Aukaferð um Jarlhettuslóðir 3. águst

Hálendið - Jarlhettuslóðir - Ferðir FÍ
Ferðir - RSS
Númer:

S-21
Dagsetning: 23.7.2009
Brottfararstaður: Laugarvatn
Viðburður: Hálendið - Jarlhettuslóðir
Erfiðleikastig: Nokkuð langar dagleiðir (yfirleitt 6 – 8 klst.)  oftast gist í húsum en getur þurft að bera tjöld • gengið í fjalllendi • getur þurft að vaða erfiðar ár • þátttakendur þurfa að vera í góðri þjálfunNokkuð langar dagleiðir (yfirleitt 6 – 8 klst.)  oftast gist í húsum en getur þurft að bera tjöld • gengið í fjalllendi • getur þurft að vaða erfiðar ár • þátttakendur þurfa að vera í góðri þjálfunNokkuð langar dagleiðir (yfirleitt 6 – 8 klst.)  oftast gist í húsum en getur þurft að bera tjöld • gengið í fjalllendi • getur þurft að vaða erfiðar ár • þátttakendur þurfa að vera í góðri þjálfun
Lýsing:

 

HÁLENDIÐ
Jarlhettuslóðir
Jarlhettur – Hagavatn – Hlöðuvellir – Skjaldbreiður -  Laugarvatn - Klukkuskarð  4 dagar
3. – 6. ágúst
Fararstjóri: Ólafur Örn Haraldsson

Jarlhetturnar eru tígulegar þar sem þær standa í bláma og ber við hvítan Langjökulinn ofan byggðar Árnessýslu. Að baki þeirra með fram jöklinum er ósnortinn óbyggðadalur með jökullón og  furðumyndanir Jarlhettnanna. Öræfakyrrðin ríkir. Þarna liggur fyrsta dagleið í þessari fjögurra daga ferð þar sem gengið er um óbyggðalandslag jökla, fjalla, sanda og hrauna og að lokum gegnum fáfarið fjallaskarð niður að Laugarvatni. Dagleiðir eru 13-20 km 5-9 klst. á dag.  Gist er í skálum og tjöldum þannig að aðeins þarf að bera dagspoka. Farangur og vistir fluttar á bíl milli áfangastaða. Matur er sameiginlegur en ekki innifalinn í verði. Ef skálar á leiðinni rúma ekki ferðafólkið, gista einhverjir í eigin tjöldum sem flutt verða milli áfangastaða. Þeir sem bóka sig fyrst geta valið hvort þeir gista í skála eða tjöldum.

1. dagur: Ferðafólkið kemur á eigin vegum að Laugarvatni og þar hefst ferðin kl. 9.  Ekið í rútu frá Geysi inn á Bláfellsháls og þaðan inn að jökli í Skálpanesi. Þar hefst gangan sjálf og er gengið með Jarlhettum og milli þeirra og jökuls fram að Hagavatni og skála FÍ við Einifell. Þeir sem vilja geta gengið á Tröllhettu.

2. dagur: Gengið yfir nýja brú FÍ á Farinu, vestur um Lambahraun og sunnan Hlöðufells í skála FÍ og Bláskógabyggðar.

3. dagur: Gengið vestur til Skjaldbreiðar og getur fólk valið hvort það gengur á Skjaldbreið eða fer norðan við Skriðuna beint að skála við Karl og Kerlingu. Þar er gist. Þeir sem vilja geta gengið á Hlöðufell um morguninn.

4. dagur: Gengið suður í Langadal gegnum Klukkuskarð og þaðan niður í Laugardal að Hjálmsstöðum og Laugarvatni.  Hverabrauð grafið upp úr sjóðheitum hverasandi, forréttur úr afurðum sveitarinnar, sund og grillveisla.

Verð: 55.000/60.000
Innifalið: Gisting, trúss, fararstjórn, sund, gestamóttaka að Stöng, Laugarvatni, æskuheimili fararstjóra, matur út heimabyggð. 


