Æskan og óbyggðirnar

 

Viðtal við Ólaf Örn forseta FÍ í Morgunblaðinu 27. nóvember í tilefni af 80 ára afmæli félagsins. Hallgrímur Óskarsson tók viðtalið

 

                                      Ævintýri sem ekki má spilla

 

Í dag, 27. nóvember, eru 80 ár frá því Ferðafélag Íslands var stofnað.  Það var fyrir áeggjan Sveins Björnssonar, þá sendiherra í Danmörku, að fáeinir menn tóku sig til í Reykjavík haustið 1927 og stofnuðu félagið. Forgöngumaður þar var Björn Ólafsson stórkaupmaður en fyrsti forseti félagsins var Jón Þorláksson. Í tilefni afmælisins stendur Ferðafélagið fyrir ýmiss konar samkomum. Ólafur Örn Haraldsson, formaður félagsins, segir að þótt sitthvað í grundvallarstarfi félagsins haldist ávallt óbreytt sé félagði framsýnt og hyggi á ýmsa nýbreytni á þessum tímamótum.

 

                                            Ferðabylgja frá Evrópu

 

Á fyrstu árum Ferðafélagsins voru vegir á Íslandi harla ófullkomnir. Til að mynda var illfært upp í Borgarfjörð nema ríðandi mönnum og gangandi. Þegar fyrsta sæluhús félagsins var reist, í Hvítárnesi árið 1930, var efni til þess reitt á klyfjahestum. En síðan olli vegaleysið því að fyrsta ferð félagsins var ekki farin í húsið fyrr en fjórum árum síðar.

 

“Stofnun Ferðafélagsins verður ekki til upp úr þurru heldur er áhrif af bylgju heilsuræktar og náttúrudýrkunar sem barst frá Evrópu,” segir Ólafur Örn. “Þjóðverjar og Englendingar voru til dæmis ötulir þar og ferðir suður í Alpa urðu vinsælar hjá vissum þjóðfélagshópum. Þetta var fólk sem átti peninga og hafði því tíma aflögu. Af myndum frá Ölpunum frá þessum tíma sést að þetta er efnað hefðarfólk. Klæðnaðurinn var líka eftir því: konurnar voru í pilsum með reipi um sig hátt uppi í fjöllum, svo sátu menn og drukku kampavín á kvöldin og voru gáfaðir og fínir. Þetta var sérstakur lífsstíll og þótti fínn. Síðan fylgdi þessu pólferðir, afreks- og landkönnunarferðir í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20. Allt þetta blés mönnum metnaði í brjóst. Þarna er líka að baki landvinningastefna og stórveldametnaður þjóða.

Þetta speglast allt í því að þeir sem taka sig til og stofna Ferðafélagið eru framámenn í bæjarlífinu hér.

 

Á þessum tíma var viðhorf fólks til brauðstrits og frístunda allt annað en nú er. En um þetta leyti var að vakna hér áhugi á frístundum og því að skoða óbyggðirnar. Menn fóru að treysta sér inn á fjöll og höfðu nú til þess tól og tæki, bílarnir voru líka komnir til sögunnar og fólk fór í sporttúra kringum bæinn. Við sjáum þetta líka á skáldunum okkar og málurum, menn eins og Laxness fara austur að Laugarvatni og dvelja þar. Skyndilega var komið svo margt sem opnaði fólki sýn á að fleira væri til en brauðstritið eitt.”

 

En þátttaka í starfi félagsins hefur væntanlega verið síður stéttbundin hér en sunnar í álfunni?

 

“Já, hún var það. Þótt þessir framámenn hafi stofnað félagið þá var það strax svo að. þeir sem komu í ferðir félagsins voru bara hver sem var, þar var enginn mannamunur. Þannig hefur það líka alltaf verið. Enda er svo að þegar fólk komið í svona ferð þá eru allir jafnir. Það er fyrst og fremst ferðafélagar og nýtur þess sem ferðin býður. Félagið opnar í raun venjulegu fólki - ekki bara því sem hafði mikla peninga eða frístundir – tækifæri til að komast það sem það komst ekki af sjálfsdáðum. Menn áttu ekki bíl og í Reykjavík átti fólk heldur ekki allt hesta til að ferðast. En nú var hægt að slá sér saman, fara á skipi í Borgarnes eða keyra á stærri bílum austur fyrir fjall.”

 

Ólafur vandist sjálfur ferðum í náttúrunni frá blautu barnsbeini. Faðir hans, Haraldur Matthíasson var forseti Ferðafélagsins um hríð og móðir hans,                       mikil íþrótta- og útivistarmanneskja.  Einnig er Haraldur sonur hans landskunnur fjallagarpur og heimskautafari.

