Borgarganga skýrsla
Sunnudaginn 13. jan. var farin fyrsta ganga ársins í góðu veðri og mættu um 76 göngugarpar í Mörkina. Þaðan var haldið inn eftir Suðurlandsbraut og var gengið um Voga, Heima, Sund, Laugarás og endað í Laugardal. Pétur H. Ármannsson fór fyrir göngunni og fræddi okkur um það sem fyrir augu bar og þá sérstaklega um sögu gamalla húsa sem á vegi okkar urðu. Það kom flestum á óvart að til væru friðuð hús í þessum hverfum.
Fyrst var staldrað við Steinahlíð, sem teiknað var af dönskum arkitekt en fyrri eigendur gáfu Barnavinafélaginu Sumargjöf húsið og er þar nú rekinn leikskóli í fallegu umhverfi. Þaðan lá leiðin að gatnamótum Drekavogar og Efstasunds en þar eru tvö gömul hús. Annað húsið, nr. 99 er frá árinu 1825 og stóð áður í Aðalstræti 6 (á Mbl. lóðinni) og er eitt af elstu húsum í Reykjavík. Það var seinna forskalað og gluggum breytt en nú er verið að færa það í upprunalegt horf og er til mikillar prýði. Á hinu horninu er háreist hús sem áður stóð á horni Laugavegar og Vatnsstígs og var reist árið 1901. Í því var verslun Kristjáns Siggeirssonar og má enn sjá merki um að það hafi staðið á horni. Húsið sem einnig var forskalað var flutt hingað árið 1953.
Síðan lá leiðin um Sólheima og þar benti Pétur okkur á hús nr 5 sem er friðað hús frá 7. ártugnum og dæmi um fallegan byggingastíl þess tíma. Síðan var stöðvað við hús Gunnars Gunnarssonar skálds við Dyngjuveg og kom á óvart hve lóðin er stór sem húsinu fylgir og fengið hefur að vera í friði. Þá lá leiðin um Brúnaveg og að húsi nr 8 en það stóð áður við Pósthússtræti 11 (þar sem nú er Hótel Borg) og dregur sú gata nafn sitt af þessu húsi því í því fór fram póstafgreiðsla um tíma. Byggt hefur verið smekklega við húsið og er þar nú rekin gistiþjónusta undir nafninu Gamla Pósthúsið.