta öll hefðbundin fræði um Ísland, Ísland er eldfjallaeyja í Norður-Atlantshafi á mörkum hins byggilega heims, í rauninni óbyggileg að flestu leyti og kannski ekki heppileg til neins nema ævintýraferða, þótt enn búi margir í afdölum og aðrir byggi virkjanir hér og hvar.

En hvað er Ísland fyrir okkur? Hvernig ber Ísland fyrir okkur sem heild, heild sem við skynjum okkur sem hluta af, heild sem býr í okkur og við tökum með okkur hvert sem við förum, eins og skáldið orti: „Þótt þú langförull legðir/sérhvert land undir fót/bera hugur og hjarta/samt þíns heimalands mót“.  En hvernig mótar heimalandið „hug okkar og hjörtu“? Með öðrum orðum, hver eru tengsl landsins við hug okkar sjálfra, sjálfsvitund og sjálfsmynd?

Þjóð skilgreinist af þrennu: Tungu sinni, sögu og landi. Hér er landið í sömu stöðu gagnvart þjóðarsálinni og líkami einstaklings gagnvart sál hans. Nema hvað landið hefur ekki fætur. En landið gefur okkur samband við veruleikann, staðsetur okkur á jarðarkringlunni, rétt eins og fætur okkar gefa okkur samband við landið. Þjóðarsálin á sér heldur ekki fætur, heldur tengist landinu með tungunni og sögunni sem leika um landið allt.

Hver værum við ef við ættum ekki Ísland og værum Íslendingar? Við værum að sjálfsögðu mannverur, en við sjálf, sjálfin sem við urðum þegar við fæddumst, sjálfsveran sem við þurfum sífellt að skapa, við værum ekki til sem við sjálf.

Vel má vera að Hume og Kant hafi báðir rétt fyrir sér: Að við sjálf séum eins og Hume segir knippi skynhrifa og ímyndana sem spretta af því sem við skynjum. Og það sem við skynjum er Ísland, eldfjall að fæða af sér eyju. Þess vegna er sjálf okkar gert úr efni íslenskrar náttúru, mótað af þeim öflum og myndum sem einkenna Ísland. En um leið erum við, eins og Kant hélt fram, að móta reynsluheim okkar og skapa sjálf okkur í ljósi hugtaka og hugsjóna um hið sanna, fagra og góða. Þannig erum við ekki aðeins mótuð af landinu og náttúruöflum þess, heldur eigum við líka okkar þátt í að móta og skapa Ísland sem andlega bækistöð og uppsprettu þeirra gilda sem eru óendanlega mikils virði fyrir framtíðina. Hér sameinast náttúra Íslands og saga okkar sem landnema Íslands í andlegum og veraldlegum skilningi þess orðs.

Landnámi Íslands er fjarri því að  vera lokið, því sjálfsvitund okkar er samgróin landinu og andlegt líf okkar sem einstaklinga og sem þjóðar er og verður gönguferð um Ísland.