Brynjudalur 12. september

Þórisgil í Brynjudal-Glymur í Botnsdal

12 september 

Brynjudalur er afar fallegur og gróðursæll, umgyrtur háum fjöllum á báða vegu. Norðan dals heitir Múlafjall en sunnan Bolafell og Suðurfjall og Þrándarstaðafjall vestast. Brynjudalur státar af  ótal giljum, flúðum og fossum sem vert er að gefa gaum. Eftir dalnum miðjum rennur Brynjudalsá sem á upptök sín í Sandvatni austan Djúpadalsborga. Innst í dalbotninum heita Þrengsli. Fyrrum var búið á fjórum bæjum í Brynjudal, Skorhaga, Þrándarstöðum, Ingunnarstöðum og  Hrísakoti. Allir eru þeir nú í eyði.

Við hefjum gönguna þar sem bílvegurinn endar rétt innan við Hrísakot og göngum inn dalinn með Brynjudalsána á hægri hönd. Slóðin er nokkuð greinileg fjárgata. Svæðið er allt sérlega vinalegt og hýlegt meðfram Brynjudalsánni, kristaltærri, víða með flúðum og smáfossum. Þarna er virkilega hægt að gleyma stund og stað. Rómantískara verður það ekki. Inn með ánni er haldið þar til komið er á móts við Þórisgil. Vestan þess höldum við á brattan. Á kafla er talsvert bratt og því er ástæða til að hvetja fólk til að fara varlega. Gilið er ægifagurt, einn undraheimur, víða með stuðlabergsmyndunum. Ofan gils er komið upp á Sandhrygg. Þaðan göngum við niður í Botnsdal, reynum að vaða Hvalskarðsána komast upp með Glymsgili og að þeim stað sem Glymur sést allur. Gangan endar síðan við Stóra-Botn.

Fararstjóri í ferðinni er Leifur Þorsteinsson