Nú þegar haustar og haustlægðir ganga yfir landið þá er allra veðra von og veðrið sífellt breytilegt eins og við þekkjum. Því er mikilvægt að vera vel búin og hafa kynnt sér veðurspá og aðstæður áður en haldið er til fjalla.
Við óskum okkur yfirleitt sólar og blíðu þegar kemur að gönguferðinni en við búum á Íslandi og vitum að sú ósk rætist ekki alltaf. Það þarf þó ekki að örvænta þó rigning og jafnvel einhver vindur sé í kortunum þegar við höldum af stað. Við þurfum bara að vera rétt búin, bæði hvað varðar búnað en líka stilla hausinn rétt því allt verður auðveldara með jákvæðu hugarfari.
Við þurfum að vera í góðum 3ja laga skelfatnaði sem heldur regni. Engin skel er alveg regnheld en gamlar lekar skeljar duga ekki í íslenskri rigningu. Skelvettlingar, jafnvel utan um ullarvettlinga, eru líka frábærir á kaldari rigningadögum. Sumir kalla þetta belgvettlinga en þeir eru úr regnheldu efni og fást í öllum betri útivistarbúðum.
Það er betra að vera með nesti sem krefst þess ekki að við setjumst niður í lengri tíma. Nesti sem við getum stungið upp í okkur í bitum án þess að þurfa kannski mikil mataráhöld er best því ef veður er leiðinlegt þá verða stoppin styttri. Það er líka mjög gott að hafa nesti við höndina sem hægt er að grípa í á göngu til að passa upp á orkuna, til dæmis í hliðarvösum á bakpokanum eða í lítill tösku framan á okkur.
Þegar við erum að ganga í hópi þá fer hópurinn iðulega jafn hratt og hægasta manneskjan í hópnum. Stundum er hægt að teygja aðeins úr honum þegar aðstæður eru mjög góðar en þegar veðrið lætur finna aðeins fyrir sér þá þarf að halda hópinn. Það segir sig sjálft að það er mjög sjaldgæft að öll gangi alla jafna jafn hratt og því er gott ráð fyrir þau sem eru aðeins hraðgengari að klæða sig í aukalag á fötum til að halda á sér hita. Þannig ættum við öll að geta gengið saman og liðið vel og hlakkað til að komast í tjöld eða skála til að láta líða úr okkur þreytuna og næra okkur vel fyrir næsta dag.
Það er góð regla að pakka öllu í bakpokanum í vatnshelda poka til að halda öllu þurru. Það er frábært að nota þurrpokana sem fást í útivistarbúðum en það má líka nota sterka plastpoka. Þannig höldum við ekki bara dótinu okkar þurru, heldur eigum líka auðveldara með að skipuleggja það og þar með finna það sem við leitum að þegar við þurfum á því að halda. Svo er um að gera að nota líka hlífina sem fylgir mörgum bakpokum.
Sólgleraugu virka líka vel í rigningu því þau hlífa augunum líka fyrir rigningu og vindi. Sem og auðvitað sandfoki þegar það er þurrt. Derhúfur koma líka oft að góðum notum í fleiri veðrum en sól.