           

“Foreldrar mínir voru mikið ferðafólk. Þau fóru í ferðir með bak- og svefnpoka dögum saman og fóru oft á slóðir sem ekki hafði verið farið á öldum saman og sumar kannski aldrei fyrr  Þetta þótti sérkennilegt á þeirri tíð. Þá var vaknaður með þjóðinni mikill áhugi á bílum og því að brjótast á þeim allar mögulegar leiðir.  Ég man eftir ferðum með þeim sem strákur, t.d. í Þjórsárver, sem höfðu gríðarmikil áhrif á mig svo ég var í raun ekki samur maður eftir.”

 

 

                                         Fræðslan má ekki sliga gleðina

 

Fræðslustarf og útgáfustarfsemi hefur verið samofin starfi Ferðafélagsins frá fyrstu tíð. Þar ber hæst Árbækurnar, sem Ólafur Örn kallar “flaggskip félagsins” enda orðnar einstæð heimild um land, sögu og þjóðmenningu. Einnig hefur félagið gefið út einstök rit um tiltekin svæði, oft með sögulegum skírskotunum.  Hversu mikilvægt finnst Ólafi Erni það vera á ferðum um landið að hafa söguna í farteskinu?

 

“Félagið hefur alltaf lagt gríðarlega áherslu á að vera með úrvals fararstjóra í ferðum sínum, fróða um landið og söguna. En ég hef líka lagt áherslu á að félagið einskorðaði sig ekki við þetta, að ferðir þess séu ekki um of þrungnar fræðslu og þekkingu. Ég legg líka mikla áherslu á gleðina, að það sé gaman, maður sé manns gaman. Einhver bestu kynni sem fólk á er í ferðalögum. Við að takast á við þessa samveru, þetta sameiginlega viðfangsefni, dregur fólk fram svo skemmtilegar hliðar á sjálfu sér og öðrum. Ég legg því alltaf áherslu á fegurðina og gleðina. Síðan enda ferðir gjarnan með veglegu veislukvöldi að íslenskum hætti, grilli og skemmtun, leikjum og fjöri.  Þetta inntak í starfi félagsins hefur ekkert breyst öll þessi ár þótt blæbrigðin hafi breyst.

 

Annað sem ég vil leggja áherslu á er þessi samfélagslega ábyrgð og verkefni sem Ferðafélagið hefur tekið að sér. Það hefur ráðist verk sem í mörgum löndum eru ætluð sveitarfélögum, ríkisvaldi, jafnvel einkafyrirtækjum. Dæmi um þetta er smíði á brúm yfir ár, merking leiða og umsjón með öryggismálum sem snúa að fjarskiptum, umhverfismál og hreinsun og þvíumlíkt. Þetta eru mál sem fjárveitingarvaldið er ekki með á föstum lið hjá sér en eru engu að síður brýn. Á móti nýtur Ferðafélagið velvildar og fyrirgreiðslu af ýmsu tagi hjá sveitarfélögum og ríki. Mér finst þetta vera eitthvert fallegasta og skynsamlegasta einkennið á Íslendingum – öll þessi félög hér sem eru rekin af hugsjón og sjálfboðastarfi.  Þessi samskipti opinberra aðila og Ferðafélagsins tel ég mjög holl og það má ekki spilla þeim.Við megum ekki hörfa í það horf að Ferðafélagið fari t.d. á föst fjárlög og skreppi saman í þröngt far þar sem við heimtum gjald fyrir allt sem gerum og ríkið geri kröfur á móti.

Nú bendir allt til þess að Ferðafélagið og deildir þess muni taka að sér veigamikið hlutverk í Vatnajökulsþjóðgarði og skálar þess verði nýttir þar sem þjónustumiðstöðvar. Þetta er einmitt dæmi um ákjósanlegt samstarf félagsins við opinbera aðila.” 

 

 

                                                Þá væri ævintýrið horfið

 

Nú hefur síðustu misseri sprottið upp umræða um ýmsar samgönguframkvæmdir eins og hálendisvegi og fullkominn veg yfir Kjöl. Lætur Ferðafélagið slík mál til sín taka?

