Ferðafélag Íslands hefur hrundið af stað verkefninu ,,Eitt fjall á viku" en í verkefninu verður gengið á eitt fjall á viku allt árið 2010 og því samtals 52 fjöll á árinu. Meðal annars verður gengið á öll fjöll í nágrenni Reykjavíkur en einnig verður gengið á fjöll víða um land.
,,Við viljum með þessu hvetja fólk til að hreyfa sig og stunda útiveru og fjallamennsku en fjallgöngur eru ein allra besta likamsrækt sem völ er á," segir Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ sem verður fararstjóri í öllum ferðunum 52. ,,Hugmyndin er komin frá konu minni Auði Kjartansdóttur sem var að hvetja mig til að hreyfa mig meira og relgulegar. Við göngum á bæði létt fjöll en einnig á sum af stærri fjöllum landsins og má nefna sem dæmi að við göngum t.d. á Helgafell, Úlfarsfell og Grímarsfell en einnig á Heklu, Snæfellsjökul og Hvannadalshnúk.
Undirbúningsfundur fyrir verkefnið verður haldinn fimmtudaginn 7. janúar kl. 20 í sal FÍ Mörkinni 6 og fyrsta fjallgangan verður sunnudaginn 10. janúar en þá verður gengið á Helgafell.
Á undirbúningsfundinum verður meðal annars farið yfir dagskrá ársins en búið að að velja öll fjöll og ákveða dagssetningar en fjallgöngurnar skiptast niður á miðvikudaga, fimmtudaga, laugardaga og sunnudaga eftir árstíðum.
Hópurinn sem gengur á fjöllin 52 verður aldrei stærri en 52 en ef þátttaka verður mikil þá verða myndaðir fleiri hópar.