Eitt það mikilvægasta sem fólk þarf að kunna í fjallaferðum að vetri er að þekkja hætturnar á snjóflóði. Á miðvikudaginn hefst snjóflóðanámskeið FÍ. Kennari á námskeiðinu er Auður Kjartansdóttir.
„Námskeiðið er hugsað fyrst og fremst fyrir byrjendur í sjálfstæðri fjallamennsku og til upprifjunar fyrir aðra,“ segir Auður. „Þetta er fyrir fólk sem hefur hug á að fara til fjalla hvort sem er á skíðum, í klifur eða göngu. Markmiðið er að eftir námskeiðið séu þátttakendur öryggir til fjalla yfir vetrarmánuðina.“
Auður er menntaður landfræðingur og starfar sem sérfræðingur á snjóflóðasviði Veðurstofunnar. Hún metur því snjóðflóðahættu á hverjum degi. Hún var líka yfirkennari Björgunarskólans um tíma og er þaulreynd og menntuð sem fararstjóri og leiðsögumaður. Hún hefur kennt fjölmörg námskeið um snjóflóðahættu bæði hérlendis og erlendis.
„Maður þarf að læra að lesa í snjóinn, lesa í veðrið og lesa í landslagið til að læra að greina þessar hættur,“ segir Auður. „Það er á tiltölulega auðveldan hátt hægt að auka öryggi fólks til fjalla svo um munar með einföldum varúðarráðstöfunum sem ég mun kenna á námskeiðinu.“
Með aukinni útivist og auknum vinsældum alls kyns fjallamennsku að vetri til, á heimsvísu, hefur umferð um fjalllendi aukist mjög. Æ fleiri fara til fjalla t.d. á vélsleðum og á fjallaskíðum. Auður segir að fregnir af snjóflóðum sem falla af mannavöldum séu mun tíðari nú en áður. Það vill líka bregða við að fólk vanmeti hættuna á snjóflóðum. Esjan er ágætt dæmi. Þar, eins og annars staðar, leynast hættur.
„Það eru margir sem telja að Esjan sé bara bæjarfjall og sé ekkert hættulegt, en Esjan nær upp í 900 metra hæð. Veður, úrkoma og vindur er allt öðruvísi í slíkri hæð. Einnig er Esjan með hefðbundinn bratta fyrir flekaflóð. Esjan er líklega það fjall þar sem orðið hafa hvað mest snjóflóð af mannavöldum á Íslandi.“
Auður hefur sjálf nokkrum sinnum lent í snjóflóði. „Já, því miður. En sem betur hef ég ekki lent í flóði af stærð 3. Ég hef lent í þónokkuð minni flóðum. Ég hef verið tiltölulega heppin að komast út úr þeim sjálf. Það er aldrei skemmtileg lífsreynsla þegar snjórinn er á fleygiferð undir manni og maður missir algjörlega stjórn á aðstæðum.“
Það er óhætt að mæla sterklega með þessu námskeiði fyrir alla sem hafa hugsað sér að stunda fjallamennsku að vetri. Fyrri hluti námskeiðsins fer fram milli 18 og 21 í risi FÍ, Mörkinni 6. Þá verður farið í bóklega hluta námskeiðsins. Verklegi hlutinn fer svo fram í Bláfjöllum þann 20.janúar, og hefst kl. 11.