Breiðafjarðarferðin slær í gegn

Óhætt er að fullyrða að  ný FÍ ferð um héruð fyrir botni Breiðafjarðar hafi slegið í gegn ef marka má þátttökuaukningu frá þvi í fyrra. Um er að ræða ferð þar sem ferðast er á reiðhjóli, kajak, hestum og tveim jafnfljótum. Til marks um velgengnina ná nefna að í fyrra voru þátttakendur heldur fáir,  eða 13 manns í þeim tveim ferðum sem boðið var upp á - en nú hafa um 40  manns skráð sig.

 Ferðin er skipulögð sem trússferð með uppihaldi í fjóra daga og er lagt af stað frá Laugum í Hvammsveit. Farið er yfir á Skarðsströnd, um Klofning, Fellsströnd og Hvammsveit og aftur að Laugum.  Gist er í 8-10 manna tjöldum með kyndingu.

 Fararstjórar eru hjónin Jón Jóel Einarsson og Maggý Magnúsdóttir.

 “Þessi ferð hefur sýnilega  spurst vel út þegar haft er í huga að við fararstjórarnir höfum ekki haft nein sérstök tækifæri til að kynna hana að gagni," bendir Jón Jóel á. "Við erum með heimasíðu fyrir ferðina og hún hefur verið mikið heimsótt. Nú er svo komið að það hefur bókast feykilega vel í ferðir sumarsins og við hlökkum til að leggja af stað að nýju."

 Að mati Jóns Jóels er aðall ferðarinnar hið veigamikla hlutverk heimamanna á svæðinu sem taka á móti ferðafólkinu og tengja það við menningu og sögu, ásamt því að veita í mat og drykk. "Það er einmitt þetta sem vekur tvímælalaust langmestan áhuga fólks, þ.e. að heimsækja íbúa á svæðinu auk þes að skoða náttúruna," segir hann.

 Auk fallegrar náttúru og fjölskrúðugs dýralífs, þar sem sjá má haferni og seli, er svæðið ríkt af sögu og má nefna að þar er sögusvið glæsilegustu bókmenntaverka þjóðarinnar á borð við Laxdælu og Sturlungu að hluta. 

"Flestir vita að þessar fornbókmenntir tengjast svæðinu órofa böndum, en færri vita kannski að saga nútímabókmennta á hér líka rætur í skáldum á borð við Sigfús Daðason, Stein Steinarr, Stefán frá Hvítadal og Jóhennes úr Kötlum," segir Jón Jóel. "Ekki má heldur gleyma 19. aldar rithöfundinum Jóni Thoroddsen sem ólst upp í Sælingsdalstungu. Meðal hans þekktustu verka er skáldsagan Maður og kona, en sögusvið þeirrar bókar á ferðaslóðum okkar,”bendir Jón Jóel á.

“Við reynum að gera þessum menningarþáttum góð skil. Við beinum athyglinni líka að erlendum mönnum sem mörkuðu ákveðin spor í menningarsögu okkar. Ég nefni merkilegan 19. aldar mann, William Collingwood að nafni, sem kom til Íslands í pílagrímsför og heimsótti fornar söguslóðir. Eftir hann liggja einstakar vatnslitamyndir af mörgum þeirra staða sem hann heimsótti og við gerum ferðasögu hans nokkur skil í ferðinni," segir Jón Jóel.

"Það mætti nefna margt fleira. Í raun er allt menningarlífið afar áhugavert hér á svæðinu, á eyjum, ströndum og nesjum. Bókmenntajöfurinn Jón Þorláksson á Bægisá bjó og starfaði hér á sinni tíð. Hér var menningarsamfélag sem  kom á fót Hrappseyjarprentsmiðjum, setti af stað íslenska blaðaútgáfu og fóstruðu stórhuga hugmyndir um nýsköpun í landbúnaði, svo fátt eitt sé nefnt."

 Ljóst er af þessu að ferðin býður upp á magnað menningarferðalag aftur í aldir í bland við útiveru og hæfilega áreynslu. "Það var mikil ánægja með ferðina í fyrra. Hjólahlutinn var mjög vel heppnaður og er stór hluti ferðarinnar, enda henta hjólin mjög vel í þessu umhverfi. Við buðum líka upp á róður á kajak, en það bera að hafa í huga að sá hluti getur verið krefjandi og ekki ráðlagður fyrir byrjendur. Af göngu-, hjóla- og reiðleiðum er hinsvegar nóg að taka þann daginn og er spilað á það eftir veðri og áhuga innan hópsins hverju sinni,” segir Jón Jóel.

Ferðafélag Íslands skráir í ferðina 4. - 7. júlí. Sjá einnig heimasíðu ferðarinnar: www.123.is/jojo.