Sigrún Valbergsdóttir, varaforseti Ferðafélags Íslands, hefur átt samleið með félaginu í tæpa kvartöld eða allt frá því að hún lagði í nokkurra daga göngu á Hornstrandir ásamt eiginmanni sínum Gísla Má Gíslasyni. Sú ferð átti eftir að leiða hana á nýjar slóðir og það ekki einungis í leik heldur einnig starfi.
„Ég man það mjög vel. Það var árið 1993 sem við Gísli fórum í okkar fyrstu ferð með félaginu. Þá höfðum við einungis reynslu af dagsgöngum og aldrei farið í langa göngu með allt á bakinu. Við vorum bæði komin með blæðandi hælsæri á báðar fætur á fyrsta degi og áttum erfitt með dagana þar á eftir. Samt sem áður komumst við frá Hesteyri yfir í Hlöðuvík og þaðan upp á Hornbjarg. Þrátt fyrir að vera með ígerð í hælunum var gangan svo skemmtileg að við bókuðum okkur í aðra ferð með félaginu áður en við vorum komin heim,“ segir hún og skellir upp úr. „Þetta var ákveðin eldskírn en mjög góð eldskírn.“
Þau hjónin hafa farið árlega á Hornstrandir upp frá þessu og það oftast með fararstjóranum sem leiddi gönguna eftirminnilegu en sá hafði þann háttinn á að fara aldrei sömu leið tvisvar. Sigrún hefur því farið ofan í alla firði og öll skörð og þekkir svæðið eins og lófann á sér. „Það var Guðmundur heitinn Hallvarðsson sem var fararstjóri og teymdi okkur um allar Hornstrandir. Hann gekk fremstur í flokki með gítarinn á bakinu og öll sín skemmtilegheit. Hann var svo sniðugur. Hann lét okkur axla svolitla ábyrgð sjálf og við fengum hin ýmsu hlutverk eins og að búa til matarnefndir og sjá um að elda. Þetta varð til þess að undan hans rifjum runnu seinna ábyggilega 15 fararstjórar á Hornströndum, þar á meðal ég.“
Sigrún byrjaði að vinna sem fararstjóri þremur árum eftir fyrstu gönguna og fór þá aðallega með þýska ferðamenn um landið. Upp úr aldamótum tók hún að sér formennsku í ferðanefnd félagsins og hefur síðan þá leitt mýmargar göngur um allt land sem og erlendis. Mikil vinna hefur legið að baki hverri göngu en sumar krefjast þó eilítið meiri undirbúnings en aðrar og má þar nefna hinar vinsælu sögugöngur sem Sigrún hefur leitt í 13 ár.
„Magnús Jónsson sagnaþulur ákveður hvaða Íslendingasaga það er sem við tökum fyrir og ég bý síðan til gönguleiðirnar út frá henni. Ég kynni mér söguna vel og pæli í staðháttum og svo þarf auðvitað að finna samastað fyrir þátttakendur sem yfirleitt eru um 40. Þetta er stór hópur og fyrir minna en fjóra daga er ekki farið af stað.“ Söguferðirnar eru farnar á hverju vori og alltaf fara Sigrún og Magnús á nýja staði með nýja sögu í farteskinu. Hún hefur til að mynda tekið fyrir Njálssögu í Fljótshlíðinni, Laxdælu í Sælingsdal, Grettissögu á Brekkulæk í Miðfirði og Vatnsdælu á Hofi í Vatnsdal svo eitthvað sé nefnt. „Það hefur eiginlega sami kjarninn komið í öll þessi ár. Þeir sem byrjuðu í þessum göngum sem fólk á miðjum aldri eru orðnir stoltir eldri borgarar núna og eru alveg jafn duglegir að ganga. Ferðirnar eru sniðnar fyrir þetta fólk sem vill ganga, fræðast og setja sig í spor sögupersónanna og horfa á söguna út frá þeim stöðum þar sem merkir atburðir áttu sér stað. Það er mikil gleði í þessum ferðum og allir leggja eitthvað af mörkum til að auka á hana. Það er ekki erfitt starf að vera fararstjóri þessa hóps. Í rauninni er það bara skemmtileg áskorun. Þegar maður kemur heim getur maður verið dásamlega þreyttur en byrjar samt strax að láta sig dreyma um og undirbúa næstu ferð. Í flestum mínum ferðum finnst mér ég sjálf vera í fríi, þrátt fyrir verkefnin sem fylgja fararstjórninni. Ég er alltaf að upplifa eitthvað nýtt og spennandi.“
