Eðlislægt að hreyfa mig

Sigrún Sæmundsen fararstjóri og umsjónarkona með FÍ fyrsta skrefinu
Sigrún Sæmundsen fararstjóri og umsjónarkona með FÍ fyrsta skrefinu

 

Sigrún Sæmundsen fararstjóri:

„Mér er mjög eðlislægt að hreyfa mig”

„Áhugi minn á fjallgöngum hófst þegar ég starfaði í Bláa lóninu. Þar var haldið úti gönguhópi sem samstarfsmaður minn, Ólafur Sveinsson, stýrði. Þetta byrjaði árið 2016 þegar ég ákvað að taka þátt. Þar með fékk ég bakteríuna,” segir Sigrún Sæmundsen, annar umsjónarmanna Fyrsta skrefsins hjá Ferðafélagi Íslands. Sigrún, sem er rúmlega þrítug, er fararstjóri hópsins ásamt Ólafi Sveinssyni sem fylgt hefur verkefninu frá stofnun þess.

Sigrún er menntuð sem grafískur hönnuður og starfaði í markaðsdeild Bláa lónsins. En hugur hennar leitaði út af skrifstofunni; óbyggðirnar kölluðu. Hún venti því kvæði sínu í kross, hætti í Bláa lóninu, hóf að starfa við útivist auk þess að vinna sjálfstætt við fag sitt.

„Ég stend á tímamótum og er að breyta til. Hluti af því er að starfa fyrir Ferðafélagið. En ég starfa líka sjálfstætt og tek að mér verkefni sem verktaki”.

Sigrún hefur frá barnsaldri stundað íþróttir.  

„Mér er mjög eðlislægt að hreyfa mig og ég hef alltaf haft áhuga á íþróttum. Ég hef líka lengi haft áhuga á fjallgöngum en sinnt þeim lítið nema þá ein og sér. Eftir göngurnar með Óla ákvað ég að skrá mig í gönguleiðsögn í Leiðsöguskólanum sem er hýstur í Menntaskólanum í Kópavogi og útskrifaðist vorið 2018. Þetta var mjög skemmtilegt nám, bæði bóklegt og verklegt. Þarna lærðum við að þvera vatnsmiklar ár og bjarga fólki upp úr jökulsprungum svo eitthvað sé nefnt. Þegar mér bauðst að vera með gönguhópinn Fyrsta skrefið hjá Ferðafélagi Íslands þá sá ég tækifæri til þess að stunda göngurnar skipulega og sækja mér þjálfun í fararstjórn”.  

 

Verkefnið Fyrsta skrefið hófst í byrjun janúar og stendur fram á vor þegar haldið verður á Snæfellsjökul með hópinn. Sigrún segist njóta nýja starfsins.

„Þetta er bæði skemmtilegt og gefandi. Ég fer í tvær göngur í viku. Reglan er sú að við umsjónarmennirnir förum og könnum gönguleiðina áður en farið er með hópinn. Þetta hefur reynst nauðsynlegt í því fannfergi sem verið hefur á fjöllum undanfarið. Við höfum þurft að breyta ferðaplani vetrarins og víxla ferðum í samræmi við snjóalögin,” segir Sigrún.

Eitt helsta áhugamál Sigrúnar er hestamennska. Hún og faðir hennar eiga saman hesta. Á sumrin fer hún í hestaferðir og nýtur þess í hvívetna.

„Ég hef farið víða um landið á hestbaki í góðra vina hópi. Meðal annars hef ég þverað landið frá norðri til suðurs yfir Kjöl. Sú ferð var eftirminnileg. Þá hef ég riðið Sprengisand og við Mýrdalsjökul og að Heklu. Hestamennskan hefur gefið mér mikið”.

 

Ásókn í gönguhópa Ferðafélags Íslands er gríðarleg í ár. Fólk hefur orðið þess vart að mikil bylgja áhuga hefur risið. Þannig hefur verið troðfullt hús á kynningum gönguhópanna.

„Við vorum mjög hissa þegar það kom á daginn að það komu yfir 200 manns á kynninguna. Margir þurftu að standa þar sem ekki voru sæti fyrir allan fjöldann. Mér brá hálfpartinn þar sem við höfðum ekki átt von á svo mörgum og hugsaði með mér hvort ég væri að fara með allan þennan hóp. Niðurstaðan varð sú að við fylltum hópinn upp að því hámarki sem hafði verið ákveðið”.

Sigrún segir mest um vert fyrir fararstjóra að hafa öryggismálin í fyrirrúmi, halda hópnum saman, og gæta þess að allir komist á leiðarenda.

„Við vöndum leiðaval og gætum þess að vera á gönguhraða sem hentar sem flestum”.

Sigrún ætlar að halda áfram á þeirri braut að vera fararstjóri og stunda fjallamennsku.

„Ég er búin með þennan pakka að vera inni á skrifstofu. Eftir 10 ár verð ég vonandi uppi á einhverju flottu fjalli á Nýja-Sjálandi á þyrlunni minni að njóta lífsins

 

Myndatexti: Sigrún Sæmundsen í Heiðmörk.