 

“Já. Félagið hefur markað þá stefnu að vilja að náttúran og umhverfi hennar sé óspillt og ekki raskað um of. Við erum ekki baráttusamtök náttúruverndarsinna.  Félagið áskilur sér samt rétt til að láta til sín taka þar sem verið að raska umhverfinu á athafna- eða  starfssvæði þess. Við höfum því látið til okkar heyra varðandi t.d. þungaflutninga á Kjalvegi og nú nýlega varðandi virkjun Hagavatns. Við erum líka á móti því að hótelbyggingar og önnur láglendisþjónusta séu um of færð inn á hálendið.  Um leið og slíkir hlutir skjóta rótum á hálendinu með hvers kyns mengun sem því fylgja, þá er ævintýrið horfið.  Og það er einmitt ævintýrið sem við erum að sækjast eftir.  Nú erum við komin að stað í þróuninni þar sem þarf að taka ákvörðun um að tæknin megi ekki ráða för um of. Við þurfum stundum að halda aftur af henni.  Neita okkur um að byggja brýr og leggja vegi. Nú er mál að hætta að brjótast á bílum yfir mýrarnar sem áður þótti afrek að fara yfir. Nú ökum við heldur að mýrinni og göngum svo.”

 

                                               Nýr lífsmáti ekki ógn

 

Þegar Ferðafélagið var stofnað var vegagerð um landið á frumstigi og bílaeign sáralítil. Nú er hins vegar jeppaeign landsmanna orðin gríðarleg, hjólhýsi um allt, fjórhjól og jafnvel utanvegaakstur.  Setur þetta ekki starf svona félags í allt annað samhengi?

 

“Jú, það gerir það. Nú stendur félagið einmitt frammi fyrir því verkefni að takast á við þessa breytingu. Ég hef lagt áherslu á að hjálpa fólki við að ferðast með heilbrigðum og góðum hætti en það þarf líka að gerast með hætti sem fólk hefur áhuga á. Í því skyni stofnuðum við jeppadeild á sínum tíma og höfum átt samstarf við 4x4 klúbbinn. Og ég sé fyrir mér að við munum stofna fleiri deildir, fyrir hjólhýsafólk og aðra, þar sem höfum aðeins annan máta á, að fólki aki t.d. á einhvern tiltekinn stað og gangi svo. En við viljum fyrst og fremst vera frumkvöðlar, opna fólki sýn á landið og hvetja það til ferðalaga. En ekki vera ferðaskrifstofa sem sjái alfarið um allar ferðir.”

 

Svo ykkur finnst þessir nýju lifnaðarhættir ekki þrengja að starfi félagsins?

 

“Nei, ef eitthvað er þá auka þeir möguleika þess. Fólk hefur uppgötvað hálendið og óbyggðirnar með því að fara um á jeppnum. Því fleiri sem fara og skynja það, þeim mun fleiri koma til okkar. Það hefur færst mikið líf og fjör í Ferðafélagið síðustu ár.  Við leggjum líka áherslu á að það sé lifandi og áberandi. Þýðir ekkert annað nú á dögum. Til dæmis er inn í félagið að koma öflugur hópur harðduglegra og vanra fjallamanna í gegnum ferðir sem Haraldur Örn, sonur minn, hefur staðið fyrir á Hvannadalshnúk.”

 

“Upp úr mörgum Ferðafélagsferðum hafa sprottið hópar sem síðan ferðast á eigin vegum. Margir hafa sagt að það sé allt hið versta mál, við gerum ekkert annað en búa til hópa, svo verði þeir bara sjálfstæðir. En við gleðjumst yfir þessu, okkar hlutverk er að hvetja, glæða og opna. En ekki að gína yfir ferðum fólks. Við lítum svo á að Ferðafélagið hafi átt stóran þátt í að útiverumenning, gönguferðir og það að njóta náttúrunnar hefur orðið lífsstíll margra Íslendinga.”

                                               

    Æskan og óbyggðirnar eiga saman

 

“Við erum að gera tímamótasamþykkt á afmælisdaginn og hrinda því í framkvæmd að opna félagið fyrir ungmennum. Við ætlum að opna félagsaðild fyrir 18 ára og yngri, allt niður í 10 ára, gegn vægu gjaldi. Á fundinum verður 40 nemendur úr Smáraskóla í Kópavogi formlega boðin aðild að félaginu. Þessir krakkar hafa lagt stund á stöðugt erfiðari ferðalög allt frá að gista í svefnpoka í skólanum og í að ganga Laugaveginn eða hjóla Fjallabaksleið. Með þessu viljum við segja að þótt félagið fagni nú 80 ára sögu þá séum við félag framtíðarinnar. Við teljum að æskan og óbyggðirnar eigi samleið. Þar er framtíðin. Við viljum opna ungu fólki sýn á óbyggðirnar og efla um leið sjálfstraust hjá því til að öðlast allt sem ferðalög geta gefið fólki.”