Ferðafélag Íslands býður upp á dagsferðir í Þórsmörk alla páskana, rútuferðir með fararstjórum. Lagt er af stað frá Mörkinni 6 kl. 9 alla daga, skírdag, föstudaginn langa, laugardag, páskadag og annan í páskum.
Ãegar er fullbókað í ferð á skírdag og hratt bókast í ferðir aðra daga. Fyrstir koma, fyrstir fá.
Ekið er í Skagfjörðsskála í Langadal í Þórsmörk. Boðið er upp á gönguferðir með leiðsögn bæði á Valahnúk og upp á Morinsheiði að gosstöðvunum.
Gönguferð á Valahnúk tekur innan við klukkustund. Þaðan er gott útsýni yfir Þórsmörk og bein sjónlína að gosstöðvunumum 6 km. Gönguferð um Morinsheiði, upp Bröttufönn að gosstöðvunum tekur um 6 klst. . og er um allbratt land á köflum að fara. Vegalengdin er 10 km. fram og til baka og hækkun nemur 800-900 metrum.
Nauðsynlegt er að vera vel búinn í ferðinni, með góðan hlífðarfatnað, góða gönguskó og nesti. Frost getur náð 15-18 stigum efst á fjallinu.
Brottför úr Þórsmörk er kl. 10 um kvöldið svo fólk geti séð eldgosið í myrkri og því nauðsynlegt að hafa nægt nesti til heils dags.
Verð í ferðina er kr. 10.000 / 12.000. Frítt fyrir börn og unglinga yngri en 16 ára. Skráning og greiðsla á skrifstofu FÍ.
Nauðsynlegur búnaður:
góður göngufatnaður
ullarnærföt
undirpeysa
flíspeysa
vindbuxur og vindjakki
húfa,( lambhúshetta)
vettlingar
skíðagleraugu / sólgleraugu, sólarvörn, góðir gönguskór,( gott að hafa legghlífar)
göngustafir. Spáð er norðanátt fyrir alla páskana og frost getur náð 15-18 stigum efst á gönguleiðinni. Þar munu menn halda kyrru fyrir um stund og kuldinn bítur fast. Þess vegna er meira af fötum betra en minna og sérstaklega þarf að huga að húfum og vettlingum.
Mikilvægt er að er hafa gott nesti með í bakpokanum.
Heitt á brúsa, samlokur eða flatkökur, kexpakka eða súkkulaðstykki og jafnvel eitthvað að maula, rúsinur, hnetur o.svf.rv.
Vatn ca. 1. ltr.
Rétt er að hafa í huga að dvalist er í Þórsmörk fram til kl. 10.00 og þarf að vera með nesti í samræmi við það.
Sé gengið upp fyrir Heljarkamb og upp á Bröttufönn er þetta útsýnið sem blasir við göngumönnum. Á myndinni eru fararstjórar FÍ þau Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir í könnunarleiðangri úr Þórsmörk.