Auka ferð um Jarlhettur

Jarlhettur – Hagavatn – Hlöðuvellir – Skjaldbreiður - Laugarvatn - Klukkuskarð 4 dagar - Ferðir FÍ

Númer: S-23 b
Dagsetning: 17.7.2008
Brottfararstaður: Laugarvatn - N1 Kaupfélagið gamla.
Viðburður: Jarlhettur – Hagavatn – Hlöðuvellir – Skjaldbreiður - Laugarvatn - Klukkuskarð 4 dagar
Lýsing:

HÁLENDIÐ. 3 skór

Jarlhettur – Hagavatn – Hlöðuvellir – Skjaldbreiður -  Laugarvatn - Klukkuskarð  4 dagar

17. – 20. júlí

Fararstjóri: Ólafur Örn Haraldsson

Með Langjökli ofan Bláskógabyggðar. Skálpanes (Bláfellsháls), Hagavatn, Hlöðufell, Skjaldbreiður, Laugarvatn
Brottför frá Laugarvatni, N1 kl. 8.30

Í þessari fjögurra daga ferð er gengið um óbyggðalandslag jökla, fjalla, sanda og hrauna og að lokum gegnum fáfarið fjallaskarð niður að Laugarvatni. Dagleiðir eru 13-20 km og aldrei þarf að vaða. Gist er í skálum og tjöldum þannig aðeins þarf að bera dagspoka. Farangur og vistir er flutt á bíl milli áfangastaða. Matur er sameiginlegur og innifalinn verði. Ef skálar á leiðinni rúma ekki ferðafólkið, gista einhverjir í eigin tjöldum sem flutt verða milli áfangastaða. Þeir sem bóka sig fyrst geta valið hvort þeir gista í skála eða tjöldum. Sérstök áhersla er lögð á dekur í mat og aðbúnaði í þessari ferð. Gert er ráð fyrir stefnumóti við einhverja heimamenn sem fræða ferðafólkið sérstaklega.

1. dagur: Ferðafólkið kemur á eigin vegum að Laugarvatni. Ekið snemma morguns í rútu frá Laugarvatni upp Biskupstungur, inn á Bláfellsháls og þaðan inn að jökli að skála í Skálpanesi. Þar hefst gangan sjálf og er gengið með Jarlhettum og milli þeirra og jökuls fram að Hagavatni og skála FÍ við Einifell. Þeir sem vilja ganga á Tröllhettu. Áætlaður göngutími 6-8 klst.

2. dagur: Gengið yfir nýju brúna á ánni Farinu, vestur um Lambahraun og í skála FÍ og Bláskógabyggðar sunnan Hlöðufells. Áætlaður göngutími 8-9 klst.

3. dagur: Gengið vestur til Skjaldbreiðar, gengið á Skjaldbreið (hægt að sleppa) að skála við Karl og Kerlingu suðvestan í Skjaldbreið. Þeir sem vilja ganga á Hlöðufell að morgni. Áætlaður göngutími 6-8 klst.

4. dagur: Gengið suður í Langadal og eftir honum milli Skriðunnar og Skefilfjalls gegnum Klukkuskarð vestan Klukkutinda og þaðan niður í Laugardal að Hjálmstöðum og Laugarvatni. Litið inn í Stöng, heimili Ólafs fararstjóra, farið í sundlaug, hverabrauð grafið upp úr sjóðheitum hverasandi og borðað með bráðnandi smjöri og reyktum Úteyjarsilungi og loks grillveisla.


Verð kr. 55.000 / 58.000
Innifalið: Rúta frá Laugarvatni, gisting, trúss, fararstjórn, sund, gufa og fullt fæði.