Eitt fjall á mánuði 2012 - Helgarfell ofan Hafnarfjarðar

Fjall mánaðarins í janúar er Helgafell ofan Hafnarfjarðar.

Fyrsta ganga verkefnisins Eitt fjall á mánuði 2012 á vegum Ferðafélags Íslands verður  farin laugardaginn 28. janúar.

 

Gengið verður á Helgafell ofan við Hafnarfjörð sem er 338 m. hátt fjall sem rís tignarlega upp á hraununum ofan Kaldársels sem liggur ofan við Hafnarfjörð. Þótt  fellið sé ekki hátt er það áberandi á svæðinu bæði vegna þess að það stendur eitt og sér en einnig er það mjög formfagurt  með skálum giljum og fallegum móbergsmyndunum.

Útsýni af Helgafelli er suður um Reykjanes, fjallahringur Faxaflóa og um höfuðborgarsvæðið.

Fjallið myndaðist við gos undir jökli seint á ísöld og er ein af mörgum smáum móbergsmyndunum  Reykjanesskagans.

 

Gönguleið okkar liggur frá Kaldárseli sem er við upptök Kaldár ofan Hafnarfjarðar. Við förum upp með girðingu vatnsverndarsvæðis Hafnfirðinga og stefnum að norð-austurenda fjallsins. Þegar komið er upp undir lítið skarð sem liggur milli Valabóls og Helgafells er lagt á brattann upp hlíðina á norðurtagli fjallsins. Síðan er gengið áleiðis upp á hrygginn sem liggur eftir endilöngu fjallinu og fylgt berum móbergsklöppum sem geta verið hálar ef ís eða svell verða á fjallinu. Því er nauðsynlegt að fara með gát og gott að hafa létta brodda meðferðis til að bregða undir skóna ef þörf er á. Farið verður rólega og með aðgæslu ef aðstæður eru erfiðar. Fjallshryggnum er fylgt uns komið er á hæsta tindinn og ætti gangan að vera auðveld fyrir alla.

Sjá kort af leiðinni >>

Mikilvægt er að vera búin í samræmi við veður og aðstæður. Ganga á Helgafell er ekki mikið starf en á þessum árstíma geta verið aðstæður  með þeim hætti að auðvelt er að blotna og kólna. Því er mikilvægt að reyna á fatnað, búnað og sjálfan sig við vetraraðstæður.

 

Upphafsstaður göngu er við enda Kaldárselsvegar aðeins lengra en Kaldársel, hús KFUM. Ekið er um Hafnarfjörð Reykjanesbrautina uns komið er að mislægum gatnamótum nálægt kirkjugarði í Hafnarfirði. Þar vísa skilti á Kaldársel og er beygt inn á veg númer 410 inn á Kaldárselsveg.  Þeim vegi er fylgt til enda.

Þar hefst gangan kl. 10.00. en þeir sem vilja geta hist í Mörkinni 6 við húsakynni Ferðafélagsins og sameinast í bíla. Brottför úr Mörkinni 6 er kl. 09.15.

Um er að ræða 260 metra hækkun og lengd göngu er 5-6 km. fram og til baka.

Gera má gera ráð fyrir að hópurinn verði aftur við bíla  um kl. 13.30.

 

Fararstjórar eru:

Örvar Aðalsteinsson                8993109         Ævar Aðalsteinsson                 6965531

Ólafía Aðalsteinsdóttir           8622863         Einar Ragnar Sigurðsson          8998803

Pétur Ásbjörnsson                   8987960

 

Hér er kort sem sýnir staðsetningu FÍ.