Dalla og Matti verkefnisstjórar FB

Matthías Sigurðarson og Dalla Ólafsdóttir eru nýir umsjónarmenn Ferðafélags barnanna.
Matthías Sigurðarson og Dalla Ólafsdóttir eru nýir umsjónarmenn Ferðafélags barnanna.

Dagskrá Ferðafélags barnanna fyrir árið 2018 er komin út og þar er að finna 25 fjölbreyttar og forvitnilegar ferðir fyrir börn og foreldra þeirra. Allar eru ferðirnar farnar á forsendum barna og sniðnar að þörfum þeirra. 

Dalla Ólafsdóttir og Matthías Sigurðarson eru nýir umsjónarmenn Ferðafélags barnanna og eru boðin velkomin til starfa. Um leið er Brynhildi Ólafsdóttur og Róberti Marshall sem leitt hafa starf Ferðafélags barnanna undanfarin ár þakkað fyrir frábært starf en þau starfa áfram á vettvangi FÍ í fjölbreyttum verkefnum. 

Á dagskrá ársins hjá Ferðafélagi barnanna eru nokkrar vinsælar ferðir frá fyrri árum – og nýjungar í bland: „Að venju verður boðið upp Laugavegsgöngur, draugaferð á Kili, víkingaferð á Valgeirsstöðum í Norðurfirði og vetrarferð með jólaþema í Þórsmörk. Nú verður í fyrsta sinn boðið upp á eldfjalla- og fossagöngu yfir Fimmvörðuháls, í ferð sem er skipulögð með börn og unglinga í huga. Á leiðinni upp á Fimmvörðuháls er gengið upp óteljandi tröppur meðfram Skógafossi og síðan gengið framhjá fjölmörgum fossum þar til gist verður í Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi. Á síðari göngudegi skoðum við ein yngstu eldfjöll Íslands, Magna og Móða,  við söfnum hugrekki til að fara yfir Heljarkamb og göngum svo í Þórsmörk þar sem við hvílum lúin bein á kvöldvöku í Skagfjörðsskála í Langadal. Farangur og matur verður trússaður á milli skála og áhersla lögð á skemmtilegar samverustundir á kvöldin,“ segir Dalla Ólafsdóttir.

Fjallagarpaverkefni fjölskyldunnar er nýtt verkefni sem Ferðafélag barnanna býður duglegum fjallagörpum að taka þátt í. „Við ætlum að ganga á sex skemmtileg og ævintýraleg fjöll sem við höfum flest séð en kannski aldrei þorað að ganga á; Esjuna, Úlfarsfell, Helgafell í Hafnarfirði, Mosfell, Móskarðshnúka og Þorbjörn. Við erum svo heppin að John Snorri Sigurjónsson og Vilborg Arna Gissurardóttir fjallagarpar með meiru ætla að ganga með okkur á nokkur fjallanna. Þeir garpar sem ganga á öll fjöllin sex fá síðan titilinn Fjallagarpur Ferðafélags barnanna og sérstakt viðurkenningarskjal til vitnis um það. Við ætlum að ganga á lítil og stærri fjöll, kanna hvort við rekumst á álfa eða tröll og prófa að drekka ískalt vatn beint úr fjallalækjum. Fjallgöngurnar eru fyrir duglega krakka á öllum aldri sem langar að ganga hærra en skýin og standa á toppi tilverunnar! Það má koma í eina fjallgöngu en einnig  er hægt að mæta í allar og verða Fjallagarpur,“ segir Dalla.

alltaf gaman hjá Ferðafélagi barnanna

Að venju munu Ferðafélag barnanna og Háskóli Íslands eiga í samstarfi sem er hluti af verkefninu Með fróðleik í fararnesti. Má þar nefna vinsælar ferðir á borð við stjörnu- og norðurljósaskoðun með Sævari Helga Bragasyni, kræklingaferð í Hvalfjörð og pödduskoðun í Elliðaárdal.

Höfuðmarkmið Ferðafélags barnanna, sem var stofnað árið 2009, er að hvetja börn og foreldra til útiveru og samveru í náttúru landsins og fá þannig öll börn til að upplifa leyndardóma umhverfisins og sanna gleði í náttúrunni. 

Ferðafélag barnanna er hugsað fyrir félagsmenn Ferðafélags Íslands. Fjölmargar ferðir FB eru ókeypis og allir sem vilja taka þátt í ferðunum þurfa að ganga í Ferðafélag Íslands. Einstaka verkefni, t.d. Með fróðleik í fararnesti er öllum opið og verður þátttakendum vonandi hvatning til að ganga í Ferðafélag Íslands. 

Dagskrá Ferðafélags barnanna