Ársskýrsla um starfsemi Ferðafélags Íslands 2006

Ársskýrsla um starfsemi Ferðafélags Íslands árið 2006

Flutt af forseta Ferðafélags Íslands á aðalfundi 21. mars 2007

Ferðafélag Íslands er 80 ára á árinu 2007. Félagið stendur traustum fótum og gegnir mikilvægu hlutverki meðal þjóðarinnar. Kjörsvið félagsins eru ferðalög um landið, einkum óbyggðir, rekstur sæluhúsa og útgáfustarf á ýmsum sviðum og ber þar hæst útgáfu árbókarinnar en hún hefur komið út samfellt frá árinu 1928.

Á 80 ára ferli er eðlilegt að sveiflur verði í félagslífi og starfsemi og nú háttar svo til að mikill áhugi er meðal þjóðarinnar á náttúru landsins, gönguferðum, varðveislu menningar og sögu einstakra héraða. Þessi byr blæs nú í segl Ferðafélagsins og því spennandi tímar og verkefni framundan hjá félaginu.  

Stjórn Ferðafélags Íslands 2006 var þannig skipuð eftir aðalfund 20. mars 2006:

Forseti:            Ólafur Örn Haraldsson
Varaforseti:      Valgarður Egilsson
Ritari:              Unnur V. Ingólfsdóttir
Gjaldkeri:        Leifur Þorsteinsson
Meðstjórn:       Elísabet Sólbergsdóttir, Ívar J. Arndal , Valtýr Sigurðsson, Ásgeir Margeirsson , Sigrún Valbergsdóttir

11 stjórnarfundir voru haldnir á árinu 2006.

Sæluhús Ferðafélags Íslands

Sæluhús Ferðafélags Íslands og deilda þess eru á 36 stöðum á landinu og rekur móðurfélagið slík hús á 13 stöðum.  Rekstur þeirra var með hefðbundnum hætti 2006 og komu fjölmargir að viðhaldi og uppbyggingu skála.  Fóstrar ásamt fylgdarliði fóru í vinnuferðir í sína skála og farnar voru minnst tvær vinnuferðir í hvern skála, fleiri ferðir í einstaka skála.  Sem fyrr er sjálfboðaliðastarf í þessum vinnuferðum ómetanlegt og leggur grunn að því að mögulegt er að reka skála í óbyggðum.  Skála og landverðir voru ráðnir á 9 staði yfir sumartímann. 

 Stærsta verkefni ársins í skálum var stækkun Höskuldsskála í Hrafntinnuskeri.  Skálinn var stækkaður í lok ágúst og voru þá einingar fluttar á vörubílum úr Reykjavík og smiðir og sjálfboðaliðar unnu að stækkun skálans og dvöldust þar á meðan á vinnu stóð. Með stækkuninni var stórlega bætt aðstaða skálavarðar og salernisaðstaða auk þess sem gistiplássum fjölgaði. Fjölmargir veittu Ferðafélaginu aðstoð í þessum framkvæmdum, meðal annars Vegagerð ríkisins og Rafmagnsveitur ríkisins. Fóstrar skálans höfðu umsjón með framkvæmdum.

 Í Nýjadal var unnið að lagnamálum vatnsveitu auk þess sem eldavél var endurnýjuð í öðru húsinu.  Í Hvanngili var aðstaða skálavarða bætt, skipt um eldhúsinnréttingu og ísskápur endurnýjaður, auk þess sem skipt var um vatnstank.  Í Þórsmörk voru sett upp útsýnisskilti og gönguleiðir voru stikaðar samkvæmt nýju korti af Þórsmörk.  Í Emstrum var lokið við pallagerð umhverfis skálana. Í Landmannalaugum var hitaveitan í skálanum endurnýjuð á haustdögum. Skipt var um forhitara og allar leiðslur að húsinu og er nú hægt að bjóða upp á heitt og kalt rennandi vatn allt árið um kring, vatnssalerni og sturtur, og er það sannarlega til bóta  Auk þessara verkefna var í vinnuferðum unnið að hefðbundnu viðahaldi á skálum, þe skálar voru málaðir, borð og bekkir lakkaðir, skipt var um rúður, unnið í rafmagnsmálum og vatnsveitum, auk þess sem unnið var í umhverfi skálanna, göngustígum, brúm, og ekki síst hreinsað og þrifið.

