25. maí, laugardagur
Fararstjóri: Ragnar Antoniussen. Hámarksfjöldi: 18.
Brottför: Kl. 5 frá Hrollaugsstöðum í Suðursveit.
Birnudalstindur er glæsilegur tindur í Kálfafellsfjöllum í Suðursveit, í sunnanverðum Vatnajökli og rís hæst í 1326 m. Tindurinn sjálfur er rétt sunnan við jökuljaðarinn austan Kálfafellsdals sem hrífur fjallamenn vegna alpalandslags síns. Gönguleiðin er í svipmiklu landslagi og á góðum degi er útsýnið af tindinum mikilfenglegt og ekki leiðinlegt að láta Þverártindsegg og Öræfajökul taka á móti sér þegar komið er á topphrygginn.
Á föstudegi er ekið á einkabílum frá Reykjavík að Hrollaugsstöðum í Suðursveit og gist þar eða í nágrenni á eigin vegum. Gistingu er til dæmis að finna á Hrollaugsstöðum í Suðursveit, ferðaþjónustunni á Brunnavöllum og Hala í Suðursveit.
Fararstjóri mun hitta fjallafólk á Hrollaugsstöðum á föstudagskvöldinu klukkan 21 til að fara yfir það helsta sem viðkemur ferðinni. Æskilegt er að fólk sé komið austur að Hrollaugsstöðum fyrir þann tíma. Gera skal ráð fyrir fjögurra og hálfs tíma akstri frá Reykjavík.
Lagt er af stað í gönguna á laugardagsmorgni klukkan 05 frá vegaslóða við Brunnavelli sem eru við kirkjustaðinn Kálfafellsstað. Gengið er inn Staðardal og svo upp Birnudal. Sama leið er gengin til baka. Þessi gönguleið er í mjög fallegu og svipmiklu landslagi. Gera má ráð fyrir að við verðum komin aftur niður milli klukkan fimm og sjö. Heimferð er svo á sunnudeginum.
Gengið er um brattar brekkur og fannir og ef hart er á er nauðsynlegt að vera með fjallabúnað svo ekki þurfi að snúa við vegna færis. Fólk sér sjálft um að koma með sinn eigin búnað. Ef þörf er á að leigja búnað þá er það hægt hjá: Ferðafélagi Íslands (broddar og gönguaxir), Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum, Fjallakofanum og Íslensku Ölpunum.
Göngulengd er um 22 km og má gera ráð fyrir að fjallaferðin, með slóri og matar-/kaffipásum taki um 12-14 klst.
Undirbúningsfundur: Fimmtudaginn 16. maí kl. 19 í sal FÍ, Mörkinni 6.
Verð: 23.000/26.000.
Ítarefni: Bókin Íslensk fjöll - Gönguleiðir á 151 tind, bls 26.