Armbönd fyrir Landmannalaugagesti

Sú nýbreytni hefur verið tekin upp í Landmannalaugum að þeir sem greiða aðstöðugjald fá sérstök armbönd til að bera á meðan þeir dvelja á svæðinu.

Í öllum skálum Ferðafélags Íslands er sérstaklega rukkað fyrir aðstöðu við skálana, 500 kr. fyrir daginn. Það eru aðallega svokallaðir dagsgestir sem nýta sér þetta en það eru þeir sem ekki gista í skálunum sjálfum eða á tjaldsvæðunum. Dagsgestir koma í heimsókn yfir daginn og nota þá aðstöðu sem byggð hefur verið upp í kringum skálana eins og til dæmis klósett, nestishús, grill eða þvíumlíkt.

armbond.jpg sturtuthrif.jpg
Nýju armböndin - Kátir skálaverðir við sturtuþrif

Dagsgestir eru flestir í Landmannalaugum en yfir sumartímann heimsækja svæðið ríflega 90 þúsund manns. Í fyrra var hrundið af stað tilraunaverkefni þannig að gestir í Laugum fengu sérstök armbönd þegar þeir greiddu aðstöðugjaldið. Tilraunin þótti heppnast vel og móttökur voru jákvæðar enda vilja allir geta gengið að hreinni og góðri salernisaðstöðu. Í kjölfarið hefur verið ákveðið að halda áfram með armböndin en til að byrja með bara í Landmannalaugum þar sem gestafjöldinn er mestur.

Armböndin spara heilmikinn tíma, bæði fyrir skálaverði en ekki síst fyrir gestina sjálfa og leiðsögumenn enda er hægt að kaupa þau fyrirfram. Að auki geta ferðaskrifstofur og einkaaðilar pantað armbönd beint í gegnum skrifstofu FÍ og lækkað þannig gjaldið í 400 kr. fyrir hvert armband. Hægt verður að skila og fá endurgreidd þau armbönd sem ekki eru notuð.

Aðstöðugjöldin sjálf eru svo nýtt í rekstrarkostnað skálanna, aðallega salernisaðstöðuna. Eftir því sem fjöldi ferðamanna eykst þarf að bæta við klósettum og það er oft ekki hlaupið að því að viðhalda þeim uppi á hálendi Íslands. Skálaverðir sjá um að þrífa salernishúsin á hverjum degi og stundum oft á dag, klósettpappír og þrifefni fara í tonnavís og á hverju ári þarf að tæma rotþrær, mála húsin og skipta um brotin klósett og vaska.

vorverk.jpg uppvoskun.jpg
Hefðbundin vorverk í Landmannalaugum - Ný aðstaða fyrir uppvask