Austurdalur í Skagafirði
24. 26. júlí og 31. júlí 2. ágúst
Fararstjóri er Gísli Rúnar Konráðsson.
Farið frá Bakkaflöt kl. 16:00 á föstudegi og ekið í Grána þar sem gist verður fyrri nóttina, sumir í skála en aðrir í tjöldum.
Á laugardegi er gengið niður í Austurdalinn og gist á Hildarseli.
Á sunnudag er gengið áfram niður dalinn að Skatastöðum þar sem farið er yfir Jökulsá eystri á kláfi og hópurinn sóttur þangað. Þaðan er ekið að Bakkaflöt þar sem ferðinni lýkur, farið í heitu pottana og snæddur kvöldverður.
Í seinni ferðinni verður hópurinn viðstaddur hina árlegu Ábæjarmessu.
Upplýsingar og skráning hjá Gísla Rúnari í síma 893 6634, netfang gislirk@arskoli.is
Hér koma dálitlar upplýsingar um gönguferðirnar niður Austurdalinn.
Þessar ferðir eru fyrir alla sem eru sæmilega á sig komnir, alls ekki bara fyrir vant göngufólk. Yngsti þátttakandinn hingað til er átta ára og sá elsti hátt á áttræðisaldri. Ferðatilhögunin er í aðalatriðum
sem hér segir.
Lagt er af stað frá Bakkaflöt kl. 16:00 á föstudegi og ekið til suðurs, fram gamla Lýtingsstaðahreppinn (inn til landsins hér fyrir norðan) og fram í Vesturdal. Úr Vesturdal er haldið upp á Hofsafrétt og áfram í Laugafell þar sem höfð er stutt viðdvöl. Þaðan er ekið út í Grána við Geldingsá þar sem gist er fyrri nóttina. Ferðin frá Bakkaflöt í Grána tekur um 4 ½ -5 tíma. Í Grána er gas og aðstaða til að hita sér, 9 manns geta gist inni, aðrir sofa í tjöldum. Bíllinn sem ekur okkur í Grána bíður til morguns og tekur tjöld, svefnpoka og annað sem fólk vill losa sig við til baka.
Á laugardag er gengið niður dalinn að sæluhúsinu Hildarseli. Þar er góð aðstaða, svefnpláss fyrir alla og fólk þarf enga svefnpoka því nóg er af teppum. Þessi dagleið er 25 km og þrjár ár (u.þ.b. í hné) sem þarf að vaða eða stökkva. Því er gott að hafa meðferðis létta skó til að vaða í. Einnig er gott að taka með flugnanet. Við förum hægt yfir og gefum okkur góðan tíma höfum verið 10-12 tíma á leiðinni.
Gangan á sunnudeginum er mun styttri, um 10 km og sem fyrr gefum við okkur góðan tíma. M.a. er komið við á tóftum Nýjabæjar þar sem Bólu-Hjálmar bjó og á kirkjustaðnum Ábæ. Ábæjarsókn er öll í eyði en þó er messað þar einu sinni ári, um verslunarmannahelgina, og sækir messuna alltaf fjöldi fólks víðs vegar af landinu. Í gönguferðinni um verslunarmannahelgina verður hópurinn við messuna. Frá Ábæ er haldið áfram út á móts við eyðibýlið Skatastaði og þar er farið yfir Jökulsá eystri á kláfi. Kláfurinn er nýlega uppgerður og fullkomlega öruggur ferðamáti yfir ána. Hér lýkur göngunni, hópurinn sóttur og haldið út í Bakkaflöt. Þar slökum við á í heitu pottunum og borðum síðan kvöldverð.
Það sem þarf að bera með sér er fatnaður og nesti fyrir laugardaginn og fyrri hluta sunnudags. Verðið er 25.000 kr. og innifalið er rúta, gisting og leiðsögn, ásamt heitu pottunum og kvöldmáltíð á Bakkaflöt.
Ef eitthvað er óljóst er sjálfsagt að senda mér póst eða hringja. Netfangið er gislirk@arskoli.is og síminn er 893 6634.
Kveðja,
Gísli Rúnar.