Aukaferð á Arnarvatnsheiði í ágúst

Aukaferð- Með eilífðinni á Arnarvatnsheiði

 Sumarleyfisferðir FÍ eru sérlega vel bókaðar í sumar. Flestar ferðir eru fullbókaðar og hafa verið settar upp nokkrar aukaferðir.  Nú er boðið upp á aukaferð á Arnarvatnsheiði í ágúst., Með eilífðinni á Arnarvatnsheiði  Surtshellir, gígur, hraun og veiði , síðsumarstemming, berjamó og fyrstu haustlitir.  Fararstjóri í ferðinni er Sigrún Valbergsdóttir leikstjóri og varaforseti FÍ.

Ferðir - RSS
Númer:

S-24
Dagsetning: 18.8.2009
Brottfararstaður: Mörkin 6, kl 13
Viðburður: Hálendið - Með eilífðinni á Arnarvatnsheiði
Erfiðleikastig: Nokkuð langar dagleiðir (yfirleitt 6 – 8 klst.)  oftast gist í húsum en getur þurft að bera tjöld • gengið í fjalllendi • getur þurft að vaða erfiðar ár • þátttakendur þurfa að vera í góðri þjálfunNokkuð langar dagleiðir (yfirleitt 6 – 8 klst.)  oftast gist í húsum en getur þurft að bera tjöld • gengið í fjalllendi • getur þurft að vaða erfiðar ár • þátttakendur þurfa að vera í góðri þjálfunNokkuð langar dagleiðir (yfirleitt 6 – 8 klst.)  oftast gist í húsum en getur þurft að bera tjöld • gengið í fjalllendi • getur þurft að vaða erfiðar ár • þátttakendur þurfa að vera í góðri þjálfun
Lýsing:

HÁLENDIÐ
Með eilífðinni á Arnarvatnsheiði  Surtshellir, gígur, hraun og veiði
Í samstarfi við Arinbjörn Jóhannsson á Brekkulæk í Miðfirði
18– 23. ágúst                                                                      
Fararstjóri: Sigrún Valbergsdóttir           
Hámark: 15

Afar fáfarin gönguleið um afréttir Borgfirðinga og Vestur -Húnvetninga. Lagt er upp frá vaði á Norðlingafljóti meðfram Eiríksjökli og upp undir Langjökul. Þaðan er haldið norðvestur yfir Arnarvatnsheiði og niður í Miðfjörð. Engan mat þarf að bera í ferðinni.

1.d. þriðjudagur: Brottför með rútu kl. 13 frá Mörkinni 6. Ekið fram hjá Húsafelli. Surtshellir skoðaður á leiðinni að Norðlingafljóti. Farangur er fluttur í náttstað. Gengið í Álftakrók. U.þ.b. 9 km.  Þar bíður hópsins heitur matur. Gist í gangnakofa.
2. d. miðvikudagur: Gengið upp í kofann í Fljótsdrögum (ca 18 km). Þar er gist í tvær nætur.
3. d. fimmtudagur:  Gengið upp í gíginn sem Hallmundarhraun rann úr fyrir um 1100 árum og upp á Jökulstalla utan í Langjökli. 18 km dagur. Aftur gist í Fljótsdrögum.
4.d. föstudagur:  Gengið frá Fljótsdrögum yfir Langajörfa og síðan yfir Skammá, milli Réttarvatns og Arnarvatns. Gengið meðfram Sesseljuvík að Lónaborg við Grandalón. Þar er gist í 2 nætur. 20 km göngudagur.
5. d. laugardagur: Dvalið um kyrrt í Lónaborg. Veitt í matinn. Jurtagreining og fuglaskoðun. Um kvöldið er veiðin grilluð. Gist aftur í Lónaborg.                            
6.d. sunnudagur: Gengin um fimm km leið upp á veginn sem liggur úr Miðfirði og að Arnarvatni.

Rúta sækir hópinn og ekur honum í sund á Hvammstanga. Að því loknu bíður vegleg máltíð hópsins á Brekkulæk í Miðfirði. Að loknum kvöldverði er ekið með hópinn í bæinn og skilað að Mörkinni 6. Komið til Reykjavíkur um kl. 22.

