Ferðalangur
á göngubrúnni
yfir Krossá.
Mikill vöxtur hefur verið í vötnum í Þórsmörk og á Þórsmerkurleið undanfarna viku. Krossá og Steinholtsá hafa á köflum verið ófærar og Hvanná mjög grafin og straumhörð og ill viðureignar.
Elva Dögg skálavörður í Langadal sagði í samtali við heimasíðu FÍ að árnar væru þokkalega færar stórum bílum eins og sakir standa. Mikið hefur rignt í Þórsmörk síðasta sólarhring og veðurspá komandi daga boðar áframhaldandi regn.
Ãví ættu ferðalangar á leið í Mörkina að hafa samband við skálaverði og hafa fréttir af vatnafari áður en lagt er af stað.
Vatnavextir af þessu tagi eru árvissir og undanfarin ár hefur Krossáin valdið talsverðum skemmdum á gróðri innarlega á Goðalandi og snemma í vor mátti sjá rótarhnyðjur og leifar af skógi eins og hráviði um alla aura langt vestur fyrir Merkurrana.
Slíkt er eðli jökulvatna sem hlaða undir sig í farveginum og leita reglulega á ný mið. Krossáin rann lengi vors og fram á sumar framhjá brúarsporði göngubrúar undir Valahnúk.
Um miðjan ágúst s.l. var svo rutt upp nýjum varnargarði og ánni bægt á ný undir brúna. Það hefur reynst skammgóður vermir því eftir vöxt síðustu daga rennur áin nú á ný að hluta til framhjá brúarsporðinum og því starf sumarsins að einhverju leyti unnið fyrir gýg.
Að hemja forað eins og Krossá í farvegi sínum til frambúðar kallar líklega á umfangsmeiri varnaraðgerðir en hingað til hefur verið ráðist í.
Â