Borgarganga - ferðalýsing

Borgarganga – skýrsla

Sunnudaginn 13. jan. var farin fyrsta ganga ársins í góðu veðri og mættu um 76 göngugarpar í Mörkina.  Þaðan var haldið inn eftir Suðurlandsbraut og var gengið um Voga, Heima, Sund, Laugarás og endað í Laugardal.  Pétur H. Ármannsson fór fyrir göngunni og fræddi okkur um það sem fyrir augu bar og þá sérstaklega um sögu gamalla húsa sem á vegi okkar urðu.  Það kom flestum á óvart að til væru friðuð hús í þessum hverfum.

Fyrst var staldrað við Steinahlíð, sem teiknað var af dönskum arkitekt en fyrri eigendur gáfu Barnavinafélaginu Sumargjöf húsið og er þar nú rekinn leikskóli í fallegu umhverfi. Þaðan lá leiðin að gatnamótum Drekavogar og Efstasunds en þar eru tvö gömul hús.  Annað húsið, nr. 99  er frá árinu 1825 og stóð áður  í Aðalstræti 6 (á Mbl. lóðinni) og er eitt af elstu húsum í Reykjavík. Það var seinna forskalað og gluggum breytt en nú er verið að færa það í upprunalegt horf og er til mikillar prýði. Á hinu horninu er háreist hús sem áður stóð á  horni Laugavegar og Vatnsstígs og var reist árið 1901.  Í því var verslun Kristjáns Siggeirssonar og má enn sjá merki um að það hafi staðið á horni. Húsið sem einnig var forskalað var flutt hingað árið 1953.

Síðan lá leiðin um Sólheima og þar benti Pétur okkur á hús nr 5 sem er friðað hús frá 7. ártugnum og dæmi um fallegan byggingastíl þess tíma. Síðan var stöðvað við hús Gunnars Gunnarssonar skálds við Dyngjuveg og kom á óvart hve lóðin er stór sem húsinu fylgir og fengið hefur að vera í friði.  Þá lá leiðin um Brúnaveg og að húsi nr 8 en það stóð áður við Pósthússtræti 11 (þar sem nú er Hótel Borg) og dregur sú gata nafn sitt af þessu húsi því í því fór fram póstafgreiðsla um tíma. Byggt hefur verið smekklega við húsið og er þar nú rekin gistiþjónusta undir nafninu Gamla Pósthúsið.

 Göngunni lauk svo um kl 12:30 í Laugardalnum við húsið Laugabrekku en þar bjuggu áður listamennirnir Jón Björnsson og kona hans Greta en þau unnu við það um árabil að mála kirkjur landsins með skrautmálun. Þetta lágreista, snotra hús nú notað fyrir starfsmenn Grasagarðsins.  Pétri var þakkað fyrir frábæra leiðsögn og sögur af húsum og mannlífi á þessum slóðum.

 Margir fengu sér að lokum kaffi í Glæsibæ og ræddu næstu gönguferðir !!