Afmæli Laugavegarins

19. september var þess minnst að 30 ár voru liðin frá fyrstu skipulögðu göngu Ferðafélags Íslands um Laugaveginn milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Afmælisgangan fór þannig fram að ekið var frá Reykjavík að morgni laugardags inn á Emstrur og gengið frá Emstruskála niður í Langadal í Þórsmörk. Þessi leið er síðasta dagleið hins hefðbundna Laugavegar.
Farþegar í afmælisferðinni hrepptu sérlega fallegt veður og Kristján M. Baldursson fararstjóri sagði í samtali við heimasíðu FÍ að fegurð fjalla og jökla og logandi haustlitir hefðu heillað alla sem sáu.
Fyrsta Laugavegsgangan var farin dagana 13. til 18. júlí 1979 og þá gengu 17 farþegar leiðina undir leiðsögn Kristins Zophóníassonar. Kristinn er 73 ára og að mestu hættur fjallaferðum en hann sagði í samtali við heimasíðu FÍ að allt hefði gengið vel í þessari fyrstu ferð.
Stærð hópsins takmarkaðist af stærð skálanna en haustið áður hafði skáli verið settur upp í Hrafntinnuskeri og stikun leiðarinnar var langt komin þetta sumar.
Kristinn sagði að ekki hefði verið skáli í Álftavatni en gist hefði verið í gamla skálanum í Hvanngili í fyrstu ferðinni. Í þessari ferð var notast við fyrstu göngubrúna á Fremri-Emstruá við Botna sem í raun opnaði leiðina.
Kristinn sagði að allnokkrir útlendingar hefðu verið meðal farþega í fyrstu ferðinni og nafnið Laugavegur hefði orðið til þetta fyrsta sumar.
"Einhver sagði að þetta væri bara eins og að ganga Laugaveginn en það óraði engan okkar fyrir því að þetta ætti eftir að verða svona óhemju vinsælt eins og síðar varð."
Þetta sumar voru farnar fimm ferðir um Laugaveginn á vegum FÍ með samtals 75 farþega. Kristinn var fararstjóri í tveimur þessara ferða svo með réttu má kalla hann einn af upphafsmönnum þessarar vinsælustu gönguleiðar á Íslandi.

Laugarvegur-farþegar

Laugavegurinn, vinsælasta gönguleið á Íslandi á 30 ára afmæli á þessu ári. Hér sjást kátir Laugavegsfarar haustið 2009 í hádegisáningu uppundir Háskerðingi.