Aðalvík - Hesteyri - Grunnavík - aukaferð í ágúst

HORNSTRANDIR                                                                                              

Saga, byggð  og  búseta 

8. - 13. . ágúst  6 dagar

Fararstjóri: Guðmundur Hallvarðsson

Hámarksfjöldi: 18

Í þessari ferð verða helstu þéttbýliskjarnar Hornstranda heimsóttir, þ.e. Aðalvík, Hesteyri og Grunnavík. Hugað að sögu, menningu og atvinnuháttum þessara byggðakjarna í nokkuð víðtækum skilningi. Gönguhraða verður hægt að stilla í hóf.

Þátttakendur koma til Ísafjarðar sunnudagskvöldið 11. júlí og gista á eigin vegum.

Sameiginlegur matur sem ekki er innifalinn verður fluttur á gististaðina.

1. dagur, Siglt að morgni 12. júlí að Sæbóli í Aðalvík og gengið þaðan til Hesteyrar með viðkomu í Staðarkirkju í Aðalvík. Farangur og sameiginlegur matur fluttur til Hesteyrar. Gist í Læknishúsinu.

2.  dagur: Dvalið á Hesteyri við sögulegan fróðleik, göngur og glens og gaman.

3.  dagur: Siglt til Grunnavíkur, gist í húsi.

4. - 5 . dagur: Dvalið í Grunnavík við sögulegan fróðleik, göngur og glens og gaman. 

6.  dagur: Gengið yfir Snæfjallaheiði gömlu póstleiðina og siglt frá Snæfjallaströnd út í Æðey þar sem litast verður um og notið síðdegishressingar Æðeyjarbænda. Þaðan verður síðan siglt aftur til Ísafjarðar.

Verð kr. 53.000 / 58.000

Innifalið: Sigling, trúss, gisting, síðdegishressing í Æðey og fararstjórn.

 Eyðibyggðin á Hornströndum hefur sérstakt yfirbragð á sumrin. Segja má að byggðin sé iðandi af lífi. Lífið er sumrinu þar sem gróðurinn angar og brumar, fuglinn syngur og verpir eins og óður og refurinn fóðrar yrðlingana allan sólarhringinn. Allt lífið er önnum kafið við að nýta örstutt sumarið til að tryggja viðkomu sína og áframhaldandi líf.
Fólkið fyllir líka byggðirnar á sumrin. Bæði þeir sem eiga rætur í þessu heillandi héraði og koma hingað til að treysta ræturnar og dvelja í húsum afa og ömmu en ekki síður þeir ferðamenn sem Hornstrandir draga til sín árlega og þeim fer sífellt fjölgandi.
Þessi ferð er skipulögð með þeim hætti að náin snerting gefst við fjölbreytt mannlíf og þá ríkulegu sögu sem héraðið býr yfir. Á fyrsta degi er gengið um hlöðin á Stað í Aðalvík þar sem litríkir og göldróttir prestar sátu um aldir og báru ægishjálm yfir allan skagann. Snorri á Húsafelli var hér og Magnús franski og lifa margar sögur af báðum.
Litla þorpið á Hesteyri nær tökum á hjarta hvers sem þar kemur. Hér voru íbúar eitt sinn taldir í hundruðum þegar stóriðja hvalskurðar og seinna síldarbræðslu þrumaði nótt og dag hér inni í firðinum. En síðan í nóvember 1952 hefur íbúatala Hesteyrar verið núll. Það ár var skotið á íbúafundi í þorpinu og ákveðið að flytja burtu. Það hefur áreiðanlega verið sérkennilegur fundur.
Eftir dvöl á Hesteyri er siglt yfir Jökulfirðina til Grunnavíkur en þar hélst byggðin lengst á þessu harðbýla landshorni en síðustu bændur úr Grunnavík fóru í vetrarbyrjun 1962. Svipur þessarar litlu sveitar undir hvassbrýndu Maríuhorninu er enn eins og hann var þegar þeir fóru.
Síðast en ekki síst fá leiðangursmenn að ganga hina fornu póstleið yfir Snæfjallaheiði, sögusvið átakanlegra slysfara og koma niður í flæðarmál á ný á Snæfjallaströnd þar sem eitt sinn bjuggu selaskutlarar og ákvæðaprestar en nú grær þar gras yfir allt.
Seinast á dagskránni er heimsókn í stórbýlið í Æðey sem á ekki síður litríka sögu en aðrir bæir hér um slóðir. Æðey hefur verið setin af reisn um aldir og núverandi eigendur jarðarinnar sem væntanlega munu ganga með ferðamönnum þar um hlöðin eru hluti fjölskyldu sem setið hefur Æðey í sex til sjö kynslóðir eða svo.