Ég hlakka til ferðasumarsins, segir Sigrún Valbergsdóttir.

Brú yfir Farið við Hagavatn, sem Ferðafélagið reisti á síðasta ári, opnar margvíslega möguleika til ferðalaga við sunnanverðan Langjökul.

“Ferðir með Ferðafélagi Íslands um slóðir sem eru í brennidepli umræðunnar hverju sinni njóta vaxandi vinsælda. Þar má til dæmis nefna skemmri ferðir í Þjórsárver, að Langasjó, upp með Þjórsá og víðar: svæði sem eru fjöldanum ekki aðgengileg eða fáir þekkja. Mörgum finnst sem landið öðlist líf þegar staðkunnugur leiðsögumaður, sem kann skil á náttúruvættum og sögum svæðisins, er með í för,” segir Sigrún Valbergsdóttur, formaður ferðanefndar Ferðafélags Íslands.

SigrúnFerðaáætlun Ferðafélags Íslands er komin út og vekur athygli, venju samkvæmt. Segja má að ferðirnar skiptist í fjóra meginflokka, þ.e. útrásarferðir um áhugaverð svæði erlendis, helgarferðir, dagsferðir og sumarleyfisferðir. Ferðir í síðastnefnda flokknum þetta árið eru um 30 talsins og liggja vegir til allra átta. Flakkað verður um flesta hluta landsins, en eigi að síður eru ferðir um Vestfirði og hálendið nokkuð áberandi.

Sígildar ferðir

“Oft eru sumarleyfisferðir Ferðafélagsins talsvert krefjandi og þarfnast góðs undirbúnings. Þá þykir fólki ákjósanlegt að slást í hópinn með okkur. Stór hópur fólks hefur áhuga á ferðum sem eru svolítið á fótinn,” segir Sigrún. Í þessu sambandi nefnir hún Hornstrandir, ferð í Héðinsfjörð, ferð á Tindfjallajökul og einnig ferð um Jónsmessuleytið sem ber yfirskriftina Björg í bú, þar sem gengið verður eftir Látrabjargi og um Rauðasand, Kollsvík og Örlygshöfn. Nokkrar sumarleyfisferðanna sem Ferðafélag Íslands býður upp á eru orðnar sígildar og hafa verið í boði lengi. Þar nefnir Sigrún sex daga Þjórsárveraferð úr Setrinu við Kerlingafjöll og suður fyrir Hofsjökul í Arnarfell hið mikla.

“Þá erum við með reglulegar ferðir um Laugaveginn, úr Landmannalaugum í Þórsmörk. Þær ferðir standa alltaf fyrir sínu, enda ganga þúsundir Laugaveginn á sumri hverju,” segir Sigrún.

Nýir möguleikar

Ferðafélag Íslands stóð fyrir byggingu brúar yfir Farið við Hagavatn, sem tekin var í notkun sl. sumar. Sú brú opnar margvíslega nýja möguleika, svo sem á fjögurra daga gönguferð frá Bláfellshálsi, um Hagavatn, Hlöðufell, á Skjaldbreiður og að Laugarvatni sem farin verður síðast í júlí og er Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags Íslands, fararstjóri. Þá er ónefnd ferð í júlí þar sem dvalið verður þrjá daga í Hrafntinnuskeri og gengið, með Höskuldi Jónssyni og fleirum, á Torfajökulsfjöllin, sem hafa verið í umræðu síðustu misseri vegna áforma um orkunýtingu.

Sigrún Valbergsdóttir er fararstjóri í þremur sumarleyfisferðum Ferðafélags Íslands í ár. Í maí leiðir hún fjögurra daga sögugöngu um Mýrar, þar sem Magnús Jónsson segir fólki frá fornsögum sem tengjast svæðinu. Jónsmessa og jóga á Hornströndum er yfirskrift ferðar Sigrúnar síðustu dagana í júní þar sem dvalist verður sex daga í Hlöðuvík við jógaæfingar. Með eilífðinni á Arnarvatnsheiði nefnist ferð snemma í júlí þar sem gengið verður frá Surtshelli í Hallmundarhrauni austur að Langjökli og þaðan norður í  Miðfjörð.

“Þessar ferðir eru hver annari ólíkari, bæði að upplagi og eins ferðamátinn, sem eru flug, bíll, bátar og tveir jafnfljótir. Ég hlakka mjög til ferðasumarsins sem framundan er, upplifi ekki sumarið nema úti í náttúrunni og upp til fjalla. Þar nýt ég mín best.”