Fjallaverkefni Ferðafélags Íslands hafa verið vinsæl undanfarin ár en áhugi á þeim nú hefur slegið öll fyrri met og varð fullbókað í þau mjög fljótt. Vegna mikillar aðsóknar hefur verið bætt við eftirfarandi verkefni:
Léttfeti II
Í Léttfeta er gengið á eitt fjall í mánuði. Fjöllin sem fyrir valinu verða eru í léttari kantinum. Verkefnið stendur allt árið, frá janúar til desember. Farið er í 10 dagsferðir og eina helgarferð þannig að alls er gengið á að minnsta kosti 12 fjöll. Gengnir verða um 130 km og samanlögð hækkun verður um 5,5 km.
FÍ Léttfeti er hugsað fyrir þá sem vilja koma sér af stað að nýju eftir hlé sem og alla þá sem vilja koma reglulegum, auðveldum fjallgöngum inn í dagatalið sitt.
Nánari upplýsingar og skráning
Fótfrár II
Í Fótfrá er gengið á eitt krefjandi fjall í mánuði.
Verkefnið stendur allt árið, frá janúar til desember. Farið er í 10 dagsferðir og eina helgarferð þannig að alls er gengið á að minnsta kosti 12 fjöll. Gengnir verða um 155 km og samanlögð hækkun verður um 7,5 km.
FÍ Fótfrár er tilvalið verkefni fyrir þá sem hafa einhverja reynslu af fjallgöngum þar sem þessi hópur ræðst til uppgöngu á öllu erfiðari fjöll en FÍ Léttfeti. Þátttakendur þurfa því að vera í nokkuð góðu gönguformi því göngurnar eru heldur hraðari og meira krefjandi en í FÍ Léttfeta.