Árbókin 2016 komin út

Árbók Ferðafélags Íslands árið 2016 er komin út og byrjað er að dreifa henni til þeirra félagsmanna sem greitt hafa árgjaldið.

Árbókin fjallar að þessu sinni um Skagafjörð austan Vatna - Frá Hjaltadal að Úlfsdölum. Með þessari árbók lýkur þriggja binda umfjöllun Páls Sigurðssonar prófessors og fyrrum forseta Ferðafélagsins um Skagafjörð. Fyrsta bindi, Skagafjörður vestan Vatna – Frá Skagatá að Jökli, kom út 2012 og annað bindi,Skagafjörður austan Vatna – Frá Jökli að Furðuströndum, kom út 2014.

Höfundurinn, sem er Skagfirðingur að uppruna, tvinnar saman landlýsingar og sögu héraðsins líkt og tíðkast hefur í árbókum Ferðafélags Íslands. Af nógu er að taka: hrikalegt landslag Tröllaskagans og óteljandi dalir og afdalir; djásnin Drangey, Málmey og Þórðarhöfði; stórmerkilegt mannlíf og menning, ekki síst tengd biskups- og háskólasetrinu að Hólum í Hjaltadal, Vesturfarasafninu á Hofsósi og Listasetrinu Bæ. Þjóðlegur fróðleikur og þjóðsögur skipa líka háan sess.

Bókin er 254 blaðsíður. Um 220 ljósmyndir og yfir 20 uppdrættir og töflur bæta mjög við fræðslugildi bókarinnar og eru lesendum áreiðanlega til ánægju- og yndisauka. Að vanda teiknaði Guðmundur Ó. Ingvarsson kortin og Jóhann Óli Hilmarsson, sem fór um héraðið þvert og endilangt og sótti þangað myndefni, tók flestar ljósmyndirnar en tæplega tveir tugir annarra ljósmyndara eiga einnig myndir í bókinni.

Sérstakur kafli er í bókinni eftir Árna Hjartarson jarðfræðing um skagfirska jarðfræði og landslag en doktorsritgerð hans (2004) fjallaði einmitt um Skagafjarðarmislægið og jarðsögu þess.

Fjölmargir aðrir komu að gerð bókarinnar auk höfundar, ritstjóra og ritnefndar. Nefna má Daníel Bergmann sem lagði skerf til myndvinnslunnar, Helga Magnússon sem las yfir textann, Hjalta Pálsson sem bæði betrumbætti myndatexta og lagði til margar ljósmyndir og Kristján Eiríksson sem gaf góð ráð varðandi Drangeyjarkort.

Ritstjóri árbókarinnar er Gísli Már Gíslason, og ritnefnd skipa auk hans Eiríkur Þormóðsson og Guðrún Kvaran en þau hafa bæði lagt árbókum Ferðafélagsins lið í áratugi.

Árbækur Ferðafélags Íslands hafa komið út árlega í óslitinni röð frá árinu 1928. Í hverri bók er oftast staðháttalýsing afmarkaðs svæðis og sögulegt efni tengt því. Nær nú efni bókanna um landið allt, víða í annað eða jafnvel þriðja sinn. Árbækurnar, 89 að tölu, eru því í raun altæk Íslandslýsing á meira en fimmtán þúsund blaðsíðum.

Félagar í Ferðafélagi Íslands fá árbókina senda heim til sín þegar þeir hafa greitt árgjaldið sem nemur 7.400 kr.