,,Skagfirðingar trúa sterkt að til séu verur af öðrum heimum. Alls konar mórar eru við húshornin og í klettum búa álfar og aðrar huldar verur; velviljaðar og hjálpsamar. Að þetta sé veruleiki vil ég ekki útiloka, því um ævina hef ég talað við margt gott og grandvart fólk sem hefur séð í aðra veröld og efast ekki. Við skriftir síðustu árin fannst mér gaman að grúska í þessum sögum og skrifa þær, á stundum hélt það mér hreinlega uppi," segir Páll Sigurðsson rithöfundur og fyrrverandi lagaprófessor.
Árbók Ferðafélags Íslands 2016 er komin út og ber titilinn Skagafjörður austan vatna - Frá Hjaltadal að Úlfsdölum. Þetta er þriðja árbókin um Skagafjörð sem Páll skrifar; hin fyrsta kom úr 2012 þar sem sagði frá landi og lífi vestan Héraðsvatna. Ritið 2014 fjallaði um svæðið frá Hofsjökli og út í Blönduhlíð að Hegranesi meðtöldu. Í bókinni nú eru svo þræddar slóðir frá Viðvíkursveit og Hjaltadal og norður í Almenninga - þar sem Siglufjörður er næsti bær við. Alls er bókin um 250 blaðsíður, fróðleiksnáma með fjölda mynda og korta.
,,Upphaflega áttu Skagafjarðarbækurnar að verða tvær. Önnur skyldi vera um héraðið vestan Héraðsvatna en svo átti að fara "yfrum" eins og vestanvatnamenn segja um austanverðan Skagafjörð. Undir var svæðið frá upptökum áa inni á hálendinu og út í Fljót. Fljótlega kom þó í ljós að frá svo mörgu væri að segja að ein bók dygði ekki - og þegar kom að uppskiptum var ágætt að miða við Kolkuós, Viðvíkursveit og Hjaltadal," segir Páll.
Að fara Heim til Hóla er málvenja í Skagafirði sem er mörg hundruð ára gömul. Það er raunar samkvæmt öðru í Skagafirði, margt í mannlífi þar byggir á menningu alda og er daglegur veruleiki á því herrans ári 2016.
,,Sem strákur á Sauðárkróki kynntist ég þeirri virðingu sem fólk bar fyrir Hólum sem skólastað og biskupssetri með mikla sögu. Hólasveinar sem þar námu kynntust ritlistinni og öðrum fræðum og gerðust að námi loknu gjarnan prestar á Norðurlandi. Menningarleg áhrif frá staðnum bárust því víða," segir Páll og bætir við að Hólar grípi sig alltaf mjög sterkum tökum.
,,Skólahúsið, kirkjan, turninn, sem er minnismerki um Jón Arason biskup, og himinhá Hólabyrða í baksýn eru voldugt umhverfi. Og þegar inn í kirkjuna kemur talar helgidómurinn til mín. Í kirkjunni eru varðveittar einhverjar dýrmætustu menningarminjar á Íslandi; svo sem altarisbríkin sem Jón Arason útvegaði, skírnarsárinn, og róðulíkneski í fullri líkamsstæð sem hefur haft svo sterk áhrif á fólk að það beygir af."
Þegar Viðvíkursveit og Hjaltadal sleppir tekur við það svæði sem Skagfirðingar kalla ,,út að austan". Þetta eru Óslandshlíð, Höfðströnd, Sléttuhlíð og Fljót og svo dalirnir sem ganga inn til fjalla Tröllaskagans. Kalt sjávarloftið liggur gjarnan í loftinu í þessum sveitum, sem hafa mjög mátt undan láta. Búskapur hefur látið talsvert undan, en eitt og annað þó komið í staðinn.
Vesturfarasetrið á Hofsósi og starfsemi þess, með sínum glæsilegu byggingum, vekur athygli. Einstakur þykir arkitekt sundlaugarinnar í þorpinu, sem athafnakonurnar Lilja Pálmadóttir og Steinunn Jónsdóttir, gáfu. Sú síðarnefnda starfrækir listasetur á Bæ á Höfðaströnd. Þá er starfrækt ferðaþjónusta í Lónkoti í Sléttuhlíð, þar sem nafn Sölva Helgasonar er í hávegum haft. Hinn alræmdi flakkari 19. aldarinnar - Sólon Íslandus - var af þessum slóðum og er fyrir löngu orðinn að ,,gull og gersemi" eins og hann lýsti sjálfum sér í vísu.
,,Sölvi fór á milli bæja og sníkti sér til matar. Þetta var loddari sem falsaði reisupassa og var reyndar fyrir aðrar sakir dæmdur til Brimarhólmsvistar. Knyttir hans eru þó ósköp smávægilegir og bara fyndnir þegar þeir eru bornir saman við til dæmis hrunsglæpi nútímans," segir Páll og hlær.
Einhverjar frægustu sviðsmyndir í íslensku bíói eru af Höfðaströnd. Í kvikmyndum Friðriks Þórs Friðrikssonar bregður gamla bænum á Höfða oft fyrir og stundum Málmey og Þórðarhöfða, sem talinn er til eyjanna á Skagafirði. Kemur þar til að höfðinn er úr fjarlægð að sjá sem eyja, en tengist fastalandinu með mjóum gröndum. Drangey Grettis Ásmundarsonar, sem er undan sjónarsviðsins á Höfða, er svo þriðja eyjan á firðinum og er um margt táknmynd héraðsins.
,,Ég fyllist lotningu þegar ég horfi út til eyjanna. Þegar sólin sest að baki þeim er það ólýsanlega fallegt," segir Páll sem lýsir Málmeyjarferð sem upplifun. Setið var í búsældarlegri eyjunni um aldir og alveg fram til um 1950. Til eru margar sagnir um byggð í Málmey svo sem að þar mætti ekki hafa hesta og hjón ekki búa þar lengur en 19 ár. Ella átti bóndinn að missa konuna sína í tröllahendur, eins og greinir frá í Þjóðsögum Jóns Árnasonar.
,,Sögur og þjóðmenning mæta manni hvarvetna í Skagafirði. Í Þórðarhöfða sunnanverðum er fjölbýli álfa og heljarmikil krambúð í klettunum. Karlar fyrri alda sem voru á leið frá fakornum í Hofsósi villtust stundum af leið í þokunni, hittu þá fyrir álfakaupmann sem í verslun sinni átti dýrindisvöru á góðu verði. Kaupunum fylgdi jafnvel silkidúkur og annað fínirí sem hvergi annars staðar fékkst. Víða í Skagafirði telur fólk sig einnig vita af huldufólki og álfum og að í högum séu kindur úr annarri vídd. Svona sögur er gaman að skrifa - og raunar hafa árbókarskrif síðustu árin verið ævintýri; frá upphafi til enda."
Viðtalið tók Sigurður Bogi Sævarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu.