Aldarslagur Sigurðar Þórarinssonar - Kúnstir náttúrunnar nýr geilsadiskur með lögum og ljóðum Sigurðar

sigurdur-thorarinsson-1

Ferðafélag Íslands, Hið íslenska náttúrufræðafélag og Jöklarannsóknafélag Íslands hafa nýverið gefið út á diskum safn söngva og svipmynda undir heitinu Kúnstir náttúrunnar.  Eins og yfirskriftin Aldarslagur Sigurðar Þórarinssonar gefur til kynna er útgáfan helguð aldarafmæli Sigurðar sem var á síðasta ári. 

 Í albúminu eru tveir diskar (CD og DVD) og 48 síðna myndskrýddur bæklingur með öllum söngtextunum ásamt skýringum. Ítarlegan formála um Sigurð Þórarinsson ritar nafni hans Sigurður Steinþórsson jarðfræðingur.  Í bæklingnum er einnig yfirlit um helstu viðburði í lífi Sigurðar og nokkrar línur um hann sem söngvísnasmið.

 Á CD-disknum eru 32 söngvar við þýdda og frumsamda texta eftir Sigurð. Söngvarnir eru af þrennum toga: Fjórtán þeir fyrstu komu út 1982 á vínilplötunni ’Eins og gengur’ sem ekki er lengur fáanleg. Þá eru níu söngvar sem fluttir voru á 60 ára afmælishátíð Ferðafélagsins 1987 og loks níu söngvar sem hljóðritaðir voru í nóvember á síðasta ári.    

 Á DVD-disknum eru þrjú myndskeið: 1) heimildarmyndin ’Rauða skotthúfan’ sem fjallar í máli og myndum um vísindastörf Sigurðar. Kynnir er Sigurður Steinþórsson jarðfræðingur; 2) þátturinn ’Svo endar hver sitt ævisvall’ með átta Bellmanssöngvum, og loks 3) lítill kabarett í leikstjórn Eddu Þórarinsdóttur, ’Sigurðar vísur Þórarinssonar’ með sjö lögum við texta Sigurðar.  – Kvikmyndin og þættirnir tveir voru sýndir í Sjónvarpinu á árum áður.

 Í útgáfustjórn voru Gunnar Guttormsson, Halldór Ólafsson og Páll Einarsson. Með stjórninni störfuðu þau Árni Björnsson og Edda Þórarinsdóttir.  –  Um hönnun og umbrot sá Auglýsingastofa Ernst Backman, en albúmið og diskarnir voru framleiddir hjá þýska fyrirtækinu Hofa.  –  Auk félaganna sem að útgáfunni standa styrktu nokkrir aðilar útgáfuna með fjárframlögum og aðstoð í formi vinnuframlags.

 Albúmið er ekki enn til sölu á almennum markaði.  Félögin sem að útgáfunni standa sjá um að dreifa albúminu til félagsmanna og áhugafólks. Verðið hjá þeim er 4 þús. kr.  – Ferðafélag Íslands tekur auk þess á móti beiðnum aðila sem vilja hafa það til sölu.