Hreyfing og góður félagsskapur
Um miðjan maí verða á dagskrá Ferðafélags Íslands svonefnd barnavagnavika. Með þeim er ætlunin að gefa ungu fólki með ungabörn í vagni tækifæri á að sýna sig og sjá aðra í skemmtilegum gönguferðum. Þetta nýmæli í starfinu er hluti af þeirri viðleitni okkar að ná til yngra fólks og fleiri hópa en verið hefur, segir Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ sem verður fararstjóri í gönguferðunum.
Barnavagnagöngurnar er á meðal nýunga í starfi FÍ. Ætlunin sé að kynna þær í fjölmiðlum og á heimasíðu FÍ þegar þar að kemur en hugsunin sé sú að lagt verði upp frá ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu umrædda viku klukkan sex síðdegis og ganga í svo sem hálfa aðra klukkustund. Ætlunin sé að fara um Elliðaárdal, Öskjuhlíð, Heiðmörk, Fossvogsdal og út á Gróttu - eða aðra þá staði sem henta þyki.
,,Ætlunin er síðan sú að stoppa einhversstaðar á miðri leið og taka þægilegar teygjuæfingar. Barnavagnafólkið ætti því með þessu að fá virkilega góða hreyfingu og félagsskap og þá er til mikils unnið. Það eru allir velkomnir og þátttaka er ókeypis.
Nýlega gengu FÍ og Asam- og ofnæmisfélagið frá samkomulagi um gönguferðir og undirbúning fyrir göngu á Hvannadalshnúk. Það er forsmekkinn að víðtækara samstarfi í svipuðum dúr. ,,Við viljum í samstarfi við heilbrigðisþjónustuna og ýmsa hópa bjóða upp á forvarnar- og heilsubótargöngur með fararstjóra- og þjálfara, en fátt er hollara og ódýrara en einmitt góðar gönguferðir, segir Páll Guðmundsson.
Starfsemi FÍ yfir vetrarmánuðina er fjölbreytt og má þar nefna vetrar- og skíðaferðir, jeppaferðir, myndakvöld og námskeið af ýmsu tagi. ,, Við erum að kynna námskeið sem verða hjá okkur í febrúar, mars, apríl og maí og má þar nefna skíðagöngunámskeið, gps námskeið, vaðnámskeið, jöklaöryggisnámkeið, námskeið um ferðamennsku á fjöllum og snjóflóðanámskeið, og erum við með marga af fremstu fjallamönnum landsins sem fyrirlesara eins og t.d. Harald Örn Ólafsson, Jökul Bergmann, Auði Kjartansdóttur, Gílsa Ólaf Pétursson og Sigurð Óla Sigurðsson. Þá erum við að byrja með ný kvöld hjá okkur sem nefnast Fjallakvöld FÍ en það er vettvangur fyrir félagsmenn, ferðafélaga og útivistaráhugamenn til að hittast og skiptast á skoðunum, upplýsingum, t.d. um ferðir, leiðir, búnað og bækur. Þessi Fjallavköld FÍ eru á fimmtudögum kl. 20 einu sinni í mánuði.