Fréttatilkynning frá Ferðafélagi Íslands
Árbók FÍ 2007 Húnaþing eystra er komin út.
Árbók Ferðafélags Íslands 2007 er sú áttugasta í ritröðinni en bókin hefur komið út samfellt frá árinu 1928, einstakur bókaflokkur um land og náttúru.
Að þessu sinni er árbókin um Húnaþing eystra og ritar hana Jón Torfason frá Torfalæk. Jón er fróður um sögu héraðsins og hefur viðað að sér heimildum úr ýmsum áttum. Árangurinn er glæsileg bók sem ekki einungis lýsir náttúrufari og staðháttum heldur er rík af sögum og sögnum.
Ferðalangar eiga það til að bruna hratt í gegnum sýsluna og gefa sér oft nauman tíma til að svipast um. Ef hægt er á ferð og sveigt af aðalvegi kemst ferðalangurinn fljótt að því að margt merkilegt er að sjá og náttúrufegurð er mikil. Flestir þekkja Vatnsdalshóla en forvitnileg og lítt þekkt náttúrufyribæri er víðar að finna eins og lýst er í bókinni. Þar má t.d. nefna Kattaraugað í Vatnsdal og fossaröðina í gljúfri Vatnsdalsár.
Bókarhöfundur leiðir lesanda um gróskumikla og söguríka dali milli hárra fjalla, út á ystu strendur Skagans, móti opnu íshafi og loks fram til heiða og afréttarlanda. Hugað er að lifnaðarháttum að fornu og nýju og sagt frá merkum viðburðum, mönnum, verum og vættum í héraðinu. Hér glímdi Grettir við Glám og Hallfreður vandræðaskáld kvað sín fyrstu kvæði, skrautlegir klerkar, litríkir sýslumenn, skörulegar húsfreyjur og fengsamir bændur settu mark sitt á liðinn tíma.
Bókin er ríkulega myndskreytt. Sveinbjörg Sveinsdóttir og Jón Viðar Sigurðsson tóku myndir sérstaklega fyrir bókina en víðar var leitað fanga og eru nokkrar merkar gamlar myndir. Þá er prýða bókina glæsileg kort sem gerð eru af Guðmundi Ó. Ingvarssyni. Ritstjórn var í höndum Jóns Viðars Sigurðssonar og ritnefndarmennirnir Árni Björnsson, Eiríkur Þormóðsson og Guðrún Kvaran lásu prófarkir. Helgi Magnússon las handrit og veitti margvíslega aðstoð við útgáfuna. Umbrot bókarinnar og ritstjórn mynda annaðist Daníel Bergmann.