Búið að opna Laugaveginn

Vegurinn upp í Landmannalaugar var opnaður í gær og búið er að opna alla skála á Laugaveginum.

Vegagerðin hefur nú rutt í gegnum síðustu snjóhöftin á veginum frá Sigöldu og upp í Landmannalaugar og þar er nú fært fyrir fjórhjóladrifna bíla. Vegurinn um Dómadal, þ.e. frá Heklu og í Landmannalaugar er hins vegar ennþá lokaður fyrir umferð.

Laugar_vegur.jpg Laugarvegur.jpg
Vegurinn inn í Landmannalaugar

Snjó hefur tekið hratt upp á Landmannalaugasvæðinu að undanförnu og nú er svo komið að lítill snjór er eftir á sjálfri gönguleiðinni upp í Hrafntinnusker. Uppi í Hrafntinnuskeri situr þó ennþá snjór í giljum eins og vanalega á þessum árstíma.

Almennt má hins vegar segja að snjóa hafi leyst um það bil einum og hálfum mánuði fyrr nú á þessu ár miðað við síðasta ár. Skálaverðir eru nú komnir í alla skála á Laugaveginum og búið er að þrífa þá og opna fyrir sumarið enda eru göngumenn þegar byrjaðir að streyma á svæðið.

Gert er ráð fyrir að vegirnir um Sprengisand og Kjöl verði opnaðir í næstu viku og þá verður hægt að opna skálana í Nýjadal, Hvítárnesi, Þverbrekknamúla og Þjófadölum.