,,Eigum að vera hugsjónafélag," segir forseti FÍ

Starfið fjölbreytt, skemmtilegt og gefandi segir Ólafur Örn Haraldsson forseti FÍ:

Eigum að vera hugsjónafélag

Olafur_Orn_300

„Mikið líf og fjör er í stafsemi Ferðafélags Íslands þessi misserin og starfið fjölbreytt, skemmtilegt og gefandi.  Þar kemur til stóraukinn áhugi fólks á útvist og ferðalögum en ekki síður að almenningur telur grunngildin í starfsemi félagsins nú eiga erindi við sig," segir Ólafur Örn Haraldsson forseti Ferðafélags Íslands.Starf FÍ hefur eflst að mun á undanförnum árum, félögum hefur fjölgað og nú lætur nærri að þeir séu um átta þúsund.

Þátttaka í ferðum er góð þar sem róið hefur verið á ný mið. Áhersla er lögð á að ná til yngra fólks og fjölskyldna, til dæmis með í barnavagnagöngum og Ferðafélagi barnanna. Þá er góð þátttaka í verkefninu 52 fjöll sem hrundið var af stað nú í ársbyrjun og svo virðist sem margir ætli að taka þeirri áskorun að ganga á eitt fjall í viku yfir árið.„Það er eitt af keppikeflum okkar að ná til fjöldans og virkja fólk til þátttöku í góðum hópi," segir Ólafur Örn sem hefur tekið þátt í starfi FÍ síðan á barnsaldri.

Foreldrar hans, þau Haraldur Matthíasson og Kristín Ólafsdóttir að Laugarvatni, ferðuðust mikið með félaginu og Haraldur var höfundur nokkurra árbóka.„Þær ferðir með FÍ sem við systkinin fórum með foreldrum okkar voru afar skemmtilegar. Þar kynntist ég fjölda eftirminnilegra karla og kvenna sem höfðu mikil og mótandi áhrif á mig. Þegar ég lít til baka finnst mér hafa verið mikil heiðríkja yfir starfi FÍ á þessum árum og svo er raunar enn.

"Grunngildin í starfi FÍ eru  einkum fjögur, að sögn Ólafs, það er skipulagning ferða, útgáfa rita um land og leiðir, rekstur skála víða um landið og í fjórða og síðasta lagi náttúruvernd í sinni víðustu merkingu. Sjálfboðaliðastarf er burðarásinn í starfi FÍ. Hópar röskra félaga sinnir ýmsum verkefnum á vettvangi félagsins, svo sem viðhald skála, merkingu gönguleiða, fararstjórn að nokkru leyti og þannig mætti áfram telja.

Â„Í sjálfboðastarfinu felst kjarninn í félagsstarfi okkar og ég legg mikla áherslu á að FÍ verði aldrei ferðaskrifstofa. Félagið er og á jafnan að vera vettvangur fyrir fólk sem vill ferðast um landið sitt í góðum hópi. FÍ er hugsjóna- og framfarafélag og í það eigum við að halda," segir Ólafur Örn sem  sl. eitt og hálft ár hefur  unnið að ritun Árbókar FÍ 2010. Bókin kemur út, venju samkvæmt, með hækkandi sólu og fjallar að þessu sinni um Friðlandið að fjallabaki, þar sem Landmannalaugar, Jökulgilið, Hrafntinnusker og fleiri staðir eru djásn í kórónu landsins.

„Árbækurnar og útgáfa þeirra eru einn mikilsverðasti þátturinn í starfsemi okkar. Í krafti langrar sögu og hefða eru miklar kröfur gerðar til FÍ og okkur sem erum í forystu félagsins í dag er metnaðarmál að standa undir þeim," segir  Ólafur Örn.