Ályktun stjórnar FÍ um Kjalveg

Ályktun stjórnar Ferðafélags Íslands vegna hugmynda Norðurvegar um fjölfarinn, uppbyggðan hálendisveg um Kjöl þar sem tilgangurinn er fyrst og fremst sá að tengja saman landhluta en ekki að styrkja Kjöl sem eftirsóknarvert óbyggðasvæði.

Uppbyggður vegur yfir Kjöl með hraðri og þungri umferð mun stórspilla óbyggðum hálendisins. Hávaði og gnýr frá slíkri umferð á malbikuðum vegi berst gríðarlega langt, umferðin stingur algerlega í stúf við þá náttúrustemningu sem þarna ríkir, ævintýri óbyggðaferða á sumri og vetri er úr sögunni, enn einu sinni verður gengið á takmarkað land óbyggðanna og það rist í sundur, umferðinni fylgir margvísleg þjónusta sem ekki á heima á hálendinu, margvísleg öryggismál verða aðkallandi. Núverandi vegur með nokkrum umbótum gefur öllum sem nokkuð vilja leggja á sig tækifæri til þess að aka um Kjöl án þess að frekari röskun verði.

Arðsemi og fjárhagslegur ávinningur af uppbyggðum og fjölförnum vegi um Kjöl réttlætir ekki þau spjöll sem verða á óbyggðum landsins. Þar á þjóðin verðmæti sem vissulega er hægt að meta til fjár og eru eftirsóknarverð einmitt af því að þar eru lítt snortnar óbyggðir. En fyrst og fremst eru þar auðæfi sem ekki verða metin á arðsemiskvarða umferðar og vegagerðar. Núlifandi Íslendingar eiga að njóta þessara auðæfa og varðveita þau fyrir komandi kynslóðir sem munu meta enn betur öræfi landsins en nú er gert.

Stjórn Ferðafélags Íslands leggst alfarið gegn hugmyndum um umræddan veg. Félagið hefur á 80 ára ferli greitt för þeirra sem vilja ferðast og dvelja á Kili en valda lágmarks röskun. Elsti skáli Ferðafélagsins sem var reistur 1930 stendur enn og verður friðlýstur og hefur það verið stefna félagsins að skálar á Kili séu fjallaskálar sem með hógværum hætti falli að fegurð lands og náttúru.

Fyrir hönd félagsmanna sem eru nú um 7 þúsund og annarra ferðamanna á Ferðafélag Íslands mikilla hagsmuna að gæta. Félagið er einn af frumkvöðlum á svæðinu og hefur byggt þar skála, skipulagt ferðir, merkt gönguleiðir, smíðað brýr, komið upp útsýnisskífum, gefið út árbækur, landlýsingar, kort og sögulegan fróðleik, sinnt landvörslu, náttúruvernd og öryggismálum og átt mikið árangursríkt samstarf við heimamenn. Þetta starf hefur verið unnið í sjálfboðavinnu á áratugum.

Ferðafélag Íslands er tilbúið að eiga samstarf um framtíðarfyrirkomulag á vegi og umferð um Kjöl en hafnar þeim hugmyndum sem Norðurvegur hefur nýlega kynnt.

Öræfakyrrð á Kili á ekki að rjúfa frekar en orðið er.


Stjórn Ferðafélags Íslands

8. febrúar 2007