Um Jarlhettuslóðir

Jarlhettur er fjallabálkur sem liggur meðfram jaðri Langjökuls frá austri til vesturs. Hvassbrýndar og tignarlegar standa þeir eins og verðir milli byggða og óbyggða og ber í hvítan jökulinn. Þær sjást vítt að og má segja að þær séu óopinbert skjaldarmerki sýslunnar.

Að baki Jarlhettanna leynast gróðurvana eyðidalir, jökullón og undarlegt landslag. Undanfarin ár hefur Ferðafélag Íslands boðið upp á leiðangur um þessar slóðir sem eru á mótum byggðar og óbyggðar og hefur ferðin notið mikilla vinsælda.

Ferðin er í senn áreynsla og munaður því þátttakendur ganga langar leiðir á hverjum degi en allur farangur er fluttur á bílum og slegið upp veislu í hverjum náttstað þar sem áhersla er lögð á þjóðlegan mat úr héraði, kjarngóðan kost sem landið gefur.

Ferðatilhögun er með þeim hætti að þátttakendur koma á eigin vegum að Laugarvatni og þar hefst ferðin kl. 09.00 að morgni og er ekið á vit óbyggðanna inn á Bláfellsháls og alla leið að jökulrönd á Skálpadyngju. Þaðan gengur svo hópurinn meðfram hinum tignarlegum Jarlhettum og milli þeirra og jökulsins og nýtur þeirra forréttinda að fara um land sem flestum er hulið. Þeir sem eru brattgengir í betra lagi fá kost á því að ganga á Tröllhettu sem er stærsti og tígulegasti tindurinn í röðinni. Dagleiðinni lýkur við skála Ferðafélagsins við Einifell rétt við Hagavatn sem Farið fellur úr en í umhverfi skálans sjást stórbrotin merki um landmótun á síðustu áratugum.

Daginn eftir heldur hópurinn áfram vestur yfir Farið yfir nýja göngubrú sem FÍ hefur látið reisa og nú er stefnt vestur hraunin áleiðis að Hlöðufelli um dyngjuna Lambahraun. Á þessum slóðum sést lítt til byggða og landið er gróðursnautt og eyðilegt. Fátt minnir á að rétt sunnan við fjöllin eru blómlegustu og gjöfulustu landbúnaðarsvæði Suðurlands. Um nóttina er gist í skála FÍ á Hlöðuvöllum við rætur Hlöðufells, sem er eitt tignarlegasta stapafjall landsins að Herðubreið frátalinni.

Þriðja daginn heldur hópurinn áfram vestur til Skjaldbreiðar. Hinir vösku í hópnum fá kost á að vakna rótsnemma og ganga á Hlöðufellið. Dagleiðin gæti legið um tind Skjaldbreiðar en líklega ræðst það af veðri. Dagleiðin endar í skála við Karl og Kerlingu.

Á fjórða og síðasta degi heldur hópurinn suður Langadal og gegnum Klukkuskarð og niður í Laugardal að Hjálmsstöðum og Laugarvatni. Hér ná veisluhöld ferðalagsins hámarki sínu þegar menn gæða sér á sjóðheitu hverabrauði með reyktum silungi og fleira góðgæti. Boðið er upp á sundferð og vel þegið þrifabað eftir fjögurra daga göngu í ryki og sólskini með tilheyrandi svita. Þegar sest er að veisluborðum sem svigna undan því besta sem íslensk sveit getur framleitt verður fólki ljóst að á ferðum eins og þessum bindast ferðafélagar böndum sem seint rofna. Böndin myndast ekki aðeins milli manna og kvenna heldur ekki síður milli manns og náttúrunnar og fólk kynnist sjálfu sér enn betur en áður.

Fararstjóri er Ólafur Örn Haraldsson forseti Ferðafélags Íslands og er óhætt að segja að þessar slóðir skipi sérstakan sess í huga hans því Ólafur er alinn upp á Laugarvatni þar sem faðir hans Haraldur Matthíasson ferðagarpur og rithöfundur kenndi við Menntaskólann á Laugarvatni.

 

Nánari upplýsingar fást á vefsíðu Ferðafélags Íslands www.fi.is

eða á skrifstofu félagsins í síma 568-2533