Alltaf gott veður hjá Alla leið

Fjallgönguverkefni FÍ, Alla leið lauk í júní eftir að hópurinn hafði lagt alls 22 fjöll að fótum sér. Nýtt verkefni hefst í lok ágúst.

Alla leið hópurinn er hugsaður fyrir fólk sem er í þokkalega góðu formi og hefur stundað einhvers konar íþróttir en ekki endilega verið að ganga á fjöll. Hópurinn taldi rúmlega 70 manns, á aldrinum 14 til 70 ára.

MG_2589.jpg
Sigur efst á fjallstoppi

Hjalti Björnsson, fararstjóri, sem leiðir verkefnið segir að um þriðjungur þátttakenda hafi gengið í nokkur ár með hinum ýmsu fjallgönguhópum Ferðafélags Íslands en stór hluti hafi verið byrjendur í fjallgöngum og til dæmis hafi margir verið að fara í fyrsta sinn á jökul.

Hópurinn hóf að ganga saman undir merkjum FÍ í byrjun janúar. Gengið var á stighækkandi fjöll fram í júní þegar hápunktinum var náð en þá gátu þátttakendur valið að ganga á eitt eða öll eftirfarandi fjöll; Hvannadalshnúk, Hrútsfjallstinda og Eyjafjallajökul.

MG_1536.jpg MG_1721.jpg
Sumarblíða og vetraraðstæður

Veturinn var um margt eftirminnilegur, að sögn Hjalta, ekki síst vegna eindæma veðurblíðu. ,,Ég held að við höfum bara aldrei lent í vondu vetrarveðri, slyddu eða hríð. Eftirminnilegasta blíðviðrisgangan var líklega á Heiðarhornið í Skarðsheiðinni en þar hreppti hópurinn fádæma veðurdýrð og dásamlegt útsýni til allra átta. Reyndar var veðrið líka afburða gott þegar gengið var á Hvannadalshnúk," segir Hjalti.

Hópurinn hefur brallað ýmislegt í vetur. Göngumenn hafa skipst á að lesa ljóð á fjallstoppum, einn fararstjóra er jógakennari sem hefur opnað heim jógafræðinnar fyrir fólki og svo má nefna vikulegar þrekæfingar í himnastiganum svokallaða í Kópavogi, þ.e. tröppunum sem liggja frá skátaheimilinu Bakka og upp á Digranesheiði.

,,Þessar þrekæfingar taka klukkustund og fólk fer þessar 220 tröppur bara á eigin hraða. Sumir fara sjö ferðir en aðrir allt upp í 12 ferðir. Tíu ferðir jafngilda einni Esjugöngu svo þetta tekur vel í," segir Hjalti sem segir að þeir sem hafi mætt reglulega í himnastigann hafi tekið stórstígum framförum í göngunum. Að auki hafi hópurinn undirbúið sig fyrir jöklagöngurnar meðal annars með því að taka eina erfiða 25 km fjörugöngu í sandi við Þorlákshöfn.

IMG_6172.JPG MG_0454.jpg
Sniglast upp á Hvannadalshnúk

Í lok ágúst hefst svo nýtt fjallgönguverkefni hjá Alla leið sem nefnist Haustgöngur Alla leið. Þetta er ný byrjun og fólk þarf ekki að hafa tekið þátt í vorverkefninu til að taka byrja í haust. Kynningarfundur fyrir verkefnið verður haldinn miðvikudaginn 24. ágúst kl. 20 í risinu fyrir ofan skrifstofur FÍ í Mörkinni 6.

Strax í kjölfarið, laugardaginn 27. ágúst, verður gengið á fyrsta fjallið, Heklu. Alls verður gengið á 16 fjöll í verkefninu í haust, m.a. Elliðatinda á Snæfellsnesi, hring um Móskarðahnúka, Laufsskörð og Hátind í Esju og á fjallið Hvítmögu við Sólheimajökul sem er afar fáfarin en skemmtilegt leið þar sem ganga þarf yfir skriðjökulinn til að komast á fjallið. Verkefninu lýkur 5. desember.

Meðfylgjandi myndir tóku Þuríður Erla Sigurgeirsdóttir og Hjalti Björnsson.

MG_0954.jpg
Vetrardásemd