Dirrindí og blautar tær

Lóur, kríur, álftir, margæsir og æðarfuglar voru meðal þeirra fugla sem 120 manna hópur barna og foreldra skoðaði í fuglaskoðunarferð Ferðafélags barnanna á Uppstigningardag. Ferðinni var heitið að Kasthúsatjörn á Álftanesi sem er friðlýst vegna fjölskrúðugs fuglalífs og lífríkis. Þaðan var gengið í fjöruna við Hrakhólma sem er einnig friðlýstur hluti sama fólkvangs og tjörnin.

IMG_6454

IMG_6435

Auk þess að kíkja eftir fuglum, lærðu þátttakendur að herma eftir nokkrum fuglum og syngja ,,Lóan er komin“. Í fjörunni var svo hægt að sleppa ímyndunaraflinu lausu í ljósum sandinum, búa til sandkastala, safna skeljum og kanna hvort að sjórinn væri blautur!

IMG_6437

Tveimur nafnlausum vísum var skilað inn til fararstjóranna:

Lóan mín og lóan þín
Lóan okkar allra
Hún er sæt og hún er fín
Fyrir konur og líka kalla

Í fjörunni er gaman
Þar leika allir saman
Þar er fullt af sandi
Og góður andi

Hér er hægt að skoða fleiri myndir úr ferðinni.