Borgfirsku alpanir

Borgfirsku alparnir

Ferðafélag Íslands hefur alltaf kappkostað að bjóða almenningi upp á ferðir um Ísland og þá ekki síður um þá hluta sem eru síður þekktir en hinar allra vinsælustu ferðamannaslóðir.

Um miðjan ágúst í sumar verður boðið upp á gönguferð sem ber yfirskriftina: Borgfirsku alparnir: Háleiksvatn og Grjótárvatn. Þar verður gengið um fáfarnar slóðir í tígulegum fjöllum milli Langavatns og Hítardals í fjöllunum milli Borgarfjarðar og Snæfellsness.

Langavatn og Langavatnsdalur eru heillandi svæði sem leynist inni í fjöllunum og margir hafa lagt leið sína þangað. En þarna eru fleiri leyndarmál sem verða könnuð nánar í þessari ferð.

Farið er með rútu frá Reykjavík úr Mörkinni við hús Ferðafélagsins klukkan átta að morgni og ekið vestur á Mýrar. Við Langá á Mýrum er beygt af þjóðvegi og ekið upp með ánni og síðan fyrir vestan Grímsstaðamúla áleiðis fram að Langavatni allt þar til komið er í Kvígindisdal sem er vestan við vatnið. Ferðalangar leggja síðan á fjall og ganga upp úr Kvígindisdal upp á Geldingafjöll en af þeim er stórkostlegt útsýni yfir Langavatn og fjöllin umhverfis Langavatnsdal en einnig opnast útsýn til vesturs yfir dali og vötn sem leynast þarna inni í fjöllunum. Þarna leynist Háleiksvatn girt bröttum fjöllum en sunnan við það er Grjótárdalur og Grjótárvatn í miðjum dalnum. Leiðangurinn heldur nú niður að Grjótárvatni og rétt að hafa augun hjá sér ef skrímsli skyldu vera á ferð. Í ævisögu séra Árna Þórarinssonar er sagt frá smalamanni á Grjótárdal sem sá ekki bara eitt skrímsli heldur nokkur saman sem lágu og sóluðu sig í hlíðinni við Grjótárdalsvatn. Taldi hann að þau ættu heima í vatninu en margar skrímslasögur eru til af vötnum á Snæfellsnesi og er Baulárvallavatn sennilega þeirra frægast.

Grjótárdalur er grösugur og fagur og gengið verður niður eftir dalnum til suðurs og þarf að vaða ána sem fellur úr vatninu. Sunnan dalsins tekur Staðarhraun við og við jaðar þess stendur samnefndur kirkjustaður þar sem Hítardalur opnast til norðurs og Fagraskógarfjall rís tignarlega yfir umhverfið.

Fararstjóri í þessum leiðangri verður Sigurður Kristjánsson sem er meðal reyndustu fararstjóra félagsins. Alls er gengið í 14-15 kílómetra og hækkun á leiðinni er um 300 metrar og gera verður ráð fyrir að vera á göngu í að minnsta kosti sex tíma.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu félagsins www.fi.is

eða á skrifstofu Ferðafélagsins í síma 568-2533