Bættar samgöngur og lengri áætlunarferðir í Þórsmörk
Reykjavík Excursions / Kynnisferðir í samstarfi við ferðaþjónustuaðila í Þórsmörk, hafa ákveðið að lengja áætlun rútuferða í Þórsmörk nú í ár. Þetta er gert til að mæta aukinni eftirspurn eftir ferðum í Þórsmörk á vorin og haustin og auðvelda ferðamönnum að komast í Mörkina með öruggum hætti.
Áætlunarferðir í Þórsmörk hefjast því 2. maí í vor og reglulegar ferðir verða farnar allt þar til í lok október í haust. Með þessari breytingu er tímabil áætlunarferða í Þórsmörk lengt um einn og hálfan mánuð bæði í vor og haust frá því sem verið hefur.
Farnar verða ferðir einu sinni á dag í maí, fjóra daga vikunnar eða fimmtudaga, föstudaga, laugardaga og sunnudaga samkvæmt áætlun leið 9 sem leggur af stað frá BSÍ kl 9 að morgni dags. Daglegar ferðir hefjast svo 13. júní þar sem farnar verða ferðir tvisvar sinnum á dag milli Húsadals í Þórsmörk og Reykjavíkur og verður sú áætlun í gangi fram til 15. september. Frá 16. september til loka október verður ekið eins og í maí eða fjóra daga vikunnar. Ekið er á milli Húsadals, Langadals og Bása og geta ferðamenn farið úr eða stigið um borð í rúturnar á öllum þessum stöðum og haldið ferð sinni áfram með áætlunarferðinni. Bóka þarf í ferðirnar á vorin og haustin með minnst 12 tíma fyrirvara en hægt er að mæta beint í rúturnar á öðrum tímabilum.
Þessu til viðbótar verður boðið upp á kvöldferðir fjóra daga vikunnar eða þriðjudaga, fimmtudaga, föstudaga og sunnudaga á tímabilinu 13. júní – 31. ágúst í sumar.
Hægt verður að taka rútuna alla leið úr Reykjavík eða stíga um borð á ýmsum stöðum á leiðinni s.s. á Hvolsvelli og við Seljalandsfoss. Nánari upplýsingar um tímaáætlun, verð og miðabókanir er að finna á vefsíðu á vefsíðu Reykjavík Excursions www.re.is.