Skíðaferð yfir Drangajökul um Hvítasunnuhelgina 26. 28. maí
Nokkur sæti laus í skíðaferð yfir Drangajökul um Hvítasunnuna. Þátttakendur koma á eigin bílum að Dalbæ við Unaðsdal á föstudagskvöld þar sem gist er fyrstu nóttina. Að morgni laugardags er lagt af stað yfir Drangajökul og gengið yfir í Reykjafjörð þar sem gist verður í tvær nætur. Aðeins er gengið með dagpoka, vistir fluttar sjóleiðina í Reykjafjörð. Þátttakendum stendur til boða að sigla til baka undir björg. Þeir sem ganga verða sóttir í Hrafnfjörð. Snjóalög er góð og betri en útlit var fyrir. Í Reykjafirði er farið í dagsgöngur meðal annars á Geirólfsnúp og yfir í Skjaldbjarnarvík. Á þriðja degi er gengið yfir í Hrafnfjörð. Sérstakt kynningarverð er á þessari ferð, kr. 18.000 / 20.000, innifalið gisting, kvöldverðir, sundlaug, sigling og fararstjórn. Þegar eru 10 manns skráðir þannig að ferðin verður örugglega farin.
Í dag 17. maí 2007 er vetrartíð á Drangajökli. Á hájökli er mikill nýfallinn snjór og eru horfur á að heldur bæti á næstu daga. Maí hefur verið kaldur og því er óvenjumikill snjór á leiðinni ef miðað er við síðustu ár.
Fyrri dagleiðin er merkt með rauðum stöfum á kortið og sú síðari með bláu.
Nú tel ég rétt að stefna á Hálsbunguna vestan við Reykjarfjörð og losna við að vaða Reykjarfjarðarós og einnig að eiga þess kost að geyma skíðin undir Hálsbungunni. Þaðan er snjólaust heim í hús í Reykjarfirði.
Sú leið sem við fyrirhugum að fara nú á heimleiðinni í Hrafnfjörð er skemmtileg ef útsýni verður gott og hún er snjóöruggari. Að vísu fer hún upp í 800 m ef farið er upp á jökulbunguna ofan Leyrufjarðar en hægt er að fara um 100 m neðar og sleppa bungunni. Nokkuð bratt er niður í Vestari Jökladal en hann er víður og lítið mál að sniðskera brekkuna. Þetta er sú leið sem menn á snjósleðum og bílum hafa farið norður af Drangajökli. Allar líkur eru á því að snjór verði niður að sjó í Hrafnfirði en Reykjarfjarðarmegin er snjólaust á láglendi.
Því er nú gert ráð fyrir að taka land á Hálsbungu þegar komið er úr Kaldalóni og geyma skíðin undir bungunni ( 3 ) og losna við að bera skíðin þaðan og niður í Reykjarfjörð og til baka. Kosturinn við að fara aftur upp á jökul í leið til Hrafnfjarðar er sá að ekki þarf þá að vaða Þaralátursós og lækka sig niður að sjó til að fara upp í Svartaskarð sem við áætluðum fyrst að fara. Svartaskarð er í um 400 m hæð og bratt er upp ur Þaralátursfirði og niður úr skarðinu niður á fyrsta hjallan Furufjarðarmegin. Sú leið er nú að stórum hluta snjólaus og því þarf að bera skíðin líklega hálfa leiðina.
Með skíðakveðju
Þröstur