Eitt fjall á viku árið 2012

Ferðafélag Íslands hefur í tvö ár starfrækt verkefni sem er ýmist kallað 52 fjalla verkefnið eða Eitt fjall á viku . Það  hefur notið mikilla vinsælda og hafa þátttakendur verið langt á annað hundrað bæði árin sem því hefur verið haldið úti.

Nú er verkefni nýs árs í mótun og verður boðað til kynningarfundar snemma í janúar með auglýsingum í blöðum milli jóla og nýárs.
Í öllum meginatriðum verður verkefnið með svipuðu móti og verið hefur undanfarin tvö ár. Þó eru alltaf smávægilegar breytingar milli ára sem mótast af reynslunni sem safnast fyrir. Þannig hefur t.d. Hekla verið tekin af dagskránni og skemmtiferð til Vestmannaeyja sett á dagskrá í staðinn en þar ganga þátttakendur á hæstu fjöll Heimaeyjar og kynnast menningu eyjarskeggja.

Á nýju ári verður fyrir utan fjöllin 52 boðið upp á tvö námskeið sem eru innifalin. Annars vegar er GPS námskeið þar sem farið er gegnum stillingar og notkun GPS tækja og helstu atriði siglingafræðinnar yfirfarin.
Hinsvegar er kynning á búnaði, mataræði og líkamsþjálfun sem tengist útivist. Umsjón þessara námskeiða verður í höndum fararstjóra verkefnisins.
Allir þátttakendur fá gefins buff sem eru merkt FÍ svo hópurinn geti auðkennt sig þegar þörf er á og allir sem skrá sig fá sérstakt búnaðarskírteini sem er nokkurs konar aðgöngumiði að rausnarlegu sértilboði útivistarverslana á nauðsynlegum fatnaði til að stunda útivist allan ársins hring.
Þannig tekur þetta vinsæla verkefni alltaf smávægilegum breytingum milli ára því mikilvægt er að læra af reynslu hvers árs og sækja þannig fram.
Umsjónarmaður og aðalfararstjóri verkefnisins á nýju ári verður Páll Ásgeir Ásgeirsson en aðrir fararstjórar í teyminu eru: Hjalti Björnsson, Rósa Sigrún Jónsdóttir, Guðmundur Sveinbjörn Ingimarsson, Anna Lára Friðriksdóttir og Brynhildur Ólafsdóttir.
 Þau eru öll þrautþjálfaðir reynsluboltar með fjölbreyttan feril að baki og ólíka þekkingu á ýmsum sviðum.

Vegna fjölda áskorana hefur verið opnað fyrir skráningu í 52 fjalla verkefnið árið 2012 og geta þeir sem vilja hringt á skrifstofu Ferðafélags Íslands í síma 5682533 og tryggt sér pláss. Einnig er hægt að kaupa gjafabréf fyrir verkefnið sem er virkilega góð jólagjöf.
Hér fyrir neðan er mynd af 52 fjalla hópnum 2011 eða 52 fjalla fjölskyldunni eins og hópurinn kallar sig stundum. Myndin er tekin á Geitafelli snemma árs.

Geitafelli