Verð:  48.000/53.000                
Innifalið: Gisting í 5 nætur,  matur (6 x kvöldverður, 5 x morgunverður, 5 x nesti), allur akstur, silungsveiði í matinn, sund á Hvammstanga.

Með eilífðinni á Arnarvatnsheiði

„Ef til vill má telja til nytja af heiðunum að þar una menn vel, og þangað er gott að fara í fríum og hygg ég að það sé gott við taugaveiklun og kaupstaðarþreytu. Mikill unaður ríkir oft á þessum heiðum, þó landslag sé þar óvíða hrikalegt eins og þekktur maður hefur nýlega bent á í ræðu. Þarna er hægt að hlusta á fuglaklið, og menn geta prikað með önglum út í árnar, ef sveitamenn hafa gefið leyfi sitt til þess og festast þá stundum silungar á önglunum og deyja mönnum til ununar.“

Svona lýsir Þorsteinn Þorsteinsson frá Húsafelli veröld Arnarvatnsheiðar og Tvídægru í árbók Ferðafélags Íslands 1962. Ferðafélag Íslands býður einmitt upp á ferð um þessar dásamlegu heiðar í sumar ef vera kynni að einhver fyndi fyrir „taugaveiklun og kaupstaðarþreytu.“

Ferð þessi ber yfirskriftina: Með eilífðinni á Arnarvatnsheiði og er farin í samvinnu við Arinbjörn Jóhannsson sem rekur víðfræga ferðaþjónustu á bænum Brekkulæk í Miðfirði. Gist er gangnamannaskálum við gjöful veiðivötn og ferðalangar njóta sérstæðrar náttúru heiðanna fáförnu og veiða sér til matar eins og forfeður okkar hafa gert um aldir. Vötnin á Arnarvatnsheiði eru eitt af því sem talið var óteljandi til forna ásamt hólunum í Vatnsdal og eyjunum á Breiðafirði. Má til sanns vegar færa að erfitt sé að ná tölu á vötnin án þess að hafa flugvél til umráða en þau voru ekki bara óteljandi heldur einnig óþrjótandi matarkista fyrir alla sem bjuggu nálægt heiðinni.

Tilhögun ferðarinnar er með hætti að leiðangursmenn safnast í rútu í Mörkinni við hús Ferðafélagsins og aka sem leið liggur í uppsveitir Borgarfjarðar og ekið að Norðlingafljóti með viðkomu í Surtshelli. Þaðan er gengið í náttstað í Álftakróki sem eru um það bil níu kílómetrar.  Daginn eftir er gengið í kofa í Fljótsdrögum og þar verður gist í tvær nætur og á þriðja degi ganga leiðangursmenn lausir um Hallmundarhraun og upp á Jökulstalla utan í Langjökli sem blasir við úr Fljótsdrögum. Eiríksjökull er einnig alltaf nálægur, hvítur og storkandi en göngumenn hafa hann í augsýn allt þar til hallar til byggða í Miðfirði.

Á fjórða degi er gengið úr Fljótsdrögum yfir Langajörfa og Skammá milli Réttarvatns og Arnarvatns og að Lónaborg við Grandalón þar sem gist verður í tvær nætur. Daginn eftir una menn sér í lífríki heiðarinnar við fuglaskoðun, jurtagreiningu og veiðar til matar fyrir hópinn og skal vænta þess að kostuleg silungsveisla fylgi í kjölfarið.

Þegar dvölinni í Lónaborg lýkur er gengið skamman spöl eða fimm kílómetra upp á veg sem liggur úr Miðfirði að Arnarvatni og þar bíður rúta eftir hópnum. Haldið er í sund á Hvammstanga og síðan haldið að Brekkulæk í Miðfirði þar sem vegleg sameiginleg máltíð bíður hópsins en að loknum þeim kvöldverði er ekið til Reykjavíkur og ráðgert að koma þangað um kl. 22.00 um kvöldið.

Fararstjóri í þessari ferð er Sigrún Valbergsdóttir, varaforseti Ferðafélags Íslands. Sigrún er þrautkunnug á þessum slóðum og víðar því hún hefur ferðast áratugum saman um Ísland og er rómuð fyrir skemmtilega stjórn og vel skipulagðar ferðir.

Nánari upplýsingar fást á vefsíðu Ferðafélags Íslands www.fi.is

eða á skrifstofu félagsins í síma 568-2533.