Fóstrar skála FÍ eru sem hér segir:  Emstur: Þorsteinn Eiríksson. Skálavörður var Kerstin Langenberger. Hrafntinnusker: Ívar J. Arndal, Daði Garðarsson og Höskuldur Jónsson. Skálaverðir í sumar voru Marianne Guckelberger, Sonja Jónsdóttir, Stefán Jónsson, Hákon Gunnarsson, Gunnar Njálsson og Steinunn Leifsdóttir og unnu þau í tvær til fjórar vikur hvert. Hvanngil: Þórður Höskuldsson. Skálaverðir Dagmar Eiríksdóttir og Halldór Halldórsson sem jafnframt vann að því að þjónusta skála FÍ að Fjallabaki bæði með viðhaldsvinnu og vöruflutningum.  Þórsmörk: Helga Garðarsdóttir, Þór Sigurðsson og Trausti Pálsson. Skálaverðir Birna Guðmundsdóttir og Sonja Jónsdóttir auk þess sem Gísli Ólafur Pétursson leysti af á haustdögum ásamt Jónasi Bamulis sem hafði annast skálavörslu í Slyppugili um sumarið. Skosk stúlka, Sarah Fergusson, vann sem sjálboðaliði í Þórsmök í lok sumars.  Þverbrekknamúli: Valdimar Valdimarsson. Gunnar Njálsson frá Grundarfirði annaðist skálavörslu í skálum FÍ á Kili í júlímánuði auk þess sem Gunnar leysti af í skálum í Nýjadal, Emstrum og Hrafntinnuskeri.  Þjófadalir: Jónína Pálsdóttir og Bragi Hannibalsson.  Hagavatn: Eggert Eggertsson.  Skálavörður í Álftavatni var Fanney  Gunnarsdóttir og skálavörður í Norðurfirði var Áslaug Guðmundsdóttir.  Hlöðuvellir, Hvítárnes, Álftavatn, Landamannalaugar og Norðurfjörður voru án fóstra í ár og í umsjón skrifstofu og byggingarnefndar.

 Skálavarðarstarfið var að venju fjölbreytt en starf skálavarðar er allt í senn krefandi, lifandi og skemmtilegt, og á háannatímum er álag á skálaverði mikið.  Almenn ánægja var með störf skálavarða í skálum FÍ í sumar og sinntu þeir störfum sínum af áhuga og vinnusemi.  Fóstrar skipulögðu vinnuferðir sínar í samstarfi við skrifstofu og hefur hver fóstri hóp aðstoðarmanna sér til stuðnings.  Stærsti hópurinn er í Þórsmörk en þangað voru farnar tvær 50 manna vinnuferðir og er óhætt að segja að handtökin í vinnuferðum FÍ hafi verið ansi mörg. 

Unnið var að ýmsum sérverkefnum í nágrenni skálanna og má þar helst nefna nýja brú yfir Farið sem reist var að frumkvæði forystu félagsins.  Nýja brúin var síðan vígð með athöfn 26. júli að vistöddu miklu fjölmenni, meðal annars félagsmálaráðherra og fulltrúum úr fjárlaganefnd, sveitarstjórnarmönnum, heimamönnum og félagsmönnum í FÍ. Nýja brúin opnar gönguleiðir sunnan Langjökuls og er fjórða brúin yfir Farið en hinar fyrri hafa látið undan vegna flóða og jökulhlaupa.  Stefán Jónsson verktaki frá Vorsabæ í Gaulverjabæjarhreppi hafði umsjón með brúarsmíðinni en auk hans lögðu fjölmargir verkefninu lið, bæði fyrirtæki og einstaklingar,  og má þar nefna Vegagerð ríkisins, Björgunarfélag Árborgar,  Bláskógabyggð, Þórhall Ólafsson í Neyðarlínunni,  Björn bónda Sigurðsson í Úthlíð,  sveitarstjóra og starfsmenn Bláskógabyggðar og marga fleiri og færir félagið þeim bestu þakkir fyrir aðstoðina.

 Þá vann félagið að endurstikun á hluta Laugavegarins í samstarfi við landvörðinn í Landmannalaugum og Umhverfisstofnun.  Félagið vann að framkvæmdum í Nauthúsagili þar sem settir voru kaðlar og festingar í kletta til að auðvelda aðgengi að fossi innst í gilinu. Göngustígar voru bættir og endurstikaðir í Þórsmörk samkvæmt nýju gönguleiðakorti af Þórsmörk. Gönguleiðin að Kvígindisfelli sem félagið hefur látið stika að undanförnu var opnuð í byrjun júlí.

 Útgáfustarfsemi

Árbók Ferðafélags Íslands 2006 hefur titilinn Mývatnssveit og er fjallað um sveitina og umhverfi hennar. Bókina ritar Jón Gauti Jónsson landfræðingur, maður nákunnugur þar á slóðum forfeðra, frænda og vina. Myndir til bókarinnar tók hinn kunni fuglaljósmyndari Jóhann Óli Hilmarsson, staðfræðikort teiknaði Guðmundur Ó. Ingvarsson, umbrot og myndvinnslu annaðist Daníel Bergmann og ritstjóri bókarinnar var Hjalti Kristgeirsson.  Hjalti Kristgeirsson lét af stöfum sem ritstjóri Árbókar FÍ að útkominni bókinni og hefur honum verið þakkað einstakt starf í þágu félagsins sem ritstjóri árbókar í 17 ár.  Þá gaf Ferðafélagið út eitt fræðslurit á árinu,  Biskupaleiðir yfir Ódáðahraun sem Ingvar Teitsson formaður Ferðafélags Akureyrar ritaði.  Í bókinni er lýst gamalli leið yfir Ódáðahraun, svonefndri biskupaleið, en fullvíst má telja að Skálholtsbiskupar hafi stundum farið þessa leið í vísitasíur til Austurlands.  Þá gaf Ferðafélagið út kort af gönguleiðum í Þórsmörk í samstarfi við Útivist og Kynnisferðir eins og fyrr segir.  Ferðaáætlun félagsins kom út 15. febrúar og hafði þá ferðanefnd unnið að undirbúningi ferða frá því í september.

 Ferðir

Farnar voru 26 sumarleyfisferðir á vegum félagsins sumarið 2006. Dagsferðir, sem voru farnar, urðu 32 og staðið var að sérferðum fyrir hópa.  Auk þess var göngugleði á sunnudögum frá hausti fram til vors og er þátttaka í henni eins og gengur misjöfn eftir aðstæðum. Bíladeild FÍ hefur verið stofnuð og fer í jeppa- og bílaferðir, ekki síst yfir vetrartímann, en einnig sumarferð, síðsumarferð og haustferð og njóta þessar ferðir vaxandi vinsælda. Í sumarleyfisferðum var lögð aukin áhersla á þjónustu í ferðum, flutningur á farangri er algengari, auk þess sem sameiginlegur matur meðal þátttakenda í ferðum er orðinn vinsælli. Sumarleyfisferðir voru að venju fjölbreyttar og farið var um byggðir og óbyggðir víða á landinu.  Hornstrandaferðir, sem verið hafa mjög vinsælar hjá félaginu, drógust saman á þessu ári og má það rekja til vinsælda ferða á Kárahnjúkasvæðið. 

 Laugavegurinn er sem fyrr vinsælasta gönguleið landsins og fóru um 7000 göngumenn Laugaveginn í sumar, flestir þó á eigin vegum en höfðu viðkomu í skálum félagsins.  Ferðir FÍ um Laugaveginn voru allar fullbókaðar.  Félagið átti ánægjulegt samstarf við fjölmagra aðila um einstakar ferðir og má þar nefna ferðir í Þjórsárver í samstarfi við Landvernd.  Félagið fór einnig eftirminnilega ferð um Langasjó í samstarfi við Landvernd og fjölmargar björgunarsveitir þar sem siglt var um vatnið á 9 gúmmíbátum með um 50 þátttakendur. Þá var félagið í samstarfi við Þjóðgarðinn á Þingvöllum um ferðir á fjöll Þjóðgarðsins og einnig má nefna samstarf við Grasagarðinn í Laugadal, Hellnarannsóknarfélagið og Fuglaskoðunarfélagið.  Ferðafélagið fór tvær ferðir til útlanda á árinu, aðra til Færeyja í samstarfi við Hópferðamiðstöðina Trex með Sigrúnu Valbergsdóttur sem fararstjóra,  hina og á Mont Blanc í samstarfi við Ferðaþjónustu Bænda með Harald Örn Ólafsson sem fararstjóra.  Báðar þessar ferðir tókust einkar vel. Esjudagurinn í samstarfi FÍ og Spron var með hefðbundnum hætti og slagveður setti svip sinn á daginn. Þá stóð félagið einnig fyrir kvöldgöngum á Esjuna og sérstakri stjörnuskoðunarferð í samstarfi við SPRON og tóku rúmlega 100 manns þátt í stjörnuskoðunarferðinni.  Þá hafa Ferðafélag Íslands og Útivist staðið fyrir sameiginlegri blysgöngu á milli jóla og nýárs síðast liðin tvö ár og tóku um 250 manns þátt í blysförinni í ár. Morgungöngur FÍ í maí nutu vinsælda og gengu um 220 manns á fjöll eldsnemma morguns alla daga vikunnar eina vikuna í maí.  Hefðbundin frágangsferð FÍ í Þórsmörk var farin í október og bauð félagið öllum sem starfað hafa með félaginu á árinu í hana, auk heiðurs- og kjörfélögum. 

 Ferðafélagið leggur að venju mikla áherslu á góða og vandaða fararstjórn í ferðum sínum.  Fararstjórar eru í flestum tilvikum félagsmenn með mikla reynslu af ferðalögum. Er þar eingöngu um sjálfboðaliðastarf að ræða og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir. Auk þess eru ýmsir fræðimenn og heimamenn fengnir til liðs við fararstjórana.  Félagið átti ánægjulegt samstarf við fjölda þjónustuaðila um allt land sem önnuðust flutning á fólki og farangri fyrir félagið og sáu um gistingu í fjölmörgum ferðum og er þeim þakkað samstarfið.  Vestfjarðarleið sá sem fyrr um allan akstur fyrir félagið og er ástæða til að þakka starfsfólki fyrirtækisins fyrir greiðvirkni, velvilja og gott samstarf í hvívetna.

 Félagslíf, fundir og fræðslu- og kynningarstarf

Myndakvöld voru 7 talsins  á árinu.  Fjölmargir, bæði félagsmenn, fararstjórar, fræðimenn og aðrir, sýndu myndir á myndakvöldunum. Félagsvist var spiluð í risinu og voru spilakvöldin á árinu 7 talsins og þátttaka góð og veittar veitingar og verðlaun.  Haldin voru gps-námskeið með þátttöku um 80 manns þar sem Haraldur Örn Ólafsson fór yfir grunnatriði gps-tækninnar  og tvö vaðnámskeið á Þórsmerkursvæðinu þar sem Gísli Ólafur Pétursson fór yfir helstu reglur í samskiptum við ár og vöð. Góð þátttaka var á báðum þeim námskeiðum. 

 Einstaka greinar birtust á árinu í Morgunblaðinu eftir stjórnarmenn undir heitinu ,,Á slóðum Ferðafélags Íslands” en ljóst er að ekki eru sömu umsvif hjá félaginu og áður á þessum vettvangi og þarf að bæta úr því. Heimasíða félagsins var endurnýjuð og birtast þar reglulega fréttir af starfsemi félagsins.  Fréttir eru einnig sendar til félagsmanna í gegnum tölvupóstlista félagsins.  Ferðaáætlun kom út í byrjun árs ásamt fréttabréfi. Sérstakt sérblað með Morgunblaðinu kom út í júní og sagði frá því helsta sem var á döfinni hjá félaginu. Félagið sendi fulltrúa sína í viðtöl í hinum ýmsu útvarpsþáttum á árinu, meðal annars á tveggja vikna fresti frá vori fram á haust í þátt á Rás 1. Forseti og framkvæmdastjóri áttu fjölmarga fundi með samstarfsaðilum, fyrirtækjum, stofnunum, sveitarfélögum og öðrum félögum, bæði til að kynna starf félagsins og ræða samstarf á ýmsum sviðum. Framkvæmdastjóri heimsótti fyrirtæki á vordögum og kynnti félagið, ferðir og skála. Fararstjórar heimsóttu einnig þrjá skóla og kynntu ferðir. Kynnigarbréf var sent til stórfyrirtækja, árbók félagsins kynnt og boðið upp á kaup á ritsafninu.  Sérstök ferðakynning félagsins var í maí en aðsókn var mjög dræm.

Á haustdögum var haldinn deildafundur hjá Ferðafélaginu í Mörkinni 6.  Þá mættu fulltrúar deilda ásamt nokkrum stjórnarmönnum og starfsmönnum FÍ. Farið var yfir árið sem var að líða, helstu verkefni og framkvæmdir, ferðir, útgáfu og fleira sem félagið vinnur að. Að loknum góðum fundi var snæddur kvöldverður í risinu í Mörkinni.  Á þessum fundi kom fram að formenn Ferðaféalgs Akureyrar og Ferðafélags Fljótsdalshéraðs,  Ingvar Teitsson og Þórhallur Þorsteinsson sem báðir hafa veitt félögum sínum forystu um langt árabil munu láta af störfum á nýju tímabili.  Á fundinn mættu félagar úr nýrri deild, Ferðafélagi Mýrdælinga og var þeim vel tekið.

Mörkin 6

Veislan veitingaþjónusta annast nú rekstur á FÍ salnum og hafa orðið mikil umskipti á rekstri salarins. Hann er nú bókaður flestar helgar en auk þess fer þar fram starfsemi á virkum dögum. Ferðafélagið hefur áfram sína föstu daga undir hefðbunda fundi, félagslíf og annað.  Algjör umskipti hafa orðið í rekstri hér á Mörkinni 6. Á tveimur arum hefur tekist að leigja út allt húsrými utan skrifstofu félagsins og þar með að auka arð af þessari verðmætu eign. Ég vil þakka leigjemdum og sameignaraðilum okkar hér í húsinu fyrir einstaklega gott samstaf.

 Styrkir og gjafir

Ferðafélagið nýtur velvildar og stuðnings fjölmargra fyrirtækja og velunnara, bæði í formi fjárhagslegra styrkja sem og stuðningi með öðrum hætti.  Pokasjóður styrkti félagið til brúarsmíði yfir Farið og til útgáfu á Þórmerkurkorti. SPRON styrkti félagið til framkvæmda, merkinga og lagningar göngustíga.  Fjallasjóður styrkti félagið til verkefna í óbyggðum og gjöf barst frá bandaríska tóbaksfyrirtækinu Reynolds. Þá var framlag til félagsins á fjárlögum ríkisins til brúargerðar yfir Farið.

 Félagar

Nýir félagsmenn á árinu 2006 voru um fjögur hundruð og á 14 mánaða tímabili voru um 1000 nýir félagsmenn skráðir í FÍ.  Ánægjulegt er að þessir nýju félagsmenn eru á öllum aldri, ekki síst fólk á aldrinum 30 – 40 ára, en auk þess bæði yngra og eldra fólk. Á hverju ári hætta einnig margir félagsmenn, bæði vegna aldurs eða þar sem þeir eru hættir að ferðast með félaginu.

 Skrifstofan

Starfsmannahald á skrifstofu félagsins var með hefðbundnum hætti.  Ingunn Sigurðardóttir sinnti starfi skálafulltrúa með öllu því sem tilheyrir, auk ýmissa annarra verkefna. Edda Dagbjartsdóttir  annaðist fjármál félagsins, bókhald og fjárvörslu, Helga Garðarsdóttir afgreiðslu og almenna þjónustu og Páll Guðmundsson er framkvæmdastjóri. Yfir sumartímann voru Steinunn Leifsdóttir og Ólöf Jónsdóttir á skrifstofunni í almennri afgreiðslu. Magnús Hákonarson og Einar Brynjólfsson önnuðust þjónustu við skála og ýmis verkefni tengd þeim.  Heimir Örn Sveinsson tölvumaður annaðist tölvuþjónustu fyrir skrifstofuna. Þá var Hjalti Kristgeirsson ritstjóri árbókar að störfum fram í maí.  Búnaður var endurnýjaður á skrifstofu, bæði tölvur og prentarar, og unnið var að nýju bókunarkerfi á heimasíðu félagsins.

 Stjórnarmenn

Þrír menn úr fráfarandi stjórn eru ekki í kjöri til nýrrar stjórnar. Þetta eru Valgarður Egilsson, varaforseti, Leifu Þorsteinsson, gjaldkeri og Ásgeir Margeirsson. Þeir tveir fyrrnefndu, Valgarður og Leifur hafa setið í stjórn í níu ár en sú regla gildir í félaginu að stjórnarmenn sitja ekki lengur en níu ár. Ásgeir hefur tekið að sér starf sem krefst mikillar fjarveru í útlöndum og biðst því undan endurkjöri.

 Ég leyni því ekki að mikil eftirsjá er að þessum mönnum úr stjórninni. Hver og einn þeirra hefur unnið ómetanlegt starf fyrir Ferðafélag Íslands. Ásgeir hefur dugað félaginu afar vel bæði með málefnalegum störfum í stjórninni og stuðningi við endurbætur í Landmannalaugum svo nokkuð sé nefnt. Og sérstaklega hafa þeir Valgarður og Leifur verið óþreytandi í störfum sínum fyirir Ferðafélagið. Ég held að varla sé til þau verkefni stór og smá sem Leifur kemur ekki nærri með dugnaði og jákvæðu hugarfari og Valgarður hefur auk margra verka leyft okkur öllum að njóta andríkis síns og víðsýni. Ég vil líka þakka þessum mönnum fyrir hversu vel þeir hafa staðið við bakið á mér í forsetastarfinu, ekki síst þegar á móti hefur blásið. Síst hefði ég viljað missa þessa menn úr stjórninni en við verðum að hlýta starfsreglunum og eiga þá að þó að ekki sitji í stjórn.

 En maður kemur í manns stað og ekki eru það neinir aukvisar sem nú koma í stjórnina. Vil ég fagna nýju stjórnarfólki sérstaklega.

 Lokaorð

Lengi mætti halda áfram að rekja störfin á síðasta ári en hér læt ég staðar numið. Ég held að ég megi segja að staða Ferðafélags Íslands er góð eftir 80 ára farsælt starf.  Eins og reikningar félagssins bera með sér er afkoma ársins sú besta sem lengi hefur verið og fjárhagsleg staða er sterk. Félagsmenn geta fagnað þeim áfanga að félagið er nú skuldlaust og eignastaða traust.

 Ég vil færa starfsfólkinu sérstakar þakkir fyrir frábær störf, heilindi og þolgæði. Álag á starfmenn yfir sumartímann er gríðarlegt. En fólkið okkar stóð undir því. Nú er framkvæmdastjórinn okkar, Páll Guðmundsson að ljúka sínu öðru heila starfsári. Ég vil óska honum til hamingju með með glæsilegan árangur í starfi.  Það er mikið fjör í starfinu og félagið kemur fram af bjartsýni og framfarahug um leið og haldið er í heiðri gömlum og góðum gildum.

 Oft hefur verið sagt að landið, tungan og sagan séu vettvangur Ferðafélags Íslands. Félagið er vörslumaður á þessum kjörsviðum um leið og það á að vera frumkvöðull á nýjum sviðum ferðamennsku og viðhorfum til lands og náttúru.

Ólafur Örn Haraldsson
f
orseti FÍ

Sjá svipmyndir úr starfi FÍ 2006