Sigrún segir margt hafa breyst frá því að hún hóf gönguferilinn og nefnir lengd ferðanna sem dæmi. „Þær voru oft miklu lengri í þá daga. Okkur fannst ekkert mál að fara í níu daga gönguferð og ég man að einu sinni skipulagði Guðmundur þriggja vikna göngu frá Hesteyri suður í Norðurfjörð. Nú tímir fólk ekki að taka sér svo langan tíma, mér finnst það alveg vitlaus hugsun,“ segir Sigrún og hristir hausinn sposk á svip yfir nútímagöngumanninum. Þó svo að Íslendingar kjósi nú styttri ferðir en áður má telja víst að fjöldi fótspora hefur aukist umtalsvert. „Það eru miklu fleiri sem ganga í dag og fjallgöngur og óbyggðagöngur eru nú orðnar miklu útbreiddara sport. Þetta var löngum þannig að fólk komst ekki á gönguskeiðið fyrr en börnin voru orðin 10 til 12 ára. Nú er meðalaldur kvenna hærri við fyrsta barn og því eru margar búnar að ánetjast göngufíkninni fyrir barneignir og því fljótari að demba sér út í þær aftur þegar tækifæri gefst. Þess vegna hittir maður mikið oftar ungt fólk í alvörugönguferðum. Svo er komið þetta skemmtilega fyrirbæri sem er Ferðafélag barnanna og Ferðafélag unga fólksins þannig að í rauninni þarf maður aldrei að hætta. Á meðan barn er í vagni þá er meira að segja hægt að taka þátt í barnavagnaviku.“
„Það er alveg ljóst að mjög miklar breytingar hafa orðið í samfélaginu síðustu ár ef litið er til ferðalaga almennt á Íslandi. Ferðafólk er ekki alls staðar litið sömu augum og gert var t.d. fyrir 11 árum þegar ég kom inn í stjórn FÍ. Aukning erlendra ferðamanna hefur vissulega haft áhrif. Áhugi Íslendinga á ferðalögum innanlands hefur að sama skapi aukist. Það er hörð samkeppni um landið og samkeppni um aðstöðuna sem FÍ hefur byggt upp víða á hálendinu. Mér finnst skipta miklu máli að til skuli vera áhugafélag eins og FÍ sem skipuleggur ferðir í takt við áhuga sinna félagsmanna, opnar í raun landið fyrir þeim með ferðum, gistiaðstöðu og fróðleik.
Almennt finnst mér Ferðafélagið vera á frábærri siglingu í því sem það er stofnað til að vera. Það greiðir fyrir ferðum fólks um landið, finnur stöðugt upp á nýjum, áhugaverður ferðum og hlúir jafnframt að gömlum og grónum leiðum. Nýjar hugmyndir hafa verið framkvæmdar og þar á framkvæmdastjórinn okkar, Páll Guðmundsson, mikinn heiður skilið. Þar er ég að tala um fjallaverkefnin, lýðheilsuverkefnin, Ferðafélag barnanna og Ferðafélag unga fólksins. Einnig samstarfið við Háskóla Íslands. Það er hluti af því að vera vakandi fyrir því hvernig svona félag þróast og breytir áherslum í takt við nýja tíma og tíðaranda. Þarna er Ferðafélagið að gera alveg frábæra hluti. Ég er mjög þakklát fyrir að það skuli vera til svona öflugt félag sem sinnir svona margþættum verkefnum jafn vel og raun ber vitni. Verið er að renna mjög traustum stoðum undir félagið til frambúðar.“ Sigrún bendir á að meðalaldur félaga í Ferðafélaginu fari sífellt lækkandi og að nýir tímar kalli á nýjar hugmyndir sem mæta þörfum ferðafólks.
Sigrún leiðir sex daga göngu fyrir Ferðafélagið yfir Arnarvatnsheiði nú í byrjun ágúst sem skipulögð er í samstarfi við Arinbjörn Jóhannsson á Brekkulæk í Miðfirði. Það má segja að ferðin sé sérfag Sigrúnar sem hefur farið þarna yfir 25 sinnum. Arnarvatnsheiðin er í miklu uppáhaldi líkt og Hornstrandir en staðirnir tveir eru að hennar sögn algjörar andstæður.
„Á Hornströndum er maður mikið með fram sjónum og í fjallaskörðum sem voru alfaraleiðir á milli byggðarlaga en Arnarvatnsheiðin er sennilega afskekktasti staður á hálendi Íslandi. Þarna hef ég aldrei mætt manni og sú tilfinning er dásamleg. Þarna getur maður horft í 100 km út frá Langjökli og Eiríksjökli og eftir því sem maður kemur hærra inn í land því lengra sér maður norður á Strandir og út yfir Vatnsnesið. Jafnvel Mælifellshnjúkur kíkir yfir brúnir.“
Nokkra gangnamannaskála er að finna á leiðinni og í þeim gistir hópurinn. Þó svo að umferð manna sé ekki mikil er fuglalífið fjölbreytt og himbriminn er einkennisfugl svæðisins. „Þarna eru líka álftir með unga, töluvert um hávellur og kjóar koma til að athuga hvort það sé eitthvað að hafa. Svo hef ég séð fálka og rjúpur. Það er alveg dásamlegt að fylgjast með fuglalífinu. Þá er gaman að leggja net í vötn og veiða í matinn, skoða plöntur og tína fjallagrös. Ólýsanleg heiðarsæla.“
Greinin birtist fyrst í tímaritinu Ferðafélaginn, 90 ára afmælisriti Ferðafélags Íslands, sem út kom í byrjun júlí, 2017.