Nú hefur allt verið opnað og það eru komnir verðir í alla okkar skála þar sem að við erum með verði. Það eru komnir verðir í Jökuldal á Sprengisandsleið, á Laugaveginn og hreint um allt þannig að við erum tilbúin að taka á móti fólki,“ segir Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags Íslands, spurður um undirbúninginn fyrir sumarið hjá FÍ.
Ólafur segir að pantanir gangi vel og það sem sé vinsælast séu klassísku göngurnar á Laugaveginum og Hornströndum „sem eru sívinsæl svæði og láta ekkert undan núna. En það er ekki alveg fullpantað í skálana og enn eitthvað laust,“ segir Ólafur Örn.
„Við erum með ferðir og önnur ferðafélög eru með ferðir, en mest er fólk á eigin vegum í smáum hópum eða einstaklingar,“ segir Ólafur Örn aðspurður hvort mikið sé um skipulagðar ferðir.
Ólafur Örn nefnir nokkrar ferðir sem eru vinsælar. „Þjórsárver, inn í þetta dásamlega friðland sem farið er með alveg úrvals fararstjórum sem eru sérfræðingar. Prófessorar og fólk í fremstu röð með þekkingu á þessu svæði sem fer þarna,“ segir Ólafur Örn.
„Síðan höfum við verið að hefja ferðir á nýjar slóðir. Það er alltaf nauðsynlegt að hafa einhverjar nýjungar. Ég er með ferð í Lakagíga í ágúst og það er svæði þar sem við höfum ekki verið svo mikið. Það er mikill áhugi á þeirri ferð greinilega og hún er orðið svo til full, en ég ætlaði að hleypa fleirum að. Það er greinilega mikill áhugi og þetta er helgarferð,“ segir Ólafur Örn.
Ferðafélag Íslands er með starfssemi í Landmannalaugum, einum vinsælasta áningastað landsins. mbl.is/Árni Sæberg
„Síðan er ferð sem ekki hefur verið farin áður á okkar vegum á Hólmsársvæðið, austan við Mýrdalsjökul. Þarna eru virkjanahugmyndir í gangi og það er meðal annars þess vegna sem við viljum að fólk fari og sjái þetta svæði og kynnist því. Þetta kallast stundum Öldufellsleið. Þarna eru líka vísindamenn sem eru fararstjórar,“ segir Ólafur Örn.
„Páll Ásgeir Ásgeirsson er með ferð í Hverfisfljót og nágrenni, austan við Klaustur. Magnað svæði þar sem Eldhraunið kom meðal annars fram.“
„Síðan er ég með ferð sem er á eitthvert fegursta svæði á Íslandi. Það er svæðið fyrir innan Landmannalaugar, ekki á Laugaveginum sjálfum heldur austar. Í Jökulgilið og Hattverið og norðan við Torfajökul.
Þetta er alveg stórbrotið svæði. Við göngum upp í Hrafntinnusker síðdegis. Síðan förum við í skarðið við Reykjafjöllin. Þar hefst gangan og við göngum yfir Reykjafjöllin og niður að Háuhverum og leggjum frá okkur byrðar. Förum upp í Kaldaklof upp í Háskerðing og skoðum háhitasvæðið þar og síðan förum við aftur niður að Háuhverum og förum síðan Sauðanefið niður í Hattver. Það að ganga Sauðanefið meðfram Litla-Hamragilinu og horfa ofan í það og koma Sauðanefið er ólýsanlegt.
Síðan göngum við næsta dag Uppgönguhrygginn og upp í Torfajökul og þá komum við niður með Sveinsgilskvíslinni og niður hrygginn á milli gilja. Vöðum svo aftur yfir Jökulkvíslina í Þrengslunum og í Hattver.
Þriðja og síðasta daginn er gengið upp á Skalla og svo ætlum við að ganga þar um og kíkjum ofan í Stóra-Hamragil og göngum svo niður í Laugar,“ segir Ólafur. Hann segir að mikið sé bókað í Jökulgilsferðir, en að til standi að fjölga þeim vegna eftirspurnarinnar.