Ferðafélags Íslands árbók 2013
Norðausturland.
Út er komin árbók Ferðafélags Íslands 2013.
Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur skrifar um Vopnafjörð, Langanesströnd, Langanes, Þistilfjörð, Melrakkasléttu, Núpasveit, Öxarfjörð og Hólsfjöll, svæði sem að flatarmáli er um 7% af Íslandi. Fallegar ljósmyndir sem höfundur tekur skreyta bókina auk þess sem nákvæm kort eru af svæðunum sem fjallað er um. Daníel Bergmann annaðist umbrot á bókinni. Kortin í árbókinni eru teiknuð af Guðmundi Ó. Ingvarssyni að forskrift höfundar. Handritalestur var í höndum ritnefndarmannanna Árna Björnssonar, Eiríks Þormóðssonar og Guðrúnar Kvaran. Þá vann Helgi Magnússon við skráargerð og prófarkalestur. Jón Viðar Sigurðsson ritstýrði verkinu.
Bókin fjallar um fjölbreytt og áhugaverð svæði hvað varðar náttúrufar, sögu og möguleika til útivistar. Bókarhöfundi tekst á sinn einstaka hátt að leiða lesandann um landið og flétta saman sögunni ásamt lýsingu á náttúrufari.
Bókin er ríkulega myndskreytt og hefur bókarhöfundur tekið flestar myndirnar sérstaklega vegna bókarinnar. Þá er fjöldi vandaðra staðfræðikorta og skýringarmynda í bókinni. Útkoman er glæsileg bók sem er í senn fræðandi og hvatning til lesandans að kynna sér svæðið af eigin raun.
Árbækur Ferðafélags Íslands hafa komið út árlega í óslitinni röð frá árinu 1928 og er einstæður bókaflokkur um land og náttúru. Hver bók fjallar venjulega um tiltekið afmarkað svæði og nær nú efni þeirra um landið allt, víða í annað eða jafnvel þriðja sinn. Árbækur Ferðafélagsins, 86 að tölu, eru því í raun altæk Íslandslýsing á meira en fjórtán þúsund blaðsíðum.
Ferðafélagið hefur alla tíð kostað kapps um að gera árbækur sínar sem best úr garði og jafnan fengið heimamenn á hverjum stað og aðra sérfræðinga til liðs. Þannig hefur verið reynt að gera texta- og heimildarvinnu sem traustasta. Mikinn fróðleik um náttúrufar er að finna í bókunum, um gróður, fugla og aðra landsins prýði, en ekki síst um jarðfræði og myndunarsögu landsins. Saga og menning skipa háan sess í umfjöllun um byggðirnar.