Árbók 2007 um Austur-Húnavatnssýslu - Örnefni og sýn yfir úthafið

Fjallað er um Austur-Húnavatnssýslu í 80. Árbók Ferðafélags Íslands sem kemur út á vordögum. “Ég hef alltaf haft áhuga á umhverfi og sögu þessa héraðs. Eftir að ég flutti þaðan fyrir nær 25 árum hefur áhuginn vaxið að mun og hef í rannsóknum og skrifum einkum fengist við síðustu tvö hundruð árin” segir höfundur bókarinnar, Jón Torfason frá Torfalæk í Torfalækjarhreppi.

Rétt eins og fræðimanna er háttur hefur Jón víða leitað fanga vegna árbókarinnar og segist hafa komist á snoðir um margt áhugavert. “Mér þótti mjög fróðlegt að kynna mér gagnasöfn Örnefnastofnunar, þar sem meðal annars eru skrár yfir örnefni á velflestum jörðum í sýslunni. Í þessum skrám er mikill fróðleikur um atvinnuhætti og átrúnað,” segir Jón, sem telur Húnvetninga lítt skera sig frá öðrum landsmönnum í siðum og háttum. “Frá fyrri öldum hafa menn hreykt sér af ætlaðri bókagerð Þingeyramunka, um tíma í upphafi 19. aldar þóttu húnvetnskir ofstopamenn áberandi og á síðari hluta sömu aldar virðist sem tiltölulega margir hafi lagt fyrir sig læknisfræði. Líklega er þó flest af þessu eitthvað orðum aukið.”

Stuðlaberg og Vatnsdalshólar

Náttúrufar í hinni víðfeðmu Austur-Húnavatnssýslu er fjölbreytt og meðal náttúruvætta sem margir þekkja eru Hveravellir, stuðlabergshamrarnir við Kálshamarsvík, Spákonufellsborg á Skagaströnd og Vatnsdalshólar. “Áhugaverðir staðir í sýslunni eru þó fleiri. Hér má nefna fossana í Vatsdalsárgljúfri, Blöndugil, sýn yfir úthafið hjá Höfnum á Skaga, Þingeyrasand og Akurshóla, svo eitthvað sé nefnt, og svo eru fjölmargir sögustaðir.”

ón segir að sýslunni sé mikið um grasgefið jafnlendi sem auðvelt hafi verið til túnræktar. “Því geri ég talsvert af því í bókinni að lofa blessaða skurðgröfuna sem breytti mýrunum í gróðursæl tún á síðustu öld. Í innsveitunum er tiltölulega snjólétt miðað við marga aðra landshluta. Að minnsta kosti er í minningunni eiginlega eins og hafi alltaf verið gott veður heima.”

Forvitnilegir blettir   

Þrátt fyrir náttúrufegurð hefur Austur-Húnavatnssýsla ekki notið þeirra vinsælda ferðamanna sem mörgum þætti að vera skyldi. Jón telur þó líkur á að slíkt breytist, forsendurnar séu til staðar. “Norður í land eru greiðar samgöngur og vegakerfið gott. Heimamenn leggja kapp á að kynna héraðið og byggja upp ferðaþjónustu, hafa merkt sögustaði, sett á stofn söfn og útbúið gistirými og greiðasölu. Í héraðinu er æði margt að skoða og það er vel þess virði að beygja af hringveginum og ferðast um sveitirnar. Forvitnilegir blettir eru nánast hvar sem er, bara ef menn gefa sér tíma til að nema staðar og skoða þá,” segir Jón sem verður fararstjóri í sérstakri Árbókarferð fyrstu helgina í júní nk. þar sem víða verður komið við og höfð viðkoma á stöðum utan alfaraleiða.