Allt landið er undir þegar ferðaáætlunin er í smíðum

„Við erum ákaflega ánægð með þær viðtökur sem ferðaáætlunin fyrir 2019 hefur fengið. Þrátt fyrir að koma fram með hana mánuði fyrr en undanfarin ár hafa ferðir rokselst og sumar eru nú þegar uppseldar,“ segir Sigrún Valbergsdóttir formaður Ferðanefndar FÍ sem sér um ferðaáætlun félagsins ár hvert.  „Það er mikill kostur fyrir þá sem hyggja á að gefa gjafakort í ferðir með FÍ að vita hvað úrval ferða verða á boðstólnum. Ferðir í öllum flokkum eru álíka margar og verið hefur og nýjar ferðir eru rúmur þriðjungur af ferðum. Svo eru hin gífurlega vinsælu fjallaverkefni og lýðheilsuverkefni í gangi allt árið,“ segir Sigrún ennfremur.


Fjölbreytt ferðaáætlun
„Það er gaman að benda á fjölbreytnina sem er í þessari áætlun. Kannski áttar fólk sig best á því ef það fer inn á heimasíðuna og skoðar flokkana sem þar eru í boði undir ferðir. Við státum okkur af því að vera virkilega með eitthvað fyrir alla. Ferðafélag barnanna og Ferðafélag unga fólksins eru verkefni algjörlega í sérflokki og hefur þeim verið tekið fagnandi. Samstarfsverkefni við Háskóla Íslands sameinar alla aldurshópa, enda hafa þátttakendur stundum skipt hundruðum. Jafnvel í grenjandi rigningu! Og vegna þess að fólk hættir ekki í félaginu þótt það hætti að ganga um fjöll og heiðar er að þessu sinni óvenju litríkt framboð á rútuferðum, þar sem mikil áhersla er lögð á fræðslu og skemmtilega samveru.“

Ferðir um allt land
„Við erum svo heppin að geta horft til landsins alls þegar ferðirnar eru í smíðum. Deildir FÍ eru í öllum landshlutum og þar eru frjóir hugmyndasmiðir að verki. Heimamenn þekkja sitt nærumhverfi best, ekki bara gönguleiðir heldur líka sögurnar sem þeim fylgja.“

Ferðaáætlun kemur prentuð um miðjan janúar.
En þrátt fyrir að áætlunin sé núna komin inn á netið mun sú prentaða ekki gleymast. „Hún kemur inn um lúguna fyrir miðjan janúar,“ segir Sigrún og segir fólk geta flett ferðaáætluninni fram og til baka og byrja ferðast í huganum.