Gestur okkar í Áttavita Ferðafélags Íslands að þessu sinni er Hjalti Björnsson fararstjóri hjá FÍ og sjálfstætt starfandi áfengis- og vímefnaráðgjafi. Hann býr yfir mikilli reynslu sem fjalla- og leiðsögumaður, hann er einnig starfandi formaður Flugbjörgunarsveitarinnar. Hjalti eyðir öllum sínum frítíma á fjöllum eða í annars konar útivist.
Í þættinum sem hlusta má á hér að neðan, fara þeir Hjalti og Bent yfir þau mikilvægu grunnatriði sem fólk þarf að hafa í huga við útivist, hvað varðar eigið öryggi og annara. Einnig ræða þeir hvernig gott sé að bera sig að við að koma sér af stað í göngu- og fjallamennsku, annað hvort alveg frá grunni eða fyrir þá sem hafa stundað göngur og fjöll áður fyrr en vilja koma sér aftur af stað.
Hjalti Björnsson er umsjónarmaður fjallaverkefnisins FÍ Alla leið. Æfingaáætlun verkefnisins stendur frá janúar til júní og miðar að því að undirbúa þátttakendur fyrir langa og spennandi jöklagöngu að vori. Undirbúningurinn er þríþættur og felst í vikulegum fjallgöngum sem stigmagnast að erfiðleikastigi, vikulegum þrekæfingum og alhliða ferðafræðslu um klæðnað, búnað, næringu, öryggismál og jöklagöngur.
Hjalti er sérlegur áhugamaður um umhverfismál og hefur hann verið í fararbroddi hjá FÍ hvað varðar PLOKK-viðburði félagsins, hann ræðir hér m.a. þessa hugsjón sína og minnir okkur á að ganga vel um